Afríska svínapestin breiðist enn út í Þýskalandi
Friedrich Loeffler-stofnunin í Þýskalandi gaf út þann 1. nóvember síðastliðinn að staðfest væru 123 smit afrísku svínapestarinnar í villisvínum, aðallega á tveim svæðum í ríkinu Brandenburg í austurhluta Þýskalands.
Daginn eftir, eða 2. nóvember, greindi þýska landbúnaðarráðuneytið frá því að villisvín sem var drepið í nágrannaríkinu Saxoy hafi verið smitað af afrísku svínapestinni. Smit hafði samt ekki borist í alisvínastofninn í Þýskalandi.
Julia Klöckner, landbúnaðarráðherra Þýskalands, staðfesti þann 10. september að fyrsta tilfellið af afrísku svínapestinni (ASF) hafi fundist í landinu 9. september. Þá hafði fundist hræ af smituðum villigelti í ríkinu Brandenburg í austurhluta Þýskalands. Smittilfellið í Saxoy í byrjun nóvember var í Efri-Lusatia í Görlitz héraði. Sveit sérfræðinga var þegar kölluð til, enda hafði veikin þá verið að breiðast frekar út í Brandenburg. Farið var í að setja upp rafmagnsgirðingar til að hefta enn frekari útbreiðslu í Saxoy, en rafmagnsgirðingar sem settar voru upp í Brandenburg virðast ekki hafa dugað til að stöðva útbreiðslu veikinnar.
Þjóðverjar sem flytja að jafnaði mikið út af svínakjöti hafa fundið illilega fyrir banni á útflutningi til 10 landa utan Evrópusambandsins. Kemur þetta til viðbótar erfiðleikum sem þýskir bændur hafa þurft að glíma við vegna COVID-19.