Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Feðgarnir Auðunn Árnason og Gabríel Auðunsson við nýju útplöntunarvélina á Böðmóðsstöðum. Mest er ræktað af blómkáli og kínakáli á Böðmóðsstöðum en á undanförnum tveimur árum hefur tegundum eins og blöðrukáli og regnbogasalati verið bætt við.
Feðgarnir Auðunn Árnason og Gabríel Auðunsson við nýju útplöntunarvélina á Böðmóðsstöðum. Mest er ræktað af blómkáli og kínakáli á Böðmóðsstöðum en á undanförnum tveimur árum hefur tegundum eins og blöðrukáli og regnbogasalati verið bætt við.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 1. júní 2023

Sexföld stækkun útiræktunar grænmetis

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Garðyrkjubændurnir Auðunn Árnason og María C. Wang á Böðmóðsstöðum í Bláskógabyggð eru stórhuga nú í byrjun sumars. Á aðeins tveimur árum hafa þau aukið umfang sitt sexfalt í útiræktun grænmetis. Þá stefna þau á að endurreisa ylræktina á bænum og ætla að byggja tvö þúsund fermetra gróðurhús næsta sumar.

„Við vorum mikið í útiræktuninni hér áður fyrr og ansi stór á tímabili í þessu. Svo dalaði þetta, salan var ekki góð og því dró smám saman úr þessu hjá okkur. Síðan varð ákallið alltaf sterkara frá Sölufélagi garðyrkjumanna um meiri framleiðslu og því höfum við spýtt í lófana á síðustu árum,“ segir Auðunn, en sonurinn Gabríel kom nýlega af fullu inn í búreksturinn með nýjar hugmyndir.

Spýttu í lófana

„Aðallega höfum við verið að rækta blómkál og kínakál. Svo erum við líka með hvítkál, rauðkál og bættum við okkur blöðrukáli fyrir tveimur árum og ætlum að halda því áfram því það er nokkuð spennandi viðbót,“ segir Auðunn, spurður um helstu tegundir í ræktun.

„Blöðrukálið myndar höfuð eins og hvítkálið en er allt í litlum blöðrum – og mér skilst að það sé mikið notað til matargerðar í löndum við Miðjarðarhafið til dæmis og kallast víða erlendis „savoy-kál“. Það er bæði notað eldað og ferskt. Á sama tíma bættum við líka við regnbogasalati, sem er nýtt afbrigði af gömlu strandblöðkunni. Hún er talsvert notuð til að vefja utan um annað hráefni í eldamennskunni til dæmis. Það er svolítið spennandi og við höfum fengið góðar viðtökur neytenda við þessum tegundum. Það er flutt töluvert inn af blöðrukáli þannig að við erum svona að vonast til að innlenda framleiðslan ætti að geta gengið vel. Við höfum aðeins verið að þreifa okkur áfram með tegundir sem geta gengið markaðslega.“

Ný útplöntunarvél

Ný útplöntunarvél er komin á Böðmóðsstaði, ítölsk að uppruna og um fjögurra milljóna króna fjárfesting, sem Auðunn vonast til að verði mikil hagræðing af. „Við höfum verið að fá inn nýjar vélar, þetta var allt orðið dálítið gamalt hjá okkur. Vélin verður formlega tekin í notkun á næstu dögum. Klakinn er nú bara nýlega farinn úr jörðu hér þannig að það hefur ekki verið mögulegt að planta fyrr út, en við verðum að þessu næstu tvær vikurnar.

Núna eru um sex hektarar undir í okkar útiræktun en við vorum komin niður í hektarann fyrir um þremur árum. Við erum með meira núna í sumar heldur en var þegar við vorum hvað mest í þessari útiræktun, sem var sennilega upp úr 1990. Við stefnum að enn frekari aukningu í útiræktuninni, jafnvel 20 prósent á ári.“

Blómabúskapur og ylrækt

Auk matjurtaræktunar er veruleg ræktun á sumarblómum á Böðmóðsstöðum og jafnvel stefnt að aukningu þar einnig. „Við höfum alltaf verið í laukblómum, páskaliljum til dæmis, og ein viðbótin enn eru túlípanar. Það fer vel saman að vera með útiræktun og laukblóm því þá nýtast kæligeymslur að fullu. Kálið er farið úr hluta af geymslunum í desember og þá getum við tekið inn lauka.

Við vorum líka með ylræktarstöð alveg til 2014, þar sem við vorum með rósir og svo tómata – en þetta datt svo upp fyrir en við héldum laukunum alltaf. Síðan eru komin áform núna um að hefja aftur ylræktun með innkomu Gabríels í reksturinn og við erum að fara í gegnum deiliskipulag með stöð þar sem byrjað yrði á tvö þúsund fermetrum að flatarmáli og við erum að skoða tilboð frá Hollandi um slíkt hús, með möguleikum á stækkun. Allar líkur eru á að þar verði ræktaðir tómatar,“ segir Auðunn.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...