AHQ mögulega verndandi
Genasamsætan AHQ telst vera mögulega verndandi í öllum arfgerðasamsetningum
Í umfjöllun í síðasta Bændablaði um skýrslu sérfræðingahóps um nýja nálgun í aðgerðum gegn riðuveiki í sauðfé, með ræktun fjár með verndandi arfgerðir, var genasamsætan AHQ sögð teljast til minna næmra samsæta hvað varðar smitnæmi kinda fyrir riðuveiki.
Í greinargerð um samsætuna í skýrslunni er hins vegar hvergi getið um að hún sé mögulega verndandi, einungis minna næm fyrir riðu. Í meðfylgjandi töflu, þar sem yfirlit er að finna um flokkun arfgerða í næmar, verndandi og mögulega verndandi, var í fyrstu útgáfu skýrslunnar AHQ-samsætan flokkuð sem næm arfgerð í samsetningu með N138-samsætunni.
Í leiðréttri útgáfu skýrslunnar er samsætan flokkuð sem mögulega verndandi í öllum tilvikum nema með ARR-samsætunni, þar sem hún er flokkuð sem verndandi arfgerð.