E.coli og blý í kannabis
Rannsókn háskólans Manchester Metropolitan University sýnir að kannabis sem verslað er með á götum í Bretlandi inniheldur skaðlegar örverur.
Háskólinn kannaði sextíu sýni sem lögreglumenn á stórborgarsvæði Manchester og í Norðymbralandi höfðu gert upptæk í störfum sínum. Níutíu prósent af þeim innihéldu ýmist myglu eða sveppagró, átta prósent innihéldu blý og fundust bakteríur af salmonellu- og E.coli stofni í tveimur prósentum. Í rúmum fjórðungi sýnanna fundu rannsakendur jafnframt gervikannabínóíða, eins og Spice og KT, sem geta verið skaðlegir. Frá þessu er greint í breskum miðlum eins og Mirror og Metro.
Rannsóknin var gerð í samstarfi við fyrirtækið Curaleaf Clinic sem ræktar kannabis til lækninga. Þar kom jafnframt fram að tveir þriðju þeirra sem kaupa ólöglegt kannabis nota efnið til að glíma við heilsufarsvandamál, eins og kvíða, þunglyndi og langvinna verki. Fulltrúar Curaleaf Clinic vilja með þessu vekja neytendur til umhugsunar um mögulega skaðsemi ólöglegs kannabis og benda á að í Bretlandi sé hægt að fá marijúana gegn lyfseðli.