Urtönd
Urtönd er minnsta önd Evrópu og þá jafnframt langminnsta andartegundin sem verpur hér á Íslandi. Hún er útbreidd um allt land, helst á láglendi í mýrum, tjörnum, skurðum, ám og flóum. Þessi litla buslönd er afar kvik og hraðfleyg. Þær eru nokkuð félagslyndar utan varptíma og ekki óalgengt að sjá þær í litlum hópum. Engu að síður eru þær afar styggar og fljótar að koma sér í felur ef þær verða fyrir ónæði. Líkt og aðrar buslendur éta þær fræ, plöntur og skordýr sem þær hálfkafa eftir. Urtendur eru að mestu farfuglar, stofninn er um 3.000–5.000 pör og er áætlað að um 1.000 fuglar dvelji hérna yfir veturinn. Þeir fuglar sem fara frá landinu hafa vetursetur aðallega á Bretlandseyjum en einnig Vestur-Evrópu.