Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 22. apríl 2016
Bambi er besta naut Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands fætt 2008
Höfundur: smh
Besta naut Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, sem fætt er árið 2008, var útnefnt á aðalfundi Landssambands kúabænda þann 31. mars síðastliðinn í upphafi fagþings nautgriparæktarinnar. Nautið Bambi (08049) hlaut þessa útnefningu.
Veitti Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, ræktendunum Margréti Bjarnadóttur og Geir Árdal frá Dæli í Fnjóskadal viðurkenningu af þessu tilefni.
Í rökstuðningi Guðmundar kom fram að í framættum Bamba væri að finna mikilvæg naut í íslenskri nautgriparækt, eins og til dæmis Smell (92028), Daða (87003) Þráð (86013), Bauta (79009), Víði (76004), Yl 74010, Fáfni (69003), Bakka (69002) og Sokka (59018).
Faðir Bamba er Laski (00010) frá Dalbæ í Hrunamannahreppi og móðir Stáss (319). Kaðall (94017), frá Miklagarði í Saurbæ er móðurfaðir. Guðmundur sagði að kynbótaeinkunn Bamba væri einstök, eða 117.
Í umsögn um dætur Bamba kom eftirfarandi fram:
Fjórir fimmtu hlutar dætra Bamba eru tvílitar þar sem skjöldóttur er langalgengasti litur. Af grunnlitum eru kolóttir litir mest áberandi.
Dætur Bamba eru prýðilegar mjólkurkýr og hlutfall verðefna í mjólk er hátt.
Þetta eru fremur smáar en í góðu meðallagi háfættar kýr. Þær eru meðalkýr hvað snertir boldýpt en útlögur eru miklar og yfirlínan er eilítið veik. Malir eru í meðallagi breiðar, hallandi en fremur flatar.
Fótstaða er mjög sterkleg og góð. Júgurgerð dætra Bamba er úrvalsgóð, þau eru vel löguð, gríðarvel borin með geysimikla festu og sérlega sterkt júgurband.
Spenagerð er góð, þeir eru stuttir, grannir og mjög vel settir. Dætur Bamba eru frábærar í mjöltum og skapi.
Á aðalfundi Landssambands kúabænda var Bambi útnefnt besta naut Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, sem fætt er árið 2008. Dætur Bamba eru sagðar frábærar í mjöltum og góðar í skapi. Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, lýsir kostum Bamba.