Smáforrit sem mælir kolefnisbindingu trjáa
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Orb vinnur að hugbúnaði sem mælir og áætlar kolefnisbindingu skóga á einfaldan hátt. Íris Ólafsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins, segir hugbúnaðinn geta aukið gegnsæi kolefnisverkefna.
„Smáforritið Orb er notað til að skanna tré í ákveðnum reitum í skógi. Mælingarnar ásamt gervihnattamyndum eru notaðar til að áætla kolefnisbindingu skógarins. Hugbúnaðurinn er þróaður með það að markmiði að mælingar inni í skóginum verði það einfaldar að ekki þurfi sérfræðiþekkingu til að framkvæma þær, einfalda ferlið og lækka kostnað við að búa til vottaðar kolefniseiningar með skógrækt. Við viljum gera ábyrga kolefnisskógrækt aðgengilega svo sem flestir geti tekið þátt í baráttunni við loftslagsvána,“ segir Íris. Hún hefur fengið styrki úr frumkvöðlasjóðum Íslandsbanka og Kviku, auk Fræ styrks úr Tækniþróunarsjóði til að þróa grunnvirkni smáforritsins.
Tæknilega skemmtileg áskorun
„Smáforritið nýtir tölvusjón og gervigreind til að mæla tré og getur nú mælt þvermál trjáa í brjósthæð sem er einn mikilvægasti mælikvarðinn á rúmmál og þar með kolefnisbindingu trjáa. Nú erum við í fjármögnun til að geta þróað og gefið út fyrstu útgáfu hugbúnaðarins í sumar.“
Íris segir hugmyndina að verkefninu hafa kviknað í kringum 2020 þegar símar fóru að bjóða upp á aukna rýmisgreiningu, t.d. LiDAR myndavélar sem byggja á að mæla endurvarp ljóss til að reikna dýpt og fjarlægð hluta frá myndavél.
„Ég fór að skoða í hvað mætti nota tæknina og þar voru skógmælingar áberandi. Eftir skemmtilega fundi með Kolefnisbrúnni, Skógræktinni og ýmsum aðilum sem koma að skógrækt, kolefnismörkuðum og umhverfismálum fannst mér orðið mjög skýrt að þarna væri þörf á tæknilausn til að einfalda mælingar og ferlana við kolefnisskógrækt. Verkefnið tikkar í öll boxin; er tæknilega skemmtileg áskorun, í því liggja mikil tækifæri á ört vaxandi kolefnismörkuðum og svo hefur það jákvæð áhrif á náttúruna, stuðlar að skógrækt og endurheimt vistkerfa.“
Samlífi sveppa og trjáa heillandi
Íris segist sjálf elska tré og skóga. Hún er þó sérstök áhugamanneskja um sveppi.
„Ég hangi öll haust úti í skógi, mikið í Borgarfirðinum, að tína sveppi. Kóngsveppi, kantarellur, gulbrodda, kempur, hneflur. Fyrir norðan og austan kemst maður svo í lerkisveppaparadísir. Svo er þetta samlífi svepprótarsveppa og trjáa líka svo heillandi, þar sem samlífið við sveppina eykur lifun trjánna og hraðar vexti þeirra.“
Hugbúnaðinum er einnig ætlað að auka gegnsæi kolefnisverkefna.
„Þannig geta kaupendur kolefniseininga fylgst með þróun verkefnisins og mælingum, en gegnsæi eykur líka verðmæti hverrar kolefniseiningar. Að auki eru fleiri þættir en kolefnisbinding farnir að skipta máli og aukin áhersla er á endurheimt vistkerfa og að stuðla að líffræðilegri fjölbreytni. Þegar mælingar eru framkvæmdar með síma inni í skógi opnast ótal möguleikar við að safna gögnum, bæði hljóði og myndgögnum sem gefa til kynna hvernig lífið í
skóginum er að þróast,“ segir Íris.
Vefsíða verkefnisins er orb. green/is.