Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Riftönnin er á stærð við mann. Hér sést ýtustjórinn Sigfús G. Öfjörð, sem er meðalmaður á hæð.
Riftönnin er á stærð við mann. Hér sést ýtustjórinn Sigfús G. Öfjörð, sem er meðalmaður á hæð.
Mynd / ÁL
Líf og starf 15. júní 2023

Stærsta fjöldaframleidda ýtan

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýja jarðýtu af gerðinni Caterpillar D11, eða Cat Ellefu. Þessi gripur flokkast til mjög stórra jarðýta, enda sú stærsta í fjöldaframleiðslu. Hún vegur 112 tonn, er 1.015 hestöfl og getur ýtt nálægt 40 rúmmetrum af efni.

Nokkrar stærri jarðýtur hafa litið dagsins ljóss. Sú stærsta er 183 tonn og var sérsmíðuð á Ítalíu eftir pöntun Gaddafi, en var aldrei afhent eftir að viðskiptabönn voru sett á Líbýu á níunda áratugnum. Komatsu framleiddi rúmlega 50 eintök af D575 jarðýtum á árunum 1989 til 2012, en þær voru 131 tonn. Sú þriðja stærsta er vélin í þessum prufuakstri og er sú eina af áðurnefndum ýtum sem hinn almenni kaupandi getur verslað.

Tönnin sjálf er 34,4 rúmmetrar, en getur flutt nálægt 40 rúmmetrum af möl í hverri ferð. Því þarf ekki nema nokkrar ferðir til að gera haug á stærð við lítið fell. Helsti sölupunkturinn á þessum jarðýtum er að þær ná að flytja mest efni á sem hagkvæmastan hátt. Þar sem afköst þessarar ýtu er á við tvær Caterpillar 10, er eldsneytiseyðslan á hvern rúmmetra umtalsvert minni.

Ef þú ætlar að versla þér jarðýtu þá færðu enga stærri en Caterpillar D11. Þó vélin sé ferlíki á stærð við 65 fermetra hús, þá er hún afar létt í notkun.

Stærð platar

Þegar vélin er skoðuð að utan er erfitt að átta sig á hversu stórt tækið í rauninni er. Ef hún stendur í miðri malarnámu gæti þetta verið hvaða ýta sem er. Um leið og manneskja sést í návígi áttar maður sig á að þetta er ferlíki, en meðalhár maður er svipað langur og riftönnin.

Hæð ýtunnar er 4,7 metrar, lengd með riftönn er 10,5 metrar og breidd tannar er 6,4 metrar. Þessi mál eru nokkurn veginn þau sömu og á 65 fermetra sumarbústað með svefnlofti, sem er hægt að kaupa hjá íslensku fyrirtæki sem selur einingahús.Rúmmál 12 strokka dísilvélarinnar eru 32,1 lítri, sem þýðir að hver stimpill er 2,7 lítrar! Eins og áður segir framleiðir vélin rúm þúsund hestöfl sem er beint út í sprokket að framan og aftan. Það má því segja að þessi ýta sé fjórhjóladrifin.

Aðgengi með besta móti

Ýtustjórar þurfa ekki að leggjast í áhættusamt príl til að komast um borð, því þessi er útbúin landgangi. Hann er látinn síga á jörðina með því að ýta á einn takka og er leikur einn að komast upp. Öflug handrið eru á stiganum og allt í kringum dekkið sem umlykur ökumannshúsið.

Sjálft húsið er merkilega lítið – kannski einn og hálfur fermetri. Þar er rétt nóg pláss fyrir sæti og stjórntæki til beggja handa. Ólíkt flestum vinnuvélum, þá er ekkert stýri. Á gólfinu eru tvö fótstig, annað bremsa og hitt til að minnka inngjöf. Tveir stórir snertiskjáir eru í húsinu, annar beint fyrir framan ökumanninn og hinn til hliðar.

Til hægri handar eru tveir stjórnpinnar, annar fyrir tönnina að framan og hinn fyrir riftönnina að aftan. Sá fyrrnefndi er sá sem notaður er mest og er greinilegt að Caterpillar hefur vandað sig sérstaklega við að móta hann þannig að hann passi fullkomlega í krepptan lófann. Virkni hans er á margan hátt sambærileg og á flestum ámoksturstækjum. Stjórnbúnaðurinn fyrir riftönnina er fast handfang með tveimur stórum veltirofum.

Á vinstri hönd eru stýripinnar til að stjórna akstursstefnu. Með þumlinum er valið hvort vélin sé í hlutlausum, eða fari fram eða aftur. Tveir flipar eru svo fyrir framan handfangið sem kúpla frá hvor sínu beltinu, til að beygja til hægri eða vinstri. Þeir eru fisléttir og þarf rétt að nota fingurgómana til að hreyfa við þeim. Nokkuð harðir rykkir koma þegar beltunum er kúplað, eða ef skipt er snöggt á milli þess að fara fram eða aftur. Ekki er ætlast til að beygt sé á meðan verið er að ýta eða rippa en vanir ýtumenn geta tekið beygjur með því að beita tönninni.

Öflugur landgangur gefur gott aðgengi. Vökvamótorar slaka honum niður.

Lúxussæti

Um leið og sest er niður finnst að allt er af bestu gæðum og vel skrúfað saman. Stjórntækin eru mjög lógísk og tekur örfáar mínútur að átta sig hvað gerir hvað. Sætið er ekki síðra en hinn besti hægindastóll og eru fjölmargar stillingar svo ýtumenn af öllum stærðum komist fyrir. Jafnframt er hægt að stilla báða armpúðana, þann vinstri með rafmagni og þann hægri handvirkt.

Loftpúðafjöðrun er í sætinu og hreyfist það upp og niður – en í þessu tilfelli hefði verið viðeigandi að hafa fjöðrun til allra átta, eins og er í betri dráttarvélum, enda vinna ýtur oft í miklum veltingi.

Þó Ellefan sé tryllitæki þá verður notandinn lítið var við utanaðkomandi áreiti. Ökumannshúsið er sérlega vel einangrað þannig að varla heyrist í vélinni. Helsti hávaðinn er ískrið í beltunum, sem berst þó ekki mikið inn í húsið.

Ökumannshúsið er góður staður til að vera á. Mikil hljóðeinangrun gerir aðstöðuna vistlega. Sætið fjaðrar og er stillanlegt.

Útsýni takmarkað

Sjálft húsið er alveg loftþétt og dregur öflug loftkælingin loftið í gegnum ryksíur. Þar helst yfirþrýstingur séu allir gluggar lokaðir, sem lágmarkar aðgang ryks og sóts. Vanir ýtumenn tjáðu undirrituðum að ökumannshús Ellefunnar sé sérlega góður staður til að vera á og þreytan í lok dags sé minni en þegar unnið er á vélum frá helstu samkeppnisaðilum.

Útsýnið fram er nokkuð takmarkað. Gluggarnir eru litlir og á milli þeirra eru þykkir gluggapóstar. Sjálf tönnin skyggir alveg á það sem er beint fyrir framan vélina, en hægt er að sjá neðri horn tannarinnar framan við beltin. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvort ýtt sé heilu hlassi, eða hvort tönnin rétt strjúkist yfir yfirborðið. Vélin í þessum prufuakstri er útbúin myndavélakerfi sem á að hjálpa til, en myndin er það kornuð að erfitt er að sjá hvað er í gangi.

Útsýnið afturábak er ekki mikið betra, en undirritaður var alltaf í leit að hliðarspeglum – sem eru ekki til staðar. Sætið snýr nokkrar gráður til hægri, þannig að ýtustjórinn þarf ekki að vinda eins mikið upp á höfuðið. Óheft sjónlína er á odd riftannarinnar.

Skylt efni: prufuakstur

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...