Mugga bar þremur kvígum
Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfingum í lok júní.
„Burðurinn gekk ótrúlega vel, kálfarnir eru sprækir og mamma þeirra líka. Nú er aðal höfuðverkurinn að finna nafn á alla kálfana en Úllen, Dúllen og Doff gætu komið til greina,“ segir Gunnhildur Gylfadóttir kúabóndi létt í bragði. Þetta var þriðji burður Muggu en faðir kálfanna er nautið Óðinn 21002. Mamma Muggu var tvíkelfingur og hétu þær systur Sí og Æ. Ábúendur á Steindyrum eru þau Gunnhildur og Hjálmar Herbertsson, sem eiga fjögur börn.
Mjólkurkýrnar á bænum eru um 65 talsins en á búinu eru líka kindur, geitur, hross og hænur svo eitthvað sé nefnt.