Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
20 stærstu afurðafyrirtæki heims með 25% mjólkurinnar
Fréttir 26. október 2018

20 stærstu afurðafyrirtæki heims með 25% mjólkurinnar

Í sumar og haust komu út skýrslur um umsvif afurðafyrirtækja í mjólkuriðnaði í heiminum árið 2017, í þeim er stærstu fyrirtækjum heimsins raðað upp bæði eftir veltu og magni innveginnar mjólkur. Þessar skýrslur er gefnar út af tveimur ólíkum aðilum og út frá ólíkum forsendum, en gefa einstaka sýn á þá stöðu og þróun sem á sér stað í heiminum á þessu sviði. 
 
Önnur skýrslan, sem tekur mið af veltu fyrirtækjanna, er gefin út af hollenska samvinnubankanum Rabobank, en hann er án nokkurs vafa sérhæfðasta fjármálafyrirtæki í heimi á sviði landbúnaðarmála og er með rekstur í mörgum löndum. Hin skýrslan, sem horfir til umsvifa fyrirtækjanna með tilliti til innveginnar mjólkur, er tekin saman af IFCN (International Farm Comparison Network) samtökunum en það eru alþjóðleg samtök sem fylgjast með ýmsu því sem snýr að mjólkurframleiðslunni í heiminum.
 
 
Nestlé með langmesta veltu
 
Þegar skýrsla Rabobank er skoðuð kemur þar fátt á óvart, þ.e. fyrir þá sem hafa fylgst með þróun afurðavinnslu í mjólkuriðnaðinum í heiminum undanfarin ár. Í efsta sæti listans (sjá töflu 1) yfir veltumestu fyrirtækin í mjólkuriðnaði er svissneski risinn Nestlé en það fyrirtæki hefur verið langstærsta fyrirtækið í áraraðir og ber í raun höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki á þessu sviði enda stærsta matvælafyrirtæki í heimi. 
 
Árið 2017 nam heildarvelta þess af viðskiptum með mjólkurvörur eingöngu, 24,2 milljörðum bandaríkjadollara, sem svarar til um 2.800 milljarða króna! Til þess að setja þessa veltutölu í samhengi má geta þess að verg landsframleiðsla Íslands árið 2017 var 2.555 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands. Mjólkurafurðahluti Nestlé, sem fyrirtækið var upphaflega stofnað í kringum, er innan við þriðjungur af umvifum fyrirtækisins í dag.
 
4 af 10 efstu samvinnufélög
 
Sé litið neðar á listann má sjá að í öðru og þriðja sæti eru frönsku fyrirtækin Lactalis og Danone en bæði eru einkafyrirtæki, í fjórða sæti er síðan hið bandaríska Dairy farmers of America, sem er samvinnufélag líkt og næstu fyrirtæki á listanum: Fonterra, sem er í eigu bænda á Nýja-Sjálandi, FrieslandCampina sem er í eigu bænda í Hollandi og Arla Foods sem er í eigu bænda í 7 löndum Norður-Evrópu. Í sjöunda sæti er hið kanadíska Saputo og þá koma kínversku fyrirtækin Yili og Menginu og því eru fjögur af 10 stærstu fyrirtækjunum samvinnufélög en öll hin eru hlutafélög.
 
Samrunar ofan á samruna
 
Í skýrslu Rabobank kemur fram að síðustu tvö árin hafa ekki orðið neinar breytingar á listanum yfir 20 veltumestu fyrirtækin í mjólkuriðnaðinum í heiminum. Segja skýrsluhöfundar það skýrast af því að stærstu fyrirtækin haldi afar sterkri stöðu á markaðinum og stundi samruna og uppkaup á smærri fyrirtækjum til að halda áhrifum sínum. 
 
Hér áður fyrr sameinuðust fyrirtæki fyrst og fremst innan landanna eða við önnur fyrirtæki í næstu löndum og Arla Foods er gott dæmi um það en það félag hefur vaxið með samruna á milli nágrannalanda og byrjaði ferlið með samruna hins danska MD Foods og hins sænska Arla. Síðan hafa runnið inn í Arla Foods félög í nágrannalöndunum og í dag standa að Arla Foods kúabændur í 7 löndum. Sömu sögu má segja af FrieslandCampina en það félag varð til þegar tvö smærri runnu saman í eitt í Hollandi. 
 
Nú orðið er mun sjaldgæfara að svona samrunar eigi sér stað og mun algengara að fyrirtækin styrki sig á markaði með uppkaupum eða samruna við fyrirtæki í löndum sem eru jafnvel óralangt í burtu. Góð dæmi um þetta eru t.d. samruni á síðasta ári milli Lactalis við hið bandaríska WhiteWave og samruni Saputo við hið ástralska Murray Goulburn.
 
Samvinnufélögin í vörn
 
Skýrsluhöfundar spá því að afurðastöðvum í heiminum haldi áfram að fækka á komandi tímum og þau stækki enn frekar. Árið 2017 voru alls gerðir 127 samrunar eða uppkaup og um mitt þetta ár var búið að tilkynna um 62 samrunasamninga sem bendir til þess að árið 2018 verði áþekkt fyrra ári þegar litið er til stækkunar fyrirtækjanna í mjólkurvinnslu í heiminum. Þá spá þeir því líka að samvinnufélagaformið muni eiga undir högg að sækja þar sem hlutafélagaformið virðist henta vel fyrir afurðavinnslu mjólkur þar sem ákvarðanatakan er öllu einfaldari og skilvirkari og nefna uppkaup Saputo á Murray Goulburn í Ástralíu, sem var samvinnufélag bænda, sem dæmi um undan-hald samvinnufélagsformsins. Skýrsluhöfundar taka þó fram að nokkur samvinnufélög séu mjög sterk og áðurnefnd fjögur félög á topp 10 listanum séu með rúmlega tvöfalda veltu Nestlé sem sýnir styrk þeirra.
 
 
20 stærstu með 25% mjólkurinnar!
 
Sé horft frá veltu fyrirtækjanna og í staðinn að umfangi þeirra litið til þess mjólkurmagns sem þau vinna með kemur upp svolítið öðruvísi heimsmynd (sjá töflu 2). Samkvæmt skýrslu IFCN nam innvigtun 20 stærstu aðilanna á markaðinum 211 milljörðum kílóa á síðasta ári en það magn er um 25% af allri mjólk sem var innvegin til afurðastöðva í heiminum í fyrra. 
 
Þessi 20 fyrirtæki og félög juku innvigtun mjólkur um 11 milljarða kílóa frá árinu 2015 eða um 5,5%. Þá vekur athygli að 5 stærstu aðilarnir eru með helming magnsins eða um 100 milljarða kg mjólkur! Til þess að setja þetta magn í samhengi þá eru þessir fimm aðilar með rúmlega 650 sinnum meira mjólkur-magn en samanlögð öll íslenska mjólkurframleiðslan var á síðasta ári!
 
Ólíkur rekstur
 
Við skoðun á þessu yfirliti IFCN um röðun fyrirtækja sem kaupa mjólk af bændum, í samanburði við tekjulista Rabobank af fyrirtækjum í mjólkurvinnslu, má m.a. sjá að töluverður munur er á rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækjanna. Þannig er bandaríska félagið Dairy farmers of America með langmesta mjólkurmagnið en velta þess er þó minni en margra annarra. 
 
Skýringin felst í því að félagið selur mest af mjólkinni óunna til annarra aðila sem svo framleiða úr henni söluvörur. Þá má sjá á þessum lista IFCN 4 fyrirtæki sem ekki eru á listanum hjá Rabobank á þetta sér hlið-stæðar skýringar og um Dairy Farmers of America. Nokkur fyrirtæki og félög bænda eru þó sterk á báðum sviðum, þ.e. bæði með mikla innvigtun mjólkur og mikla veltu.
 
Evrópsk fyrirtæki sterk
 
Af 20 stærstu fyrirtækjum og félögum sem kaupa mjólk af bændum eru 10 þeirra evrópsk og segir það sitt um mikilvægi Evrópu sem mjólkurframleiðslusvæðis í heiminum. Þessir 10 aðilar eru með um helming mjólkurmagnsins af stærstu 20 aðilunum en mjólkurframleiðslan er einnig afar öflug í Norður-Ameríku og af 20 stærstu aðilunum eru 6 þaðan. Þá vekur athygli að kínversku fyrirtækin Yili og Mengniu ná inn á listann en þessi tvö fyrirtæki eru ung að árum en hafa vaxið gríðarlega mikið á stuttum tíma.
 
Ýmsar aðrar áhugaverðar staðreyndir um stöðu og þróun innvigtunar mjólkur og vinnslu mjólkur-afurða má finna í þessum skýrslum frá Rabobank og IFCN, en báðar skýrslurnar eru aðgengilegar á veraldarvefnum.
 
Heimildir: IFCN, 2108: Top 20 milk processors list 2018 / RaboResearch, 2018: Global dairy top 20.
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...