Bændur þurfa að kaupa talsvert af heyi
Bú víða af Norðurlandi hafa þurft að leita eftir stuðningi hjá Bjargráðasjóði vegna kaltjóns í túnum. Góð uppskera á sumum svæðum í héraðinu gerir bændum sem lentu í vandræðum kleift að kaupa hey.
Sigurgeir B. Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar, segir að Bjargráðasjóði hafi borist umsóknir frá yfir 120 búum og fullyrðir hann að bændur leiti ekki eftir stuðningi nema tjónið sé verulegt. Kalblettir hafi sést víða og mikill munur sé á milli svæða hversu viðamiklar skemmdirnar voru. Svarfaðardalur og nokkrir bæir í Hörgársveit hafi komið verst út á meðan inni í Eyjafjarðarsveit hafi verið feiknarleg uppskera.
Hann segir allt þetta ár búið að vera kalt og var hretið í fyrstu vikunni í júní það versta sem menn muna eftir. Rétt fyrir það hafi jarðvegur verið nánast klár í endurrækt, en þá var ljóst að tún væru kalin. Kuldatíðin seinkaði allri vinnu og sums staðar ekki hægt að byrja fyrr en eftir 20. júní, sem sé mjög sérstakt og ekki síður afbrigðilegt en hið mikla kal.
Sigurgeir bætir við að júlí hafi verið ágætur og bjargað því sem bjargað var, en þar sem mikill raki var í jörðinni spratt vel þegar hlýnaði, að því gefnu að túnin væru í lagi. Eitthvað var um að bændur hefðu sáð grænfóðri sem gaf ekki nógu mikið af sér þar sem túnin voru ófær vegna bleytu. Víða á Norðurlandi hefur verið mikil uppskera og geta bændur selt öðrum búum sem vantar hey.
Í Svarfaðardal eru ýmsir búnir að festa kaup á talsverðu magni af gróffóðri og segir Sigurgeir það kost að þurfa ekki að sækja það um langan veg enda flutningurinn dýr. Hann reiknar þó með að sumir séu í þröngri stöðu eftir að hafa lagt út í mikinn kostnað í jarðvinnu og telur að það sé algengt að bændur þurfi að taka yfirdrátt fyrir aðkeyptu gróffóðri. Hluti af greiðslum til bænda úr Bjargráðasjóði séu fyrst að berast núna og ekki megi gera ráð fyrir lokauppgjöri strax
Trausti Þórisson, bóndi á Hofsá í Svarfaðardal, tók tíu hektara af nýræktartúnum til leigu í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu þegar hann sá fram á að geta ekki aflað nægra heyja vegna kaltjóns á sínum túnum. Hann fékk verktaka til að sjá um heyskapinn fyrir sig, enda um hundrað kílómetra leið að fara. Trausti segir þetta ekkert ósvipað því og að kaupa hey, en með þessu hafi hann verið að tryggja sér fóður af bestu gæðum.
Í venjulegu ári þurfi hann 1.700 til 1.900 heyrúllur yfir veturinn. Honum tókst að fá 1.200 rúllur af sínu ræktarlandi í Svarfaðardal í sumar, þar af var fjórðungur af þurrefnisrýru grænfóðri. Trausti hefur fengið 700 rúllur annars staðar að, þar af voru 90 af ræktarlandinu í Reykjadal og hinar fengnar víðs vegar um Eyjafjörðinn. Þau hey hafi öll verið af nýjum eða nýlegum túnum og hefur hann ekki áhyggjur af gæðunum eða afurðatapi hjá kúnum. Hann gerir ráð fyrir að heyforðinn hjá sér og öðrum bændum í Svarfaðardal rétt svo dugi veturinn og það sé alltaf hægt að kaupa fóður. Spurningin sé bara hversu langt þurfi að fara.
Karl Ingi Atlason, bóndi á Hóli í Svarfaðardal, segir að miðað við þær heybirgðir sem hann er með verði hann orðinn heylaus í lok júní á næsta ári og þá sé eins gott að hann geti verið byrjaður að heyja aftur. Hann er ekki enn þá búinn að ákveða hvort hann þurfi aðkeypt gróffóður þar sem hann gerir sér vonir um að brúa bilið með fyrningum frá því á síðasta ári.
Öll nýrri tún skemmdust í kali og segist Karl Ingi ekki eiga nóg af nýræktarheyi í mjólkurkýrnar. Hann sló eldri túnin sem voru heil eins snemma og hægt var til að gæði fóðursins yrðu sem best miðað við aðstæður.
Sjá nánar á síðu 6 í nýju tölublaði Bændablaðsins sem kom út í dag.