Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Rússajeppinn á Torfastöðum átti farsælan feril þangað til að húsið fauk í roki 1991.
Rússajeppinn á Torfastöðum átti farsælan feril þangað til að húsið fauk í roki 1991.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 2. mars 2023

Notaður í slóðadrátt og kvennafar

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Torfastöðum í Fljótshlíð er Rússajeppi af árgerð 1956. Hann er því einn af þeim elstu á landinu þar sem Bifreiðar og landbúnaðarvélar hófu innflutning á GAZ Rússajeppum í nóvember 1955.

Jeppinn var með tréhúsi sem smíðað var utan um stálgrind af Kaupfélagi Árnesinga fyrir fyrsta eigandann. Sá hét Einar og bjó á Selfossi og seldi Baldri Árnasyni, bónda á Torfastöðum, jeppann árið 1965.

„Þegar hann kom á bæjarhlaðið settist ég náttúrlega undir stýri og fór að prufa hvað væri hægt að brúka þetta. Ég notaði hann alveg upp frá því og hann fór í gang seinast sumarið 1989,“ segir Árni Baldursson, en hann var fimmtán ára þegar faðir hans keypti bílinn. Þetta var aðalbíllinn á heimilinu þangað til að Baldur keypti sér Subaru á níunda áratugnum.

„Hann var aðallega notaður á kvennafar og til að slóðadraga túnin. Á þessum bíl fiskuðum við bræðurnir allir eiginkonurnar okkar. Þær voru svo kátar að fá að sitja í svona þægilegum bíl. Hann fékk þann heiður að færa allar eiginkonurnar okkar heim að Torfastöðum í kaffi hjá múttu gömlu. Við í Torfastaðahverfinu vorum með Rússajeppa af því að kommúnistarnir eru fæddir og uppaldir í sveitinni minni heima,“ segir Árni, en hann bætir við að bílarnir hafi einnig verið þægilegir og notadrjúgir á góðu verði.

Mjúkir en bilanagjarnir

„Hann ók mjög vel þó það væru þvottabretti undir – ef dempararnir voru í lagi þá haggaðist hann ekkert. Þetta var frábær akstursbíll en hann var hæggengur – fór helst ekki yfir 70. Það þurfti að skipta um gíra þegar ekið var upp brekkur,“ segir Árni. Þessi bíll tók átta manns í sæti, en tveir sátu fram í og sex sátu á móti hvor öðrum á bekkjum aftur í.

„Þeir voru bilanagjarnir. Vélarnar voru lélegar í þeim þar sem ventlarnir vildu brenna. Þeir þurftu töluvert aðhald til að duga lengi. Drifin voru veik í þeim – það þurfti gjarnan að endurbyggja þau. Bremsubúnaðurinn var sæmilega hannaður. Annars voru þetta svo notadrjúgir bílar að þegar menn voru búnir að sætta sig við þá vildu þeir ekkert annað.

Þessi bíll á sér sögu, en núna er hans ævi orðin býsna löng. Hann er enn þá ofanjarðar og ég er alltaf að gráta yfir því á kvöldin að ég skuli ekki koma honum aftur af stað. Hann var í stöðugri notkun á meðan hann snérist og hafði ágætt viðhald lengi vel – en svo dagaði hann uppi fyrir tóman trassaskap. Það er ömurlegt að sjá hann greyið.

Hann varð fyrir svo miklu hnjaski í rokinu 91 – þá fauk af honum þakið. Það var farið að gefa sig af elli og fúa og vindurinn var ekkert eðlilegur. Síðan hef ég ekki komist í að hreyfa við honum. Hann stendur úti greyið – þetta er ömurleg ævi fyrir einn bíl.

Fór á hvolf ofan í skurð

Allar hans ferðir voru ævintýraferðir því það var aldrei farið úr hlaði öðruvísi en það yrði einhver ævintýrasaga – jafnvel þótt það væri bara farið til að kaupa brauð í kaupfélaginu. Þá kom maður við hjá kunningjum og fékk sér kaffi og úr því spunnust oft ofsalega harðar umræður og deiluefnin yfirleitt pólitík.

Hann var afskaplega farsæll þessi bíll. Hann tjónaði ekki aðra bíla og lenti ekki í neinum óhöppum. Það snérust þó einu sinni upp á honum hjólin þegar eldri bróðir minn fór út af í beygjunni heima á afleggjara. Hann gleymdi að taka beygjuna og fór ofan í skurðinn og valt alveg um þannig að hjólin snéru upp. Það sá ekkert á bílnum því það voru mjúkir graskantar báðum megin og bróðir minn fór út um afturhurðina. Svo var bíllinn réttur af og keyrður áfram heim,“ segir Árni, en það brotnuðu ekki einu sinni rúður.

Vildi ekki öðruvísi jeppa

Aðspurður hvort hann hefði viljað fá sér jeppa af annarri tegund segir Árni að það hafi ekki komið til greina. „Land Rover var nefndur „fóstureyðingatæki“ því hann var svo hastur. Willysinn var svo lítill að það komust of fáir inn í hann. Svo var afleitt að eiga Austin Gipsy af því að þeir komust ekkert áfram. Rússinn hafði þá vinninginn því hann komst aðeins hraðar.

Árið 1987 fóru stimpilhringir í bílnum og segir Árni að upp frá því hafi notkunin á bílnum minkað talsvert. Hann gat ekki keypt nýja varahluti þar sem umboðið var hætt að sinna þessum bílum.

„Ég kann að gera við þetta allt saman. Hvur veit hvað maður á eftir að lifa.“

Skylt efni: saga vélar

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...