Grænmeti gengur með öllum mat
Höfundur: Bjarni Gunnar Kristinsson
Þegar daginn fer að lengja er tilvalið að setja aukinn léttleika í matargerðina. Salat með einföldu hráefni er fljótlegt að galdra fram með lítilli fyrirhöfn.
Hér á eftir notum við meðal annars þroskaðar ferskjur, mozzarellaost, basil og ólífuolíu. Það má líka gjarnan prófa íslenska repjuolíu sem er farin að sjást í sælkerabúðum og á matarmörkuðum bænda.
Ferskju-, mozzarella-
og basilsalat
- 3 stk. ferskjur (þroskaðar og skrældar ef þess er óskað en það er ekki nauðsyn)
- 5 g ferskt basillauf (rifið)
- 1 pakki ferskur mozzarellaostur (litlar eða stórar kúlur skornar í sneiðar)
- 2 tsk. Extra Virgin ólífuolía
- 1/4 tsk. sjávarsalt
- 1/8 tsk. svartur pipar
Aðferð
Blandið öllu saman á fallegan disk. Það má nota það sem er til í ísskápnum svo sem hnetur, salat eða grænmetisafganga. Kryddið til og skreytið með basil eða myntu.
Einfalt tómat- og avokadósalat
Þetta er einfalt salat en það má gera það huggulegt með því að raða tómatsneiðum kringum skál með mörðum avokadó (lárperu).
- 2 meðalstórir þroskaðir tómatar, sneiddir
- 1 avokadó, saxað og marið jafnvel með smá sýrðum rjóma og hrært með sítrónusafanum
- 1 sæt paprika
- 1/4 sneiddur rauðlaukur
- 1 msk. ólífuolía
- 1 msk. balsamic edik
- 1 tsk. sítrónusafi
- salt og ferskur pipar
Aðferð
Sameinið öll innihaldsefni í skál eða raðið lagskipt á disk. Hellið edikinu og olíunni yfir og kryddið með salti og pipar. Ef það eru kryddjurtir við hendina skemmir það ekki að strá þeim yfir. Látið standa í fimm mínútur áður en salatið er framreitt.
Heimalagaður steiktur laukur
Það er ljúffengt að steikja lauk í svokölluðu tempura-deigi. Hægt er að djúpsteikja ýmist annað en lauk, t.d. grænmeti. Gott til að toppa kjötsalat eða sem snakk með sýrðum rjóma.
- Olía, til steikingar
- 2 stórir laukar, skornir í 1/2 cm þykka hringi, hýði fjarlægt
- 210 g maís-hveiti (Maizenamjöl)
- 1 msk. lyftiduft
- 1 msk. matarsóti
- 1 egg (eggjarauða)
- 250 ml bjór
- 1/2 tsk. salt
- Ferskur svartur pipar
Aðferð
Blandið þurrefnum í skál og gerið gat í miðju. Bætið eggjarauðu í sér skál og brjótið hana upp með gaffli. Bætið í hveiti og hellið bjórnum út í. Þeytið létt til að fá áferð eins og á pönnukökudeigi.
Hitið olíu í um 180°C. Prófið hvort hitinn sé nægur með því að setja einn laukbita út í. Þegar hann brúnast er olían tilbúin.
Bætið smá Maizenamjöli og kryddi á laukhringina og dýfið í deigið. Steikið í heitri olíu þar til gullnum lit er náð. Þerrið á eldhúspappír og kryddið með salti.
Hægt er að setja ýmiss konar grænmeti í deigið svo sem vorlauk eða papriku. Einstaklega ljúffengt með afgangskjöti sem er breytt í steikarsalat með remúlaði eða sýrðum rjóma.