Líf og fjör í Tungnaréttum
Tungnaréttir í Biskupstungum í Bláskógabyggð fóru fram laugardaginn 12. september í blíðskaparveðri. Réttarstemningin var óvenjuleg í ár því aðeins máttu 200 manns vera í réttunum í einu vegna COVID-19.
Það voru því aðeins bændur og búalið sem sáu um að draga það fimm þúsund fjár sem var í réttunum í dilka sína. Allt gekk eins og smurð vél enda tóku réttarstörfin ekki nema tæplega tvær klukkustundir. Á eftir tóku bændur og þeirra fólk við að syngja nokkra réttaslagara áður en féð var rekið eða keyrt heim á bæina. Magnús Hlynur Hreiðarsson fékk leyfi til að mynda í réttunum.
Þessi Landrover vakti athygli í réttunum en hann var notaður sem kaffi- og nestisbíll fyrir fólkið á Vatnsleysu en bíllinn á lögheimili þar, ættaður úr Víðidalstungu í Vestur-Húnavatnssýslu.
Hjón frá Úthlíð og Heiði áttu góða stund saman í réttunum en þetta eru þau, talið frá vinstri, Inga Margrét Skúladóttir og Ólafur Björnsson frá Úthlíð og Guðmundur Bjarnar Sigurðsson og Guðríður Egilsdóttir frá Heiði. Öll eru þau þó búsett á Selfossi.
Brynjar Sigurðsson á Heiði stjórnaði söngnum af röggsemi og gaf tóninn áður en byrjað var á lögunum.