Smyrill
Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð líkur fálka enda af fálkaættinni, en talsvert mikið minni en íslenski fálkinn. En þótt hann sé smár er hann afar flugfimur og oft talað um að smyrill sé flugfimastur allra af fálkaættinni. Vængjatökin eru hröð enda fer hann létt með að taka vinkilbeygjur á mikilli ferð. Aðalfæða hans eru smáfuglar sem hann eltir og þreytir á flugi. Þó nokkur stærðarmunur er á kynjunum, karlfuglinn er minni, eða lítið eitt stærri en svartþröstur, á meðan kvenfuglinn er nokkuð stærri. Fuglinn á myndinni er karlfugl og sýnir hún ágætlega hversu lítill smyrillinn er, þar sem fuglinn situr á bognum grenitopp. Smyrill er að mestu farfugl á Íslandi, stærsti hluti stofnsins dvelur við Bretlandseyjar yfir veturinn en eitthvað af fuglum dvelja hér allt árið.