Búist við verðhækkunum á korni og sojabaunum
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt frétt North Star Genetics er búist við hækkandi verði á korni og sojabaunum á þessu ári eftir nokkuð langvarandi stöðnun.
„Ef við horfum fram á veginn, þá erum við nú að upplifa gríðarlega eftirspunaraukningu á korni og sojabaunum um allan heim. Það á sérstaklega við um Kína,“ segir Al Kluis, forstjóri Kluis Commodities.
„Í Kína hefur orðið aukin eftirspurn eftir próteini í takt við auknar tekjur landsmanna. Það hefur verið erfitt að ná einhverri framlegð út úr þessari framleiðslu á síðustu tveim árum, en með aukinni eftirspurn eru líkurnar góðar um að verð hækki og hagnaður aukist á árinu 2017.“
Vegna tregðu á markaði og birgðasöfnunar hefur aukinn hluti kornframleiðslunnar, ekki síst í Bandaríkjunum, farið í framleiðslu á lífeldsneyti eða etanóli. Búist er við að slík framleiðsla aukist enn frekar á þessu ári þrátt fyrir tiltölulega lágt verð og samdrátt í ræktun á korni. Gera má ráð fyrir að m.a. vegna þessa muni fljótlega skapast sú staða að gengið verði á birgðir og verð fari að hækka.