Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. Hún flutti í sveitarfélagið um miðjan ágúst og segist hafa fengið frábærar móttökur enda sé fólkið og mannlífið það besta við sveitarfélagið.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. Hún flutti í sveitarfélagið um miðjan ágúst og segist hafa fengið frábærar móttökur enda sé fólkið og mannlífið það besta við sveitarfélagið.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 29. nóvember 2019

Mikill áhugi hjá ungu fólki að flytja í Húnaþing vestra

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Sveitarfélagið Húnaþing vestra er blómlegt hérað með fagra strandlengju og víð heiðarlönd. Það nær í suðri frá miðri Holtavörðuheiði og Arnarvatni norður Strandir að Stikuhálsi og að Gljúfurá í austri sem skilur sveitarfélagið frá Austur-Húnavatnssýslu.
 
Sveitarfélagið var stofnað árið 1998 við sameiningu hinna sjö gömlu hreppa Vestur-Húnavatnssýslu og árið 2012 stækkaði það með sameiningu þess við fyrrum Bæjarhrepp í Strandasýslu. Íbúar sveitarfélagsins eru 1200 og er Húnaþing vestra næststærsta sveitarfélagið á Norðurlandi vestra. 
 
Húnaþing vestra er staðsett miðsvæðis á milli Reykjavíkur og Akureyrar, þjóðvegurinn liggur í gegnum héraðið og því samgöngur og flutningsleiðir mjög greiðar. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir tók við stöðu sveitarstjóra í sumar en hún settist niður með blaðamanni til að segja frá sjálfri sér, sveitarfélaginu og fyrirhuguðum framkvæmdum þar.
 
Ólst upp á Hvanneyri
 
Ragnheiður er fædd í Reykjavík en flutti á Hvanneyri í Borgarfirði þegar hún var þriggja ára og er alin upp þar. Foreldrar hennar eru Ingimar Einarsson og Anna Kristinsdóttir. Hún á þrjár systur, þær Guðrúnu, Ingibjörgu Eydísi og Kristínu Erlu. Ragnheiður á tvo syni, Arnar Inga, sem er smiður og bóndi á Þverá í Öxnadal, og Rúnar Inga sem er matvælafræðingur og starfar hjá Matvælastofnun, svo á hún tvo ömmustráka í Öxnadal. 
 
„Ég bjó lengi á Akureyri og starfaði þar m.a. sem menningarfulltrúi hjá Eyþing í 10 ár. Árið 2017 flutti ég til Reykjavíkur og starfaði sem framkvæmdastjóri afmælisnefndar fullveldis Íslands þar til í byrjun árs 2019 og fram á vor 2019 var ég verk­efnaráðin hjá forsætisráðuneytinu þar sem ég sinnti verkefnum í tilefni 75 ára afmæli lýðveldisins,“ segir Ragnheiður.
 
Þrír þéttbýliskjarnar
 
Þrír þéttbýliskjarnar eru í sveitarfélaginu en það eru Hvammstangi, Laugarbakki og Borðeyri. Hvammstangi er stærstur þeirra með um 600 íbúa og þar er að finna alla helstu þjónustu. Um helmingur íbúa sveitarfélagsins býr í dreifbýli og er landbúnaður ein helsta meginstoð í atvinnu á svæðinu. 
 
Húnaþing vestra er eitt gjöfulasta sauðfjárræktarsvæði landsins, með mikil heiðar- og fjalllendi. Kúabúskapur er einnig á svæðinu. Húnaþing vestra er mikið hrossaræktarsvæði enda eru á svæðinu glæsileg ræktunarbú sem eftir hefur verið tekið. Ragnheiður segir að ferðaþjónusta sé veigamikil á svæðinu.
 
„Já, sem dæmi er rekið glæsilegt 56 herbergja hótel á Laugarbakka og fjölmargir minni gististaðir eru í sveitarfélaginu, hver með sína sérstöðu. 
 
Góðir veitingastaðir eru á svæðinu og fyrr á árinu var veitingastaðurinn Sjávarborg á lista Lonely Planet sem einn af bestu stöðunum til að borða á Íslandi og nú í haust var haldin matarhátíðin Réttir á Norðurlandi vestra þar sem gafst gott tækifæri til að heimsækja veitingastaði á svæðinu og kom mér á óvart hversu margir þeir eru og fjölbreyttir. Þá er Selasetur Íslands staðsett á Hvammstanga en það er einstakt á landsvísu og dregur fjölda gesta inn á svæðið. Selasetrið hefur fengið fjölda viðurkenninga og nú síðast vann það fyrstu verðlaun Evrópusamtaka menningarferðaþjónustuaðila (ECTN) í flokki óáþreifanlegrar arfleifðar.“
 
Fjölmargar náttúruperlur
 
Fjölmargar náttúruperlur eru í Húnaþingi vestra, sem draga að sér gesti. og þar má t.d. nefna Hvítserk, Kolugljúfur og Borgarvirki og gaman er að segja frá því að í tengslum við hátíðina „Eldur í Húnaþingi“ eru þar haldnir tónleikar sem fjölmargir listamenn hafa komið fram á. Söguslóðir draga líka að sér fjölmarga gesti en Bjarg í Miðfirði er fæðingarstaður Grettis sterka og nú er vinsælt að fara á söguslóðir Náðarstundar. Þá eru þekktar laxveiðiár í sveitarfélaginu.
 
Einn af hápunktum Ragnheiðar Jónu, sem framkvæmdastjóri afmælisnefndar fullveldis Íslands, var þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók á móti sérstökum fullveldisfernum af mjólk, sem var  afrakstur samstarfs afmælisnefndar fullveldis Íslands og Mjólkursamsölunnar. Fernurnar prýddu sex mismunandi textar og myndskreytingar um markverða atburði sem áttu sér stað á árinu 1918. Ragnheiður Jóna er lengst til hægri á myndinni. 
 
Fjölskylduvænt samfélag
 
Á Hvammstanga er þjónustukjarni sveitarfélagsins þar sem finna má alla helstu þjónustu. Ragnheiður segir að Húnaþing vestra sé fjölskylduvænt samfélag með hátt þjónustustig og metnaðarfullt starf fer fram í leik-, grunn- og tónlistarskóla. „Aðstaða til íþróttaiðkunar er mjög góð og mikið framboð af tómstunda- og íþróttastarfi þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 
 
Nýlega var vígð viðbygging við íþróttamiðstöðina sem má segja að sé hjarta samfélagsins, þar er líf og fjör allan daginn og fram á kvöld,“ segir sveitarstjórinn. Þá má geta þess að á Reykjum í Hrútafirði eru reknar skólabúðir þar sem tekið er á móti yfir þrjú þúsund börnum á hverju ári. Þar er líka að finna Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna sem dregur að sér fjölmarga gesti ár hvert. 
 
„Við erum líka með mjög öflugt menningarstarf en gott dæmi um það er Leikflokkur Húnaþings vestra sem setur að jafnaði upp tvær sýningar á ári og á síðasta ári var sýning leikflokksins valin áhugaverðasta áhugamannasýning ársins og fékk af því tilefni boð í Þjóðleikhúsið og sýndi þar tvær sýningar fyrir fullu húsi við góðan orðstír. Menningarfélag Húnaþings vestra stendur fyrir öflugu menningarstarfi allan ársins hring. Fjöldi kóra er starfandi á svæðinu auk annarrar félagsstarfsemi, s.s. ungmennafélög, kvenfélög, hestamannafélag og fleira,“ segir Ragnheiður um leið og hún vekur líka athygli á minningarhátíðinni „Eldur í Húnaþingi” sem haldin er hvert ár.
 
Mikið er byggt í sveitarfélaginu og fólki fjölgar og fjölgar sem vill eiga heima í Húnaþingi vestra. Mynd / Húnaþing vestra
 
Fimmtán íbúðir í byggingu
 
Mikil uppbygging á sér stað í Húnaþingi vestra og þarf að fara áratugi aftur í tímann til að sjá viðlíka uppbyggingu. Á síðustu tveimur árum hefur verið sótt um 23 lóðir og hafin er bygging á 15 íbúðum, þar af sex raðhúsaíbúðum sem sveitarfélagið stendur að í gegnum húsnæðisfélagið Bústaði.
 
„Þrátt fyrir þessa uppbyggingu er húsnæðisskortur í sveitarfélaginu og því má segja að staðan sé að mörgu leyti sérstök. Hér eru hús að rísa en ekki fyrirséð að það losni húsnæði á svæðinu þrátt fyrir áðurnefndar framkvæmdir. Það húsnæði sem auglýst er til sölu fer hratt og á hagstæðu verði, sérstaklega fyrir seljendur. Hér hefur orðið veruleg hækkun á fasteignamati. En betur má ef duga skal og huga þarf að áframhaldandi uppbyggingu á húsnæði í sveitarfélaginu því ljóst er að áhugi er hjá ungu fólki að flytja í Húnaþing vestra. Börnum hefur fjölgað í sveitarfélaginu og er skólahúsnæðið sprungið og á næsta ári verður byggt við grunnskólann og þá fara tónlistarskóli og grunnskóli undir sama þak sem verður til þæginda fyrir krakkana,“ segir Ragnheiður.
 
Einhleypar konur byggja sér einbýlishús
 
Það vekur athygli hvað íbúum í Húnaþingi vestra er að fjölga mikið, sem hljóta að vera mjög ánægjulegar fréttir fyrir sveitarstjórann og alla aðra íbúa sveitarfélagsins.
 
„Já, það er rétt, okkur fjölgar og fjölgar, í sumar fór íbúafjöldinn yfir 1.200 og hafa ekki fleiri verið íbúar í sveitarfélaginu síðan 2011. Unga fólkið hefur verið að flytja heim aftur og gaman að segja frá því að hér eru þrjár ungar, vel menntaðar einhleypar konur að byggja sér einbýlishús. Þær sjá tækifæri í að flytja heim og það sýnir okkur hversu mikilvægt er að leggja áherslu á fjölbreytt atvinnulíf, opinber störf og störf án staðsetningar, með því gefst ungu fólki tækifæri til að snúa heim að námi loknu,“ segir Ragnheiður.
 
23 flóttamenn frá Sýrlandi
 
Ragnheiður segir að hluta af fjölgun íbúa megi einnig rekja til þess að fyrr á árinu tók Húnaþing vestra við 23 flóttamönnum frá Sýrlandi og hefur aðlögun þeirra gengið vonum framar. Börnin aðlagast vel í skóla og leikskóla og fullorðnu einstaklingarnir eru nánast allir komnir í vinnu. „Þetta sýnir manni að samfélagsgerðin er sterk, þjónusta góð og samfélagið tekur vel á móti manni.“
 
Íþróttirnar skipta miklu máli
 
Nýlega var vígð viðbygging við Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra. Með tilkomu viðbyggingarinnar er aðstaða í Íþróttamiðstöðinni orðin hin besta og þjónusta við íbúana hefur aukist verulega. Anddyrið var stækkað og móttaka og aðkoma gesta orðin góð. Aðstaða til íþróttaiðkunar hefur batnað verulega með góðum þrektækjasal með ein­stöku útsýni yfir fjörðinn og nýjum tækjum og búnaði. Einnig er minni salur sem gefur möguleika á að vera með hóptíma og fjölbreyttar æfingar.
 
„Markmiðið er að koma til móts við fjölbreyttan notendahóp á öllum aldri. Aðstaða starfsfólks og kennara hefur batnað sömuleiðis. Góð áhaldageymsla er í húsinu auk þess sem geymslupláss hefur aukist. Aðgengi fyrir fatlaða hefur verið bætt með tilkomu lyftu og nýrrar snyrtingar fyrir fatlaða, einnig er nýtt dómaraherbergi með sturtuaðstöðu. Eldri búningsaðstaða var tekin upp að hluta, loftræsting og myndavélakerfi endurnýjað. Þessar breytingar skapa ný tækifæri til að halda stærri íþróttaviðburði og hægt er að bjóða íþróttafélögum um land allt upp á fyrirtaks aðstöðu fyrir æfingahelgar og mótshald,“ segir sveitarstjórinn.
 
Landbúnaður gegnir mikilvægu hlutverki í Húnaþingi vestra, ekki síst sauðfjárræktin þar sem bjartsýni bænda eykst og eykst. Mynd / Eydís Ósk
 
Bjartsýnir bændur
 
Húnaþing vestra er mikið sauðfjárræktarhérað þannig að verðhrunið 2016 og 2017 hafði meiri áhrif á bændur í sveitarfélaginu en mörg önnur héruð en hins vegar hefur afurðaverðið farið aðeins upp á við aftur síðustu tvö ár og bjartsýni bænda með.
 
„Það er mikið af ungu fólki búið að fjárfesta í bújörðum á undanförnum árum og hér í sveitarfélaginu er minnst fækkun barna í dreifbýli sem gefur góð fyrirheit um bjarta framtíð búskapar í Húnaþingi vestra,“ segir Ragnheiður.
 
Vatnsvegurinn er mál málanna
 
Samgöngumál eru ofarlega á baugi hjá ykkur, hvað er að frétta á þeim vettvangi?
„Já, það má segja að mál málanna hér sé Vatnsnesvegurinn og hefur hann verið mikið í fjölmiðlum að undanförnu. Íbúar í kringum Vatnsnesið hafa notað ýmsar leiðir til að koma ástandi vegarins á framfæri og nýverið komust þeir í fjölmiðla þar sem þeir leituðu til ferðamanna um að vekja athygli á bágu ástandi vegarins og hafa myndir undir myllumerkinu #vegur711 verið áberandi á samfélagsmiðlum. Með aukinni umferð eykst hætta á slysum verulega og hefur lögreglan lýst yfir áhyggjum af því. Vegurinn er mjór, nánast einbreiður á köflum. Ofaníburður farinn, svikulir vegkantar og gríðarleg umferð sem mælingar sýna að eykst með hverju ári,“ segir Ragnheiður og bætir við. „Skólabörn fara ekki varhluta af slæmu ástandi vegarins því vera þeirra í skólabílum hefur lengst um 40 mínútur á dag vegna þessa. Vanlíðan og bílveiki má rekja til slæms ásigkomulags vegarins. Hluti af því að tryggja áframhaldandi búsetu í dreifðum byggðum er að stjórnvöld forgangsraði í samgönguáætlun út frá akstursleiðum skólabifreiða.“
 
Sveitarstjórinn segir að Vatnsnes­vegurinn sé lífæð í ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra og skiptir ástand hans og annarra vega að fjölsóttum ferðamannastöðum því miklu máli fyrir ferðaþjónustuna.
 
„Hvítserkur, eitt helsta kennileiti á Norðurlandi vestra, er við Vatnsnesveg og veginum niður að Hvítserk þarf t.d. að loka hluta úr ári vegna ástands og legu hans sem hefur skapað mikla hættu á Vatnsnesveginum. Einnig er mikilvægt að lagfæra vegi að öðrum fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. að Kolugili og Borgarvirki,“ segir Ragnheiður.
 
Vatnsvegurinn er mál málanna í samgöngumálum í Húnaþingi vestra enda vegurinn nánast ófær þegar ástandið er sem verst. Vanlíðan og bílveiki skólabarna má rekja til slæms ásigkomulags vegarins.   Mynd / Ragnheiður Jóna
 
Þjóðvegur 1 er eini malbikaði vegurinn
 
Ragnheiður Jóna þreytist ekki á að ræða samgöngumálin og brýnir röddina hér.
 
„Í stuttu máli má kannski segja að eini malbikaði vegurinn í Húnaþingi vestra sé þjóðvegur 1 auk nokkra vegspotta. Í Húnaþing vestra eru um 170 km af tengivegum malarvegir á móti 15 km sem eru malbikaðir. Nýlega var kynnt endurskoðuð samgönguáætlun sem við bundum miklar vonir við að Vatnsnesvegurinn kæmist inn á, sem og hann gerði, en þó ekki fyrr en á þriðja tímabili, sem er eftir 10–13 ár. Því er baráttunni fyrir betri Vatnsnesvegi langt frá því lokið. Við munum halda áfram að vekja athygli á ástandi vegarins og hvetja til að hann verði færður fram á fyrsta tímabil áætlunarinnar. Það er að verða lífsspursmál fyrir íbúa og gestina okkar að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst.“
 
Atvinnumálin eru mikilvæg
 
Atvinnumál er eitt af stærri áherslumálum Húnaþings vestra en Ragnheiður segir að leggja þurfi áherslu á fjölgun opinberra starfa, uppbyggingu aðstöðu og fjölgun starfa án staðsetningar. Fæðingarorlofssjóður er á Hvammstanga, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Vegagerðin eru líka með starfsstöð á Hvammstanga. 
 
Í tengslum við Selasetrið og í samstarfi við opinbera aðila er þar starf­rækt rannsóknardeild. Ragnheiður segir mjög mikilvægt að opinberum störfum fækki ekki á svæðinu eins og íbúar sjái að sé að gerast.
 
„Eins og komið hefur fram er uppbygging í Húnaþingi vestra og ungt fólk vill flytja í sveitarfélagið. Því er mikilvægt að huga að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu samhliða því og þarf stuðning ríkisins að þeirri uppbyggingu með sveitarfélaginu, t.d. með flutningi opinberra starfa á svæðið. Í sveitarfélaginu er góður grunnur til frekari atvinnuuppbyggingar, lóðir eru til staðar, þjónustustig hátt og landfræðileg staðsetning sveitarfélagsins er góð,“ segir Ragnheiður.
 
Borðeyri er eitt minnsta þorp á Íslandi, fallegt þorp með mikla sögu þar sem ferðaþjónusta gengur vel. Mynd / HKr.
 
Borðeyri er verndarsvæði í byggð
 
Borðeyri tilheyrir sveitarfélagi Ragnheiðar en þar er eitt fámennasta þorp landsins, fallegt þorp með mikla sögu. Á þjóðveldisöld var Borðeyri einn helsti verslunarstaður Íslands og þar blómstraði verslun út 19. öldina og í upphafi 20. aldar en síðan þá hefur margt breyst. Á Borðeyri hefur ferðaþjónusta farið vaxandi síðustu ár og fyrr á árinu staðfesti ráðherra að Borðeyri yrði skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Með tilkomu verndarsvæðisins er sérstaða byggðarkjarnans tryggð og skapar tækifæri í frekari atvinnuuppbyggingu í ferðaþjónustu. 
 
Stundar jóga og hugleiðslu
 
Þegar Ragnheiður er spurð út í áhugamál hennar og hvað hún geri til að kúpla sig út úr amstri dagsins hafði hún þetta að segja; „Það er nú svo þannig að mér finnst gaman í vinnunni og ég hef áhuga á byggðamálum og menningarmálum. Ég hef líka talsvert skoðað áhrif atvinnuuppbyggingar á sviði menningar á samfélög svo það má kannski segja að vinnan tengist að hluta áhugamálum mínum. Hér er öflugt menningarlíf og fjölmörg tækifæri til frekari þróunar og ég vildi gjarnan að við gætum eflt atvinnustarfsemi á því sviði í sveitarfélaginu. En svona til að hreinsa hugann þá stunda ég jóga og hugleiðslu og eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í gönguferðir um okkar fallega land. En að lokum vil ég segja þetta: Verið velkomin í Húnaþing vestra, við tökum vel á móti ykkur.“

Skylt efni: Húnaþing vestra

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...