Litskrúðugt fé í Holta- og Landsveit
Hin árlega fjárlitasýning hjá fjárræktarfélaginu Lit í Holta- og Landsveit var haldin sunnudaginn 4. október síðastliðinn.
Sýningin var haldin í Árbæjarhjáleigu og þar gat að líta margar skemmtilegar litasamsetningar, en litafjölbreytileiki er einmitt eitt af einkennum íslenska sauðfjárstofnsins.
Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu vestan Ytri-Rangár, kynnir sýningarinnar, segir að þessi sýning veki stöðugt meiri áhuga, en um 150 manns mættu á litasýninguna að þessu sinni. Formaður fjárræktarfélagsins Lits er Guðlaugur Kristmundsson í Lækjarbotnum, en dómarar voru Sigurgeir Þorgeirsson og Jón Vilmundarson. Var féð dæmt eftir lit og gerð og gilti það til helminga.Verðlaun voru veitt þremur efstu í eftirfarandi flokkum:
- Lambgimbrar
- Lambhrútar
- Ær með lömbum
- Hrútar með afkvæmum
- Sérstakasti liturinn – kosinn af gestum.
Á hverju ári gefur eitthvert býlið gimbur sem er boðin upp og stendur hún undir kostnaði við sýningarhaldið. Boðin var upp botnótt gimbur frá Skarði og var það Lilja í Djúpadal sem bauð hæst.