Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vala Valþórsdóttir, nýráðinn forstjóri Sæbýlis.
Vala Valþórsdóttir, nýráðinn forstjóri Sæbýlis.
Líf og starf 29. ágúst 2023

Ný kona í brúnni hjá Sæbýli

Höfundur: Þorvaldur B. Arnarson

Á dögunum var gengið frá ráðningu nýs forstjóra Sæbýlis, sem elur sæeyru í eldisstöð félagsins á Reykjanesi. Sæeyru eru ein verðmætasta eldistegund heims og fyrirtækið stefnir á margföldun framleiðslu sinnar á næstu árum.

Blaðamaður spyr viðmælanda, að góðum íslenskum sið, hver sé eiginlega manneskjan og hverra manna hún sé.

„Ég er fædd í Keflavík en flutti á fjórða aldursári í Setbergið í Hafnarfirði þar sem ég bjó til að verða tvítug, þannig að ég lít á mig sem Gaflara. Ég er næstyngst úr hópi fjögurra systkina,“ segir Vala Valþórsdóttir, nýráðinn forstjóri Sæbýlis. „Foreldrar mínir koma utan af landi; pabbi er úr Eyjum og mamma að norðan frá Dalvík. Þau voru mjög dugleg að fara með mig og systkini mín bæði til Eyja og Dalvíkur að heimsækja ömmur og afa, frænkur og frændur, þannig að bæði Vestmannaeyjar og Dalvík eiga sérstakan stað í hjarta mínu og ég á margar kærar minningar úr barnæsku þaðan,“ bætir Vala við.

Skyndiákvörðun í Asíureisu

„Ég fór í framhaldsskóla í Fjöl­brautaskóla Garðabæjar. Á öðru ári fór ég sem skiptinemi til Þýska­lands í eitt ár. Þar öðlaðist ég alveg frábæra reynslu sem víkkaði sjóndeildarhringinn töluvert. Svo virðist sem ég hafi fengið einhvers konar Þýskalandsbakteríu, en ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef farið til Þýskalands.

Þýskaland er mjög vanmetinn áætlunarstaður fyrir íslenska ferðalanga en þar er frábært að vera á sumrin og ótalmörg falleg smáþorp sem vert er að heimsækja,“ segir Vala.

Eftir útskrift úr framhaldsskóla þyrsti hana í frekari reynslu utan landsteinanna, svo hún ákvað að taka sér árshlé frá skóla til að fara í bakpokaferðalag til Asíu.

„Hálft árið fór í að vinna og safna mér fyrir ferðinni og svo fór ég til Asíu í fjóra mánuði. Ég heimsótti Kína, Hong Kong, Kambódíu, Víetnam og Taíland. Fyrir brottför frá Íslandi átti ég aðeins bókað flug til Kína og svo aftur heim fjórum mánuðum seinna frá Taílandi. Út í óvissuna fór ég og það var virkilega skemmtileg en einnig oft og tíðum krefjandi reynsla að ferðast aðeins með bakpokann og ferðahandbækurnar að vopni í gegnum fjarlægar og mjög svo ókunnar slóðir. Þetta var fyrir tíð snjallsímanna þannig það var ekki hægt að kveikja á „Google maps“ ef maður villtist og ef hringja þurfti heim voru aðeins svokölluð internetkaffihús í boði. Það var einmitt á einu slíku þar sem ég í raun neyddist til að ákveða hvaða nám ég ætlaði að stunda í háskólanum við heimkomu. Fresturinn var alveg að renna út og ég enn óviss um hvaða nám skyldi verða fyrir valinu. Hálfgerð flýtiákvörðun á einstaklega hægu interneti á internetkaffihúsi í Víetnam varð þess valdandi að stjórnmálafræði varð fyrir valinu,“ segir Vala.

Lögfræðin lokkaði

Eftir fyrsta árið í náminu varð henni hins vegar ljóst að námið átti ekki vel við hana.

„Þá kom lögfræðin eitthvað svo sterkt til mín og því lá leið mín í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Námið lá vel fyrir mér þar sem ég er einstaklega skipulögð og rökföst. Þetta var mikil gæfuákvörðun því þar hitti ég marga af mínum nánustu vinum í dag. Ævintýraþráin var samt ekki langt undan og tók ég eina önn við Bucerius Law School í Hamborg, Þýskalandi,“ segir Vala.

„Á þeim tíma sem ég var að útskrifast úr lögfræðinni var verið að loka flestum slitastjórnum sem settar voru upp eftir hrun bankanna. Þá myndaðist hálfpartinn offramboð á lögfræðingum og því erfitt fyrir nýútskrifaðan og hálfreynslulausan lögfræðing að fá vinnu. Þá sá ég starfsauglýsingu frá 66°Norður þar sem þau voru að leita að verslunarstjóra í verslun sína í Bankastrætinu. Þar sem ég hef mikinn áhuga á útivist og alltaf langað að efla þekkingu mína á rekstri ákvað ég að slá til og sækja um – þrátt fyrir að hafa aldrei unnið í verslun áður. Blaut á bak við eyrun fékk ég starfið sem reyndist dýrmæt reynsla þar sem ég starfaði með mjög öflugum og metnaðarfullum hópi fólks. Vegna frábærs árangurs teymisins míns í Bankastræti fékk ég stöðuhækkun og tók við sem sölu­ og rekstrarstjóri allra verslana 66°Norður á Íslandi, sem þá voru 12 talsins. Síðar stökk ég á tækifæri að fara til Landsvirkjunar þar sem ég starfaði sem viðskiptaþróunarstjóri.

Þar bar ég ábyrgð á að skapa tækifæri fyrir mögulega viðskiptavini Landsvirkjunar. Í því fólst að fara að hjálpa til við byggðarþróun en einnig að fara mikið út fyrir landsteinana og kynna Ísland sem áhugaverðan valkost fyrir orkutengda starfsemi. Nú er ég komin til Sæbýlis sem er einstaklega spennandi fyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika. Saga fyrirtækisins talar sérstaklega til mín en þrautseigja og atorkusemi einkennir uppbyggingu Sæbýlis,“ segir Vala.

Seltjarnarnesið er sveit í borg

Vala er gift Guðmundi Hallgrímssyni fasteignasala, og samtals eiga hjónin fjögur börn.

„Það er því alltaf stuð á stóra heimilinu okkar. Við búum á Seltjarnarnesi og unum okkur vel þar. Við enduðum þar fyrir hálfgerða slysni, enda á hvorugt okkar rætur þangað að sækja. Við bjuggum í Vesturbænum en vildum stækka við okkur.

Þá voru ekki margar eignir í boði sem hentuðu okkur í Vesturbænum og enduðum þess vegna á nesinu. Þetta reyndist okkur algjört gæfuskref því við erum afar ánægð í húsinu okkar og eigum dásamlega nágranna. Seltjarnarnesið er hálfgerð sveit í borg sem er alveg yndislegt og sú stemning á vel við okkur. Ekki skemmir líka fyrir að mér tókst með einhverjum hætti að selja foreldrum mínum hugmyndina að flytja frá Hafnarfirðinum til okkar á nesið, en þau búa nú í um fimm mínútna göngufjarlægð frá okkur,“ segir Vala.

Stórir og verðmætir sæsniglar sem borða þara

Blaðamaður neyðist til að afhjúpa fákunnáttu sína og spyrja Völu hvað sæeyru eiginlega séu.

„Sæeyru eru stór sæsnigill. Nafngiftin á íslensku er afar áhugaverð en sæeyru kallast abalone á ensku. Þetta eru ylsjávardýr sem þrífast best í heitu loftslagi, þau lifa á grýttu svæði þar sem mikið er af þara sem er þeirra helsta fæða. Sæeyru má finna við strendur Ástralíu, Nýja- Sjálands, Suður-Afríku, Norður- Ameríku og í Japan.

Margar tegundir eru til af sæeyrum en við hjá Sæbýli leggjum áherslu á að rækta japanska afbrigðið er nefnist Ezo, sem er ein verðmætasta eldistegund heims. Sæeyru eru um það bil fimmfalt verðmætari afurð en eldislax,“ segir Vala.

Dýrasti rétturinn á veitingastöðum

Aðspurð um það hver sé helsti markaðurinn fyrir sæeyru segir Vala félagið stefna á erlenda markaði.

„Þótt Íslendingar séu enn ekki kunnugir sæeyrum þykja þeir hið mesta hnossgæti úti í heimi, sérstaklega í Asíu. Þetta eru afar eftirsótt matvæli og það er mikil menningararfleifð í kringum sæeyrun í matargerð. Sæeyru eru alltaf dýrasti sushi-rétturinn á fínum sushi-veitingastöðum erlendis. Þá er sæeyrað borið fram hrátt í fallegri sæeyrnaskelinni.

Við hyggjumst því flytja vöruna á erlenda markaði, þá helst N-Ameríku og Evrópu til að byrja með. Afurðir Sæbýlis eru seldar undir vörumerkinu Aurora Abalone,“ segir Vala.

Metnaðarfullar áætlanir

Sæbýli er eldisfyrirtæki sem hefur á síðastliðnum 15 árum þróað eigin klakstofn, tækni og framleiðsluaðferð við eldi á sæeyrum á Íslandi. Sæbýli er í eigu Ásgeirs Guðnasonar, stofnanda Sæbýlis, Eyris Invest og fleiri fjárfesta. Stjórnarformaður félagsins er Sigurður Pétursson, stofnandi Novo Food í Frakklandi og laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish á Vestfjörðum.

„Þrautseig vinna stofnandans í að byggja upp klakstofn er í raun grunnurinn að því að Sæbýli geti vaxið. Það er tímafrekt ferli að þróa eldisdýrin en Ásgeir fór í fjölmargar ferðir til Japans til að fullkomna stofninn sem er í raun okkar verðmætasta og dýrmætasta eign. Á þessum sterka grunni sem Ásgeir hefur byggt ætlum að skrifa næstu kafla í sögu fyrirtækisins,“ segir Vala.

„Við rekum klakstöð í Grindavík þar sem við erum að rækta upp ungviði en ætlum að byggja upp áframeldi í Auðlindagarði HS Orku. Sú staðsetning gerir okkur kleift að nýta græna raforku og varma á Reykjanesi. Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir uppbyggingu 200 tonna eldis sem verður svo mögulegt að fimmfalda á næstu 10 árum,“ bætir Vala við. „Af þessu má sjá að við erum með mjög metnaðarfullar áætlanir. Undanfarið höfum við verið að bæta við og styrkja teymið til að gera þessar áætlanir að veruleika. Í dag starfar fjölbreyttur og sterkur hópur fólks hjá Sæbýli, en alls erum við um ellefu manns.

Ég er mjög stolt að vera orðin hluti af Sæbýlisteyminu og afskaplega spennt fyrir komandi tímum sem verða án efa mjög dýnamískir,“ segir Vala Valþórsdóttir, nýráðinn forstjóri Sæbýlis.

Skylt efni: Sæbýli

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...