Vefbókin Matreiðsla
Vefbókin Matreiðsla var gefin út fyrir skemmstu hjá Iðnú útgáfu. Um nýjung er að ræða í útgáfu matreiðslubóka á Íslandi, því aldrei hefur jafn viðamikið námsefni í matreiðslu verið gefið út í einu riti.
Bókin er ætluð til kennslu á fyrsta þrepi matvælabrauta en er jafnframt hugsað fyrir almenning, en farið er vel yfir grunnþætti matreiðslu.
Útgáfuhóf var haldið miðvikudaginn 27. september í bókabúð IÐNÚ í Brautarholti 8, þar sem gestum var gefið tækifæri til að ræða við höfunda, kynna sér vefbókina og gæða sér á léttum veitingum.
Það eru nokkrir kennarar í Menntaskólanum í Kópavogi sem standa á bak við útgáfuna og hefur mikið verið lagt upp úr því að gera kennsluefnið aðgengilegt, myndrænt og lifandi.
Í bókinni eru einnig myndir af ýmsum aðferðum sem matreiðslumenn þurfa að kunna, sýndar skref fyrir skref – hvort sem það er soðgerð eða þrif á vinnuborði. Karl Petersson tók ljósmyndir fyrir bókina og gerði einnig myndbönd, gagnvirkar orðskýringar og verkefni.
Hægt er að kaupa aðgang að vefbókinni á slóðinni vefbok.is.