Mikil ánægja með fjölmenningarráð
Fjölmenningarráð hefur tekið til starfa í Rangárþingi eystra.
Ráðið á að vera sveitarstjórn til ráðgjafar og upplýsingar um málefni sem tilheyra erlendum íbúum sveitarfélagsins. Ráðið fundar einu sinni í mánuði og fara allir fundir fram á ensku. „Við erum virkilega ánægð með að hafa komið ráðinu á laggirnar því við teljum mjög mikilvægt að raddir íbúa með erlendan bakgrunn heyrist og eigi aðgengi að málefnum sveitarfélagsins. Hlutfall erlendra íbúa hjá okkur í dag er um þrjátíu prósent,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri.
Fimm manns skipa ráðið, allt erlendir íbúar. Auglýst var eftir fulltrúum í þrjár stöður í ráðinu. Sláturfélag Suðurlands tilnefndi einn fulltrúa og ferðaþjónustan í Rangárþingi eystra tilnefndi líka einn fulltrúa. Gina Christie hefur verið kjörin formaður ráðsins. Með ráðinu starfar Helga Guðrún Lárusdóttir, sem er fjölmenningarfulltrúi Rangárþings eystra.