Fjórtándi jólasveinninn
Liðsmenn Freyvangsleikhúss Akureyrar frumsýndu barnaverkið Fjórtándi jólasveinninn þann 23. nóvember.
Þetta jólaævintýri er frumsamið eftir Ásgeir Ólafsson Lie og fjallar um hina hefðbundnu jólasveinafjölskyldu, Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn, en einnig um lítinn ólátabelg sem áhorfendur fá að kynnast betur. Litli jólasveinninn Ólátabelgur kom óvænt í heiminn og hefur því ekki hlutverk eins og aðrir innan fjölskyldunnar.
Það er ekki skemmtilegt að vera öðruvísi en allir í kringum sig og því þarf Ólátabelgur að hafa fyrir því að finna sinn tilgang í lífinu ef svo má segja.
Leikstjórn er í höndum Jóhönnu S. Ingólfsdóttur, sem leikstýrir nú í þriðja sinn aðventuverki hjá Freyvangsleikhúsinu, tónlist er eftir Eirík Bóasson og textar eftir Helga Þórsson.
Á sviðinu eru 19 leikarar í heildina á öllum aldri, frá 10–74 ára auk hljómsveitarinnar og má nærri geta að líf og fjör verður á sviðinu. Þetta er jólaævintýri sem enginn má missa af en frumsýning var laugardaginn 23. nóvember kl. 13. Frekari sýningar verða svo í Freyvangi laugardaga og sunnudaga kl.13. Nánari upplýsingar á tix.is, á Facebook-síðu Freyvangsleikhússins og í síma 857-5598.