Rákönd
Rákönd er ekki íslenskur varpfugl heldur flækist hingað nokkuð reglulega frá Norður-Ameríku. Hún er nauðalík evrópsku (íslensku) frænku sinni sem heitir urtönd. Mest áberandi og auðveldasta leiðin til að greina þær í sundur er þessi lóðrétta hvíta rák á hliðinni sem hún dregur nafnið sitt af. Fyrir utan þessa hvítu rák getur reynst krefjandi að greina þær í sundur í fjarska og þarf nánari skoðun. Þrátt fyrir að vera svona líkar og jafnstórar þá teljast rákendur og urtendur vera hvor sín tegundin. Urtönd, sem við þekkjum svo vel, er minnsta önd Evrópu og rákönd minnsta önd Norður-Ameríku. Rákönd er buslönd og er fæða og kjörlendi hennar svipuð og hjá öðrum buslöndum. Þær kafa til hálfs með því að hvolfa haus, háls og hálfum búknum ofan í vatnið en stélið stendur beint upp í loftið. Þannig leita þær að æti undir yfirborðinu, sem er m.a. fræ, plöntur, mýlirfur o.fl. Þær eru hraðfleygar og hefja sig bratt til flugs.