„Blessað veri grasið“
Orðsins list kemur að þessu sinni frá Snorra Hjartarsyni sem sagði að flest væri hægt að segja í ljóði en margt ekki hægt að segja öðruvísi en í ljóði.
„Það er svo með mig að kvæðið kemur til mín og heimtar að það sé ort; ég kemst ekki undan því að yrkja það,“ sagði Snorri, og einnig: „Það yrkja náttúrlega allir fyrir sjálfa sig, að minnsta kosti sönn skáld.“ Snorri var fæddur árið 1906 á Hvanneyri í Borgarfirði en ólst upp í Arnarholti í Stafholtstungum frá níu ára aldri. Eftir menntaskóla lagði hann stund á listnám í Kaupmannahöfn og Ósló og fékkst einkum við málaralist.
Hann sendi frá sér skáldsöguna Høit flyver ravnen í Ósló 1934 og hafði þá jafnframt birt fyrstu ljóð sín. Hann flutti svo heim og starfaði m.a. sem borgarbókavörður, auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samtök listamanna. Ljóðabækur Snorra urðu fjórar talsins: Kvæði (1944), Á Gnitaheiði (1952), Lauf og stjörnur (1966) og Hauströkkrið yfir mér (1979). Fyrir þá síðastnefndu hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1981.
Árið 1986 sæmdi heimspekideild Háskóla Íslands hann heiðursdoktorsnafnbót og er hann einn örfárra skálda sem hana hafa fengið. Snorri Hjartarson andaðist 1986.
Heimild: Landsbókasafn
Vor
Blessað veri grasið
sem grær kringum húsin
bóndans og les mér
ljóð hans,
þrá og sigur
hins þögula manns.
Blessað veri grasið
sem grær yfir leiðin,
felur hina dánu
friði og von.
Blessað veri grasið
sem blíðkar reiði sandsins,
grasið
sem græðir jarðar mein.
Blessað veri grasið,
blessað vor landsins.
Landslag
Í einum fossi
hendist áin niður
morgunhlíð dalsins
undir mjúku sólskýi:
ungur smali
ofan úr heiði
með ljóð á vör,
lamb á herðum.
Á Gnitaheiði, 1957.