Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda leggst alfarið gegn stofnun miðhálendisþjóðgarðs
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, sem haldinn var í Bændahöllinni 4.–5. apríl 2019, leggst alfarið gegn fyrirhugaðri stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Tilgangur og þörf stofnunar þjóðgarðsins sé óljós en fyrir liggi að hún getur ógnað nytjarétti landeigenda.
Þá er þess krafist að eignarréttarákvæði stjórnarskrár Íslands séu virt þegar kemur að gerð frumvarpa um þjóðgarða, eða breytingum á náttúruverndarlögum sem kunna að ganga í berhögg við eðlileg réttindi landeigenda.
Í greinargerð með samþykkt fundarins segir:
„Fyrirhugaðar breytingar á náttúruverndarlögum þar sem almannaréttur er útvíkkaður, þannig að landeigendum eru enn frekar settar hömlur á að stjórna umferð um sitt land, ganga í berhögg við eignarréttarákvæði stjórnarskrár Íslands. Allar slíkar tillögur og líka þær er varða þjóðgarða verður að kynna vel og vinna í samráði við hagsmunaaðila. Bændur eru þar stærsti hópurinn og eðlilegt að sérstaklega sé horft til þeirra í þessu samhengi.“