Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðjón Rúdolf Guðmundsson tónlistarmaður með eintak að nýju plötunni sem inniheldur brot af því besta sem hann hefur sent frá sér til þessa. Mynd / H.Kr.
Guðjón Rúdolf Guðmundsson tónlistarmaður með eintak að nýju plötunni sem inniheldur brot af því besta sem hann hefur sent frá sér til þessa. Mynd / H.Kr.
Líf og starf 10. október 2019

„Best of“ Guðjón Rúdolf til þessa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Guðjón Rúdolf Guðmundsson flutti til Árósa í Danmörku fyrir rúmum tuttugu árum og kann vel við sig á flatneskjunni. Gaui, eins og hann er yfirleitt kallaður, er með tóneyra frá náttúrunnar hendi og er tónlistarmaður af goð­anna náð.

Áður en Gaui flutti út lék hann með hljómsveitunum Infernó 5 og Kíkóte vindmyllurnar og hélt árlega tónleika undir heitinu Sköllótta tromman. Eftir komuna til Danmerkur hefur hann spilað og sungið með Krauku sem leikur tónlist í anda víkinga. Gaui er ómenntaður í tónlist og spilar eftir eyranu. Faðir hans var lærður tónlistarmaður frá Þýskalandi og að sögn Gauja reyndi hann að koma í veg fyrir að hann legði fyrir sig tónlist að ævistarfi. „Hann vildi mér vel.“

Gaui sendi nýlega frá sér vínyl­plötu sem hann kallar Nokkrar leiðbeiningar í alþýðutónlist fyrir byrjendur og er safn af tónlist sem hann hefur gefið út úr undir eigin nafni. Hann segir að þetta sé eins konar „best of“, eða samantekt á því besta sem hann hefur unnið í samvinni við Þorkel Atlason tónskáld undanfarin ár.

Lög af þremur diskum

„Lögin eru valin af þremur geisladiskum, eða eins konar þríleik. Þannig vildi til að þegar ég flutti til Danmerkur var ég farinn frá vinum mínum á Íslandi og þekkti fáa á nýja staðnum. Ég var á tímabili hættur að spila opinberlega og spurði Þorkel, sem þá bjó í Árósum, hvort hann ætti upptökutæki, sem hann gerði. Því næst fórum við niður í kjallara heima hjá honum og ég spilaði allt sem ég kunni og Þorkell tók það upp.

Síðan leið og beið og ég heyrði ekkert frá Kela og ég hugsaði náttúrlega allt á versta veg eins og mér er lagið. Sem betur fer fyrir mig var Þorkell atvinnulaus á þessum tíma og hafði því góðan tíma til að grúska í upptökunum með hljómfræði og sinn tónlistabakgrunn að vopni.

Þegar Þorkell hafði svo að lokum samband sagði hann að ég færi víða um á upptökunum og að lokum var gefinn út geisladiskur sem fékk heitið Minimania, nokkrar leiðbeiningar fyrir byrjendur. Á þeim diski er að finna alla hljóma fimmundar- hringsins nema einn og það átti að vera gáta hvaða hljóm vantaði. Í kjölfarið fylgdu svo tveir aðrir diskar, Þjóðsögur og Regnboginn, sem við Keli unnum saman.

Eftir á að hyggja sýnist mér að titlarnir lýsi lífshlaupi mínu ágætlega. Ungur var ég minimanskur og síðan kom Þjóðsöngurinn með öllum kvörtununum og þrasinu og svo Regnboginn sem er leiðin til Valhallar.“

Lögin endurútsett fyrir vínylinn

Tónlistin á plötunni er endurunnin og endur­útsett af Þorkeli fyrir vínyl­útgáfuna og því aðeins öðruvísi en á geisla­diskunum. Á plötunni er meðal annarra gullkorna að finna lögin Tangó, Zambadusa og Húfan sem naut mikilla vinsælda fyrir nokkrum árum og heyrist enn oft þegar fólk kemur saman og gerir sér glaðan dag, hvort sem það er í barna­afmælum eða á þorra­blótum.

Guðjón Rúdolf og Þorkell Atlason tónskáld um það leyti sem Minimania kom út árið 2003.

Platan gefur góða yfirsýn yfir tónlist og texta Gauja sem trúbadors og svíkur engan sem hefur áhuga á einlægri og skemmtilegri tónlist. Listsköpun sem er allt í senn rúmba, samba og tjatjatja og ólíkt öllu öðru sem heyrist dags daglega og verður áhugaverðara og skemmtilegra við hverja hlustun.

Gaui segir að ástæðan fyrir því að gefa lögin út á vínyl sé sú að þeir sem gangi svo langt að eiga plötuspilara og kaupa vínylplötur gefi sér yfirleitt tíma til að setjast niður og hlusta. „Það er ritúal að taka vínylplötu úr albúmi og setja hana á fóninn og hlusta í rólegheitunum. Mig langaði einfaldlega að gefa út safnplötu fyrir þetta fólk.“

Dekstrað við sig í Danmörku

„Ástæðan fyrir því að ég og eiginkona mín, Vigdís Sveins­dóttir, fluttum út var að okkur bauðst að vera í Danmörku í tvö ár í framleigðu húsnæði vinafólks okkar sem var á leiðinni til Grænlands að vinna. Okkur þótti upplagt að breyta til og tókum boðinu og síðan eru liðin rúm tuttugu ár.

Fljótlega eftir komuna út vorum við bæði komin í góða vinnu og komin heim klukkan þrjú á daginn og það sem meira var að við gátum lifað góðu lífi á 37 tíma vinnuviku sem er ekki hægt á Íslandi. Það vandist vel og við dekstruðumst til að vera lengur og líður ágætlega. Ég efast þó um að ég vilji láta jarða mig í dönskum leir og býst við að flytja heim áður en að því kemur.“

Krauka og víkingasiður

Smám saman aðlöguðust Gaui og Vigga lífinu í Danmörku og kynntust nýju fólki. Gaui komst í samband við danska tónlistarmenn sem höfðu áhuga á gömlum hljóðfærum og tónlistararfi víkinga og víkingasið. Úr varð tríó sem lék á hljóðfæri sem smíðuð voru eftir lýsingum á fornum norrænum hljóðfærum og tónlist í anda þess sem hljómsveitin taldi að víkingar hefðu spilað.

Fyrstu tónleikar tríósins voru á Grænlandi í tilefni af 1000 ára afmæli Eiríks rauða í Brattahlíð þar sem hljómsveitarmeðlimir voru klæddir í víkingaklæði. Í það skiptið kallaðist hljómsveitin Sögu­fuglarnir.
Síðar fékk tríóið heitið Krauka og í dag er hljómsveitin skipuð fimm hljóðfæraleikurum og hljóðfærin orðin rafmagnaðri og nútímalegri þrátt fyrir að eldri hljóðfærin skipi enn stórt hlutverk. Vinsældir Krauku hafa aukist með hverju árinu og hljómsveitin gefið út sjö geisladiska og von er á þeim áttunda í haust. Hljómsveitin hefur haldið tónleika víða um heim, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, og er vinsæl á víkingahátíðum.

„Þessar hátíðir geta verið mjög skemmtilegar og gaman að sjá fólk klætt upp í víkingabúninga og leika víkinga en satt best að segja er enginn munur á þessu og þegar aðdáendur Star Trek koma saman í geimverubúningum og tala framandi tungumál og skemmtir sér.“

Ótrúlegt ævintýri

Meðlimir Krauku tóku upp nokkur lög fljótlega eftir að þeir fóru að spila saman og þá kom Þorkell aftur til sögunnar og sagði að það vantaði ekki mikið uppá að hægt væri að gefa út disk. „Við tókum því upp nokkur lög til viðbótar og kláruðum fyrsta diskinn og síðan hefur Krauka og stússið í kringum hljómsveitina verið ótrúlegt ævintýri sem hefur staðið í tuttugu ár og sér ekki enn fyrir endann á,“ segir Guðjón Rúdolf og strýkur á sér skeggið og brosir með augunum.
     

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...