Metmagn af feldfjárskinnum til vinnslu í Svíþjóð
Félag feldfjárbænda á Suðurlandi hefur verið starfandi í um áratug og segir formaðurinn, Elísabet S. Jóhannsd. Sörensen í Köldukinn í Holtum, að talsverður uppgangur sé í þessum anga íslenskrar sauðfjárræktar.
Nú í haust fór metmagn frá okkur í félaginu til Svíþjóðar í sútun, eða um 400 gærur af feldlömbum, venjulegum lömbum og geitastökur,“ segir Elísabet.
Bændaferð til Svíþjóðar
Bændur á tíu bæjum eiga skinn sem fóru út til vinnslu. „Áður fyrr fóru skinnin okkar til sútunar á Sauðárkróki en þá var þetta mjög lítið magn, kannski 30–40 skinn. Síðan leggst verksmiðjusútun þar af og um leið hér á landi.
Árið 2017 fórum við feldfjárbændur í bændaferð til Svíþjóðar og hittum þar ræktendur Gotlandsfjár, sem er fyrirmynd íslenska feldfjárins. Í þessari ferð skoðuðum við meðal annars sútunarverksmiðju. Við hrifumst af því hvernig staðið var að öllum málum þar varðandi vinnsluna,“ útskýrir Elísabet.
„Síðan höfum við sent til þeirra okkar skinn og við erum tíu bændur sem höfum verið að senda út skinn í sútun. Þetta hefur aukist bara jafnt og þétt á hverju ári. Hvert skinn er merkt sínum bónda með númeri og ef við hefðum tök á því að einstaklingsmerkja gærurnar í sláturhúsinu þá gætum við fengið skinnin einstaklingsmerkt til baka sem væri mjög gaman, að geta rakið ferlið alla leið. Skinnin seljum við svo flest á okkar búum eða í handverksbúðum í héraði.
Við fáum skinnin bæði klippt og óklippt til baka frá Svíþjóð. Klipptu skinnin hafa verið eftirsótt, til dæmis hjá bólstrurum,“ segir Elísabet, spurð um hverjir séu helstu viðskiptavinir feldbænda. „Líka eru margir áhugasamir um að fá skinn bara til að prýða heimili sín.“
Aukinn áhugi á feldfjárrækt
Elísabet segir að almennt megi segja að hver og einn bóndi sé alltaf í auknum mæli að vinna sínar afurðir meira, til að búa til enn meiri verðmæti úr þeim. „Þá eru það bæði nytjahlutir og skrautmunir alls konar. Við notum þetta hráefni líka til að gera vettlinga, barnaskó og í raun bara eins og gömlu mokkaskinnin voru notuð.
Já, það er óhætt að segja að þessi grein sé mjög vaxandi,“ svarar Elísabet þegar hún er spurð að því hvort hún finni fyrir auknum áhuga bænda. „Núna viljum við fara að huga meira að framleiðslunni og handverkinu. Þá er ég að meina þannig að virðisaukinn verði meira eftir hjá okkur bændum og milliliðum sé fækkað. Þetta er nefnilega ekki aukabúgreinin okkar eins og hjá flestum öðrum sauðfjárbændum. Skinnin og ullin eru aðalafurðin, en kjötið aukaafurð.“
Ullin líka gríðarlega mikilvæg
„Ullin er líka gríðarlega mikilvæg fyrir okkur sem kemur af öllum líflömbum okkar. Ull af feldfé hefur verið eftirsótt í handspuna því hún er svo mjúk og glansandi. Handverksfólk víða um heim hefur sótt í það að kaupa reyfi beint af bónda í handspuna til dæmis. Nú síðast var hollensk kona sem kom hingað á Ullarviku Suðurlands sem fékk senda ull og garn af feldfé til að kynna á 400 manna ráðstefnu handspunafólks í Hollandi.
Við höfum látið spinna fyrir okkur í Uppspuna og Gilhaga, smáspunaverksmiðjum á Íslandi, en einnig í Danmörku. Svo hefur Ístex unnið plötulopa fyrir okkur, en það er ákveðið vandamál fyrir okkur að Ístex þarf svo rosalega mikið magn til að hægt sé að láta vinna okkar hráefni þar.
Þannig að við höfum safnað saman og kannski látið ull frá okkur þriðja hvert ár til vinnslu þar,“ segir Elísabet.
Í náinni snertingu við ræktunina
„Það er gríðarlega skemmtilegt að fást við þessa tegund ræktunar því eiginleikarnir eru svo nálægt okkur sem við sækjumst eftir að við getum hreinlega snert á þeim. Við veljum gripina út frá feldeiginleikunum,“ heldur Elísabet áfram.
Hvert lamb er metið að hausti samkvæmt ákveðnum stöðlum. „Nú getum við loksins skráð felddóma inn í Fjárvís sem er nauðsynlegt til að halda utan um ræktunarstarfið,“ segir Elísabet og segist sjálf hafa fjölgað töluvert núna í ásetningi fyrir veturinn, sé með 40 vetrarfóðraðar ær.
Heimsókn á Vesturland
Að sögn Elísabetar eru nokkrir félagar úr sunnlenska feldfjárræktarfélaginu að ráðgera heimsókn á Vesturland og kynna fyrir feldfjáreigendum þar hvað þau eru að gera. Hún segir að farin hafi verið slík ferð fyrir Covid-faraldurinn og nú sé ætlunin að endurtaka leikinn og funda með bændum þar. Áhugi sé þar einnig að aukast.
Fjölga þarf gripum inn í ræktunarstarfið
„Það er nauðsynlegt að glæða áhuga sem flestra á þessari ræktun til að hægt sé að fjölga hraðar vænlegum gripum inn í ræktunarstarfið. Ég hugsa að við séum kannski að nálgast um 300 vetrarfóðraðar feldær hér á Suðurlandi, þar sem langstærsti hlutinn er,“ segir Elísabet.
Hún bendir á að það sé árangur sem megi þakka Guðna Má Sveinssyni á Melhóli – og í raun að þessi ræktun sé einfaldlega enn til. „Þessi grein á heilmikið inni, því við sjáum á undanförnum árum hvernig áhugi hefur stóraukist til dæmis á prjónaskap og almennt meiri meðvitund að vinna með náttúrulegt hráefni.“