Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Lukas Jokumsen, bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. Hann ræktaði ertuheilsæði í 22 hekturum í sumar. Jafnframt sáði hann fullum sáðskammti af grasfræi í akurinn, sem verður því klár sem tún næsta sumar, án þess að hann þurfi að leggjast í frekari jarðvegsvinnu.
Lukas Jokumsen, bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. Hann ræktaði ertuheilsæði í 22 hekturum í sumar. Jafnframt sáði hann fullum sáðskammti af grasfræi í akurinn, sem verður því klár sem tún næsta sumar, án þess að hann þurfi að leggjast í frekari jarðvegsvinnu.
Mynd / ÁL
Líf og starf 29. ágúst 2023

Víða svigrúm til framfara

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Lukas Jokumsen hóf búskap á Voðmúlastöðum í fyrrasumar. Eftir að hafa verið bóndi í ár, hefur hann innleitt nýjar hugmyndir og stefnir að aukinni skilvirkni á öllum hliðum rekstursins, sem hann segir danskan hugsunarhátt.

Lukas kom fyrst til Íslands árið 2019. Fyrst starfaði hann sem vinnumaður í sveit en tók við Voðmúlastöðum í júní 2022. Hann er útskrifaður úr bændaskóla í Danmörku. Bændablaðið ræddi við Lukas í upphafi árs, en þá hafði honum ekki gefist færi á að innleiða miklar breytingar.

Aðspurður um samanburð búreksturs á Íslandi og í Danmörku, segir hann að grunnatriðin séu eins, þ.e. að hann þarf að fóðra kýrnar, mjólka þær og selja mjólkina, sem gefur pening til að kaupa meira fóður. Fyrir utan þessi undirstöðuatriði, þá eru búskaparhættir mjög ólíkir.

Lukas tekur sem dæmi launaumhverfið, kynbótastarf og jarðrækt. Hvað fyrstnefnda atriðið varðar, þá fá íslenskir bændur helmingi meira borgað fyrir mjólkina, en á móti kemur að útgjöldin séu há hérlendis.

Einungis kvígur til undaneldis

Varðandi kynbótastarfið segir Lukas mikinn missi af því að hafa ekki aðgang að kyngreindu sæði, en með því segir hann að kynbætur geti gengið allt að fimm sinnum hraðar. Það má alltaf gera ráð fyrir að besta kýrin í fjósinu gefi einungis af sér nautkálfa, sem gagnast ekki í neitt nema kjötframleiðslu.

Í Danmörku gangi kynbótastarf svo hratt að kvígurnar koma einungis til greina til undaneldis. Þá hafa Danir einnig flutt inn erfðaefni frá Hollandi, Kanada, Bandaríkjunum og víðar. Mikill munur er á hverri kynslóð og eru eldri kýr alla jafna einungis sæddar með sæði úr holdanautum. Notkun heimanauta er afar sjaldgæf í Danmörku.

Þrátt fyrir þetta er Lukas ekki talsmaður fyrir innflutningi erfðaefnis úr erlendum kúakynjum til Íslands. Mikið virði sé í íslenska kúakyninu, þó þær mjólki minna. Hann bendir á að ef önnur kúakyn yrðu flutt til landsins, þá veikist staða þess íslenska mjög hratt. Bændur muni því taka erlend kúakyn fram yfir það íslenska, og segist Lukas myndi gera það sjálfur ef innflutningur væri heimill – þá einungis til að dragast ekki aftur úr í rekstri.

„Þegar kemur að útliti kúanna, þá hefur Holstein vinninginn,“ segir Lukas, en það sé afar sjaldgæft að íslensk kýr hafi fullkomna líkamsbyggingu, ásamt nettu júgra og góðri mjólkurlagni. Íslenska kúakynið hefur hins vegar sérlega góða skapgerð, sem sé ólíkt því sem hann þekkir að utan. Þegar erlendir bændur koma í fjósið til hans taka þeir sérstaklega eftir því hversu hljóðlátt er, sem sé merki um hversu spakar kýrnar eru.

Þarf að hámarka nýtingu hvers hektara

Þegar kemur að jarðrækt segir Lukas að hugsunarháttur margra bænda hérlendis sé sá að þeir eigi meira en nóg af ræktarlandi og því þurfi þeir ekki að vanda sig sérstaklega. Þarna sér hann mikið svigrúm til framfara og vill hann taka upp danska hætti. Þar í landi er jarðnæði af skornum skammti og því skiptir máli að hámarka nýtingu hvers hektara.

Hann ætlar að hafa einn þriðja ræktarlandsins með túngrösum, einn þriðja með byggi og að lokum þriðjung með ertuheilsæði. Með þessu nær hann mikilli umsetningu og ættu flest tún ekki að verða eldri en þriggja til fimm ára.

Á Voðmúlastöðum er rekið kúabú ásamt ferðaþjónustu. Lukas segir mögulegt að ferðaþjónustan geti skila meiri veltu en mjólkurframleiðslan.

Ævintýralegur vöxtur baunagrasa

Í sumar sáði Lukas heilsæði í 22 hektara, þar sem hann var með ertubaunir og bygg. Hann segir að margir bændur hafi varað hann við að veðja á erturnar, þar sem ekki hefur náðst mikill árangur með þær hér. Hann gaf lítið í þær efasemdir, en ertur þurfa minni hita en bygg, og kornrækt gengur prýðilega. Eitt lykilatriðið sé að halda áburðargjöfinni í hófi, þar sem of mikið köfnunarefni er skaðlegt ertunum.

Til þess að lágmarka þann tíma sem túnin eru ekki að skila af sér afurðum, þá sáði Lukas jafnframt fullum skammti af grasfræblöndu með. Hlutföllin voru 110 kílógrömm af ertum, 70 kílógrömm af byggi og 15 kílógrömm af grasfræblöndu með smára. Með þessu nær hann fram áhrifum skjólsáningar.

Þegar heilsæðið er slegið seinni part sumars kemst sólskinið að grasinu og það nær kröftugum vexti. Þar að auki skilja erturnar eftir 50 kílógrömm af köfnunarefni á hektara í jarðveginum, sem annars færi til spillis. Hann mun slá túnið aftur í haust, sem gefur smávægilega uppskeru, en aðallega er hann að drepa byggið og erturnar sem reyna að ná endurvexti.

Næsta vor verður svörðurinn orðinn þéttur og túnið mun gefa fulla uppskeru. „Þetta snýst um að nota minni áburð og hámarka nýtingu ræktarlandsins,“ segir Lukas. Hann segir danska bændur reyna að forðast að láta flögin standa opin lengur en þarf.

Uppskeran af heilsæðinu var langt umfram væntingar, en það var slegið og sett í stæðu rétt áður en Bændablaðið ræddi við Lukas. Erturnar voru sums staðar orðnar einn og hálfur metri á hæð og voru búnar að hækka mun meira en byggið.

Vill þekkja kýrnar með nafni

Lukas segir að þeir bændur sem vilja ekki breytingar, séu þeir sem á endanum heltast úr lestinni og bregða búi. Í Danmörku er þróunin sú að búin stækka og ekki sé hægt að lifa af búskap nema vera með mörg hundruð kýr.

Hann vill ekki vera með of margar kýr, sem er ein af ástæðunum fyrir því að hann vildi flytja til Íslands. Í hans huga ertu ekki alvöru bóndi nema þú þekkir allar kýrnar þínar með nafni. Sé búið stærra en það, þá sé það verksmiðja. Á Voðmúlastöðum eru 55 kýr að jafnaði.

Í huga Lukasar, ertu ekki alvöru bóndi nema þú þekkir allar kýrnar með nafni. Telur hann góða skapgerð eitt sterkasta einkenni íslenska kúakynsins.

Ferðaþjónusta arðbær

Lukas segir að ferðaþjónustan sé orðinn stór hluti af rekstri búsins. Hann er búinn að byggja nokkur gistihús á jörðinni í samstarfi við föður sinn. Lukas kemur að orði að þetta sé „peningamaskína“, og ef þetta gengur vel geti komið til greina að draga saman mjólkurframleiðsluna.

„Ef við ætlum að verja meiri tíma í ferðaþjónustuna, þá getur verið réttast að vera frekar með naut en mjólkurkýr,“ segir Lukas, en fyrrnefnda búgreinin er ekki eins bindandi. „Við vitum samt ekki hvernig umhverfi ferðaþjónustunnar verður eftir tíu ár, þannig að við ætlum að halda möguleikunum opnum.“

Skylt efni: Voðmúlastaðir

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí
Líf og starf 16. maí 2024

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí

Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana en er þó frekar skýr í kollinum...

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...