Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhann Birgir Magnússon eru bændur á Bessastöðum á Heggstaðanesi. Þau byggja búskap sinn á mjólkurframleiðslu og segja kýrnar borga launin. Hestarnir gefi búskapnum hins vegar fyllingu og leggi grunn að uppbyggingu þegar verðmætir gæðingar eru seldir.
Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhann Birgir Magnússon eru bændur á Bessastöðum á Heggstaðanesi. Þau byggja búskap sinn á mjólkurframleiðslu og segja kýrnar borga launin. Hestarnir gefi búskapnum hins vegar fyllingu og leggi grunn að uppbyggingu þegar verðmætir gæðingar eru seldir.
Mynd / ál
Viðtal 26. júlí 2024

Sóknarfæri í loftslagsvænum búskaparháttum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Bessastöðum í Hrútafirði búa bændurnir Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhann Birgir Magnússon. Þau eru kúabændur og öflug í hrossarækt, ásamt því sem þau hafa gripið til ýmissa aðgerða til að gera búið loftslagsvænna.

Guðný er fædd árið 1969 og uppalin á Bessastöðum á meðan Jóhann á rætur að rekja til Skagafjarðar, þar sem hann fæddist árið 1966. Þau kynntust á Hvanneyri þar sem þau stunduðu nám í búvísindum, en áður hafði Guðný útskrifast úr Verzlunarskólanum og Jóhann úr hestafræði við Landbúnaðarskólann á Hólum.

Guðný missti föður sinn úr krabbameini árið 1992. Þökk sé föðurbróður hennar var búinu haldið gangandi á meðan unga parið lauk sínu námi á Hvanneyri og tóku þau formlega við Bessastöðum vorið 1995. Þau viðurkenna að þau hafi ekki endilega ætlað sér að verða bændur, en Guðný hafði gaman af bókhaldi og rekstri og kunni Jóhann vel við sig í starfi hjá Landgræðslunni. Þetta hafi hins vegar verið tækifæri sem þau vildu ekki sleppa. Eftir að þau tóku við þurftu þau bæði að starfa utan bús, enda skuldsett eftir kaupin á jörðinni. Guðný vann þá sem ráðunautur í hlutastarfi og var Jóhann áfram hjá Landgræðslunni í nokkurn tíma ásamt því að sinna hrossadómum á vorin. „Svo hef ég alla ævi starfað sem tamningamaður,“ bætir hann við og segir tvo þriðju af sínum tíma fara í hestamennskuna.

Búið á Bessastöðum samanstendur af þrjátíu mjólkurkúm, þrjátíu hestum og þar af eru tólf til fjórtán hross í þjálfun á hverjum tíma. Þar að auki hefur verið útbúin gistiaðstaða fyrir ferðamenn í einu húsi á bænum og stunda Guðný og Jóhann jafnframt skógrækt. Bessastaðir eru á Heggstaðanesi utarlega í austanverðum Hrútafirðinum. „Sumarið er besti dagur ársins,“ segir Jóhann aðspurður um hvernig sé að búa á þessum slóðum. Hann nefnir jafnframt að síðustu vetur hafi oftast verið góðir og bærðist varla hár á höfði svo vikum og mánuðum skipti. Guðný bætir við að bæjarstæðið standi við opið haf sem vísi beint til norðurs og að vorin geti verið erfið. Á þeim tíma sé ósjaldan sól, en henni fylgi kröftug innlögn að norðan.

Bessastaðir séðir úr lofti. Lengst til vinstri sést hús þar sem er gistiaðstaða fyrir ferðamenn, í miðjunni er íbúðarhúsið og til hægri eru útihúsin. Þar eru þrjátíu kýr og þrjátíu hestar. Mynd / Jón Ingi Einarsson.

Hámarka nýtingu mykjunnar

Guðný og Jóhann eru þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Meðal áhersluatriða verkefnisins sé að efla bændur í að minnka notkun tilbúins áburðar og bæta nýtingu þess lífræna. Guðný segir það hafa vakið þau til umhugsunar og hafa hjónin því meðal annars reist stóran mykjutank og keypt haugsugu með niðurlagningarbúnaði.

Ein af leiðunum til að hámarka nýtingu þess áburðar sem verður til á búinu sé að hafa nægt geymslupláss svo hægt sé að miða við að dreifa skítnum þegar hann nýtist plöntunum best. Þar skipti mykjutankurinn höfuðmáli og þarf ekki lengur að keyra út mykju á veturna þegar haughúsið fyllist. Með því að bera skít á snjó eða freðna jörð tapist köfnunarefnið að langmestu leyti, en það er eitt mikilvægasta næringarefnið fyrir plöntur.

Niðurlagningarbúnaðurinn er ólíkur hefðbundnum haugsugum á þann hátt að aftan á tankinum eru fjölmargar slöngur á tveimur bómum og er mykjunni sleppt rétt við yfirborðið í staðinn fyrir að úða henni upp í loftið með tilheyrandi uppgufun næringarefna.

Mykjutankurinn skiptir höfuðmáli til að hámarka nýtingu lífræns áburðar.

Langt fram úr væntingum

Jóhann segist hafa verið hæfilega skeptískur á virkni búnaðarins, en árangurinn hafi farið fram úr öllum væntingum. Til að mynda þurfi ekki tilbúinn áburð á milli slátta, heldur er eingöngu borin mykja á túnin. Þá sjáist afar skýr munur á hversu vel túngrösin þrífast ef einhverjir smá blettir verða útundan. Vegna vatnsþynningar fari 30 til 40 tonn á hektarann og viðurkenna hjónin að þetta sé þung umferð sem geti haft neikvæð áhrif. Það sé hins vegar ákveðinn kostur að fá vökvun í leiðinni og bendir Jóhann á að stór hluti köfnunarefnisins í vatnsþynntri mykju sé ammoníak, sem sé aðgengilegasta form niturs fyrir plöntur.

Mykjutankurinn stendur hundrað metrum frá haughúsinu og örlítið ofar. Hann er tengdur með fimmtán sentímetra breiðri lögn og dæla hjónin úr haughúsinu á nokkurra mánaða fresti. Dælan er knúin áfram af dráttarvél og tekur sex klukkustundir að losa hauggeymsluna. Jóhann segir að miðað við árangurinn af þessu hefði hann áhuga á að fá öflugan köfnunarefnisgjafa, eins og kjötmjöl, til að bæta í mykjutankinn. „Það er verið að urða helling af lífrænum áburði sem gæti nýst okkur vel í þessu. Maður spyr sig líka hvað verði um allt hráefnið sem áður fór í loðdýraræktina. Er hægt að gera þetta í staðinn fyrir að flytja yfir hafið allan þennan köfnunarefnisáburð?“ spyr Jóhann. Hann bendir á að með vandaðri nýtingu búfjáráburðar geti hann uppfyllt fosfór- og kalíumþarfir túna sem eru í góðri ræktun og með réttu sýrustigi.

Guðný og Jóhann á kaffistofunni í fjósinu. Þar er fjöldi verðlaunagripa sem Jóhann hefur hlotið fyrir hestamennsku og hrossarækt undanfarna áratugi. Kaffistofan hefur fengið viðurnefnið Upphæðir vegna þess hversu hátt er undir hana.

Vilja loftslagsvæna búvörusamninga

Guðný telur að horfa ætti til þeirra sóknarfæra sem felist í loftslagsvænni landbúnaði við gerð nýrra búvörusamninga. Íslenskir bændur keppi við innflutning á matvælum sem séu ræktuð við auðveldari ræktunarskilyrði í löndum þar sem framleiðslan sé ekki síður niðurgreidd. Því væri réttast að miða við að styrkjakerfið hér leiði til hagkvæmari búskaparhátta sem séu jafnframt loftslagsvænni.

Gripagreiðslur vinni til að mynda gegn þeim markmiðum, en þær umbuni bændum eftir því sem kýrnar mjólka minna. Það sama megi segja um landgreiðslurnar, en í tölum hjá RML megi sjá að best reknu búin séu þau sem eru með hlutfallslega fæstu hektarana, því hver og einn þeirra gefi svo vel af sér. Hún telur að þessi leið hafi verið farin þar sem auðveldast sé að styrkja út á hvern grip og hvern hektara ræktarlands.

Aðspurð um aðrar leiðir leggja þau til að styrkt væri út á uppskerumagn af hverjum hektara og gerð væri krafa um að heyið næði ákveðnum þröskuldi í gæðum. Jóhann bætir við að ef lágmarksgæði uppskeru væri forsenda styrkja myndi þar með skapast hvati til að efla jarðrækt, en þar séu vannýtt tækifæri.

Hrossin fá frítt hey

„Kýrnar borga launin og hestarnir fá frítt hey hjá kúnum,“ segir Guðný. Jóhann bætir hins vegar við að þegar seldir eru verðmætir hestar leggi þeir grunninn að uppbyggingu á búinu, svo sem til að kaupa mjaltaþjón eða endurnýja tæki.

„Þegar hrossin hafa staðið straum að fjárfestingu fyrir kýrnar eru þau búin að skilyrða það að þau fái frítt hey í staðinn,“ segir hann. Þá séu jafnframt alltaf einhver hross á bænum sem Jóhann temur fyrir aðra sem skili tekjum fyrir daglegum rekstri. Núna þegar stór hluti túnanna á jörðinni hefur verið endurræktaður á síðustu árum geti Guðný og Jóhann leyft sér að gefa hrossunum hey af sömu túnum og eru hugsuð fyrir kýrnar. Eini munurinn sé sá að þá sé vallarfoxgrasið látið spretta tveimur vikum lengur en æskilegt er fyrir mjólkurframleiðslu, en þetta er sama hey og er ætlað geldkúnum. Með þessum hætti verði hlutfallið milli orku og próteins hrossunum í hag. Jafnframt sé þetta hey gróft og eru hrossin lengi að éta það.

Hestamennska mikil áskorun

Jóhann segir að mesti virðisaukinn sé í hestamennskunni þegar ræktendur fari með hross í keppnir og á sýningar. Fólk úti um allan heim fylgist með hrossarækt á Íslandi og þá skipti máli að á bak við hvern hest séu tölur og einkunnir sem fáist við þátttöku í keppnum.

Þá sé ekki síður mikilvægt að birta myndir og myndbönd af hestunum. Hjónin halda því úti heimasíðunni bessastadir.is ásamt því að vera virk á Facebook og Instagram undir heitinu „Bessastadir Guðný og Jói“ þar sem þau reyna stöðugt að halda hrossaræktinni á lofti.

Jóhann segist oft hafa fengið símtöl frá erlendu fólki sem hann hefur aldrei kynnst áður eftir að hafa náð góðum árangri með hest. Þeir áhugasömustu geti verið komnir til landsins nokkrum dögum síðar og mættir á hlaðið á Bessastöðum til að skoða hestinn nánar. Stærsti markaðurinn fyrir íslenska hestinn sé erlendis. Oft þegar gæðingar séu seldir innanlands sé það vegna þess að kaupandinn var að selja annan úr landi. Að auki við keppnishesta telur Jóhann mikilvægt að gleyma ekki hinum úrvalsgóðu útreiðahestum sem verði til þess að fólki finnist gaman að fara á hestbak. „Það fer enginn út í þetta sem eitthvað keppnissport ef honum finnst ekki gaman eitt og sér að vera ríðandi á hesti einhvers staðar niður með ánni úti í náttúrunni.“

Jóhann nýtur þess að takast á við þær áskoranir sem felist í hrossarækt og hestamennsku. „Það er enginn sem grípur þig ef þú klúðrar þessu. Þú verður að gera þetta alveg sjálfur – alveg frá því þú velur hvaða hestur fer á hvaða hryssu og þangað til að þú ert búinn að selja það sem kom. Þá hefur þú engan nema sjálfan þig til að láta þetta gerast,“ segir Jóhann.

Tveir þriðju af tíma Jóhanns fara í hrossarækt og þjálfun. Hér er hann á Frá frá Bessastöðum sem fékk 9,5 í kynbótadómi í vor.

Vönduð kaffistofa í fjósinu

Þegar hitaveita var lögð um sveitina fyrir nokkrum árum sáu Guðný og Jóhann möguleika á því að innrétta upphitaða aðstöðu í fjósinu, enda hvergi hægt að geyma verkfæri eða raftæki án þess að þau skemmdust vegna raka og kulda.

Þau byrjuðu á því að útbúa, þar sem áður voru hlöður, einangrað herbergi fyrir salerni og verkfærageymslu. Þá sáu þau að hægt væri að útbúa kaffistofu þar fyrir ofan. Vegna tæknilegra atriða endaði kaffistofan á að vera helmingi stærri en upphaflega stóð til og þar sem þau voru að þessu til að byrja með ákváðu þau að gera aðstöðuna mjög góða. Þau eru því með nánast fullbúin híbýli í fjósinu og segja þau margar sölur á hestum hafa átt sér stað þar. Þar séu öll hádegishlé tekin og þurfa Guðný og Jóhann ekki að koma heim í bæ fyrr en á kvöldin. Til þess að gera vélagengt undir kaffistofuna er hún býsna hátt uppi og hefur því fengið viðurnefnið Upphæðir.

Kaffistofan hefur fengið viðurnefnið Upphæðir vegna þess hversu hátt er undir hana.

5 hlutir sem Guðný & Jóhann geta ekki verið án

1. Lína mjaltastúlka:

Það er gælunafn róbótsins.

2. Hestar:

Þeir gefi búskapnum fyllingu.

3. Síminn:

Með honum er hægt að fylgjast með róbótnum, ferðaþjónustunni o.fl.

4. Heiti potturinn:

Þar endar vinnudagurinn.

5. Fjósavélin:

Þau myndu ekki vilja bera allt heyið á höndum.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt