„Við vorum ekki Akureyringar“
Rit Sögufélags Eyfirðinga, Súlur, er komið út og færir fjölbreytt efni að venju að því er fram kemur í tilkynningu frá útgefendum.
„Kristín Aðalsteinsdóttir ræðir við Ásu Marinósdóttur ljósmóður þar sem margt fróðlegt og skemmtilegt ber á góma. Aðalbjörg Bragadóttir fjallar um hið ástsæla ljóðskáld Kristján frá Djúpalæk og Sigfús Jónsson lítur til baka á tíma sinn sem bæjarstjóri Akureyringa.
Viðtal Kristínar M. Jóhannsdóttur við þrjá Þorpara varpar afar athyglisverðu ljósi á lífið norðan ár þegar Glerárþorp var í mótun en lengi vel áttu Þorparar undir högg að sækja hjá Akureyringum. Er þá fátt eitt talið af því sem Súlur færa okkur að þessu sinni,“ segir í tilkynningu ritnefndar hins norðlenska tímarits.
Hægt er að gerast áskrifandi að Súlum í síma 863-75299 – eða gegnum netfangið jhs@bugardur.is.