Þegar Siggi Dan vann Larsen
Í maí árið 1972 tefldi danski stórmeistarinn Bent Larsen fjöltefli í sænsku borginni Malmö gegn 36 skákmönnum.
Larsen, sem á þeim tíma var einn af sterkustu skákmönnum heims, vann 27 þeirra, fjórar skákir enduðu með jafntefli en fimm skákmenn náðu að vinna Larsen og var Sigurður Gunnar Daníelsson á meðal þeirra. Siggi Dan, eins og hann var ávallt kallaður, vann skákina með svörtu mönnunum. Hann var afskaplega ánægður með þennan sigur og var þetta í eina skiptið sem Siggi Dan vann stórmeistara. Þetta var alvöru fjöltefli af gamla skólanum, sem stóð yfir í 4 klukkutíma, en skákklukkur voru ekki notaðar við fjölteflið.
Sigurður Gunnar Daníelsson gekk til liðs við Skákfélagið Goðann í Þingeyjarsýslu árið 2013 og varð skákmeistari félagsins árið 2016. Siggi tefldi oft með Goðanum á Íslandsmóti skákfélaga en sína síðustu skák tefldi hann í október árið 2022. Skákstíll Sigga var mjög villtur. Stigahærri skákmenn áttu oft í miklum erfiðleikum með að svara hvössum sóknarleik Sigga sem oft fórnaði manni snemma í sínum skákum. En það kom ekki að sök. Mjög oft stóð hann uppi sem sigurvegari.
Sigurður Gunnar Daníelsson starfaði við grunnskólann á Raufarhöfn sín síðustu ár sem tónlistarkennari, en hann starfaði m.a. í Húnavatnssýslu og á Vestfjörðum sem tónlistarkennari og undirleikari hjá hinum ýmsu kórum.