Byggjum sveitirnar og landið allt
Margt hefur kórónuveiran kennt okkur Íslendingum, ekki síst að efla matvælalandið og landbúnaðinn. Að atvinnu getur fólk stundað úr fjarlægð, fjarvinna er komin til að vera.
Erlendir ferðamenn munu koma aftur, landið er draumaland ferðamannsins. En sjálf höfum við nú í tvö Covid-sumur ferðast innanlands. Unga fólkið hefur uppgötvað að ekkert er skemmtilegra en að fara um Ísland, fólk sem bundið er sólarlöndum frá bernsku sinni. Almenningur skreppur nú á sólardögum norður og austur, þetta er yndisleg breyting. Vantar að vísu enn uppbyggðan Kjalveg norður.
En vandinn er sá sami að byggðunum blæðir út, sveitirnar hafa ekki lokið við að hagræða. Kúa- og sauðfjárbúum á eftir að fækka en þau stækka. Ferðaþjónustan og hestamennskan selja best jarðir í dag. Vínbarirnir eru 20 í Ölfusinu en eitt kúabú. Þorpin gráta við hafið. Hagræðingin tók af þeim skipin og kvótann.
Verkefnið er því ný og öflug byggðastefna, ákvörðun um að byggja sveitirnar og landið allt. Ríkisvaldið flutti alfarið til Reykjavíkur fyrir áratugum síðan. Ein og ein jarðgöng eða virkjun eða verksmiðja er ekki heildarlausn.
Norska leiðin í byggðamálum
Norðmenn ákváðu með aðgerðum og byggðajafnvægi að halda Norður-Noregi í byggð. Þar er landbúnaðurinn aflið en atvinnulífið og einstaklingar fá tímabundna eða varanlega forgjöf í skattamálum og fyrirgreiðslu. Einstaklingur sem á stórt atvinnuhús á Blönduósi eða Húsavík stendur höllum fæti gagnvart keppinaut sínum með sams konar húsnæði í Reykjavík. Bankarnir eru með lögheimili fyrir sunnan og stóra fyrirgreiðslu á höfuðborgarsvæðinu. En eignin úti á landi fær ekki nema brot af því, sé hún talin lánshæf á annað borð.
Fyrir allmörgum árum flutti undirritaður ásamt fleiri þingmönnum þingsályktun-artillögu um norsku leiðina í byggðamálum og lægri skatta en þar sem veldisvöxturinn ríkir. Ráðamenn fúlsuðu þá og vísuðu í EES. Eru Norðmenn að brjóta þær reglur? Alþingi leggur ekkert fé til Byggðastofnunar og hún er lánastofnun, sem verður að lána fyrirtækjum á enn hærri vöxtum en bankarnir.
Landbúnaðar- og landnýtingarráðuneytið verður að rísa
Til að kóróna ruglið lögðu alþingismenn og ríkisstjórn landbúnaðarráðuneytið niður 2007 og skúffan er ekki stór í dag. Brýnasta verkefnið er endurreisn landbúnaðar- og landnýtingarráðuneytis með byggðamálin á sinni könnu. Þetta staðfestir í raun skýrsla Björns Bjarnasonar, Byggjum Ísland!
Á ferðalagi mínu um landið hitti ég hámenntaðan sauðfjárbónda og að auki leiguliða Ratcliffes, hann sagði, ,,Ratcliffe þykir vænt um sína leiguliða og er betri við sína leigjendur en landbúnaðar- og fjármálaráðuneytin. Öll gagnrýnin umræða um uppkaup á landi af hálfu auðugra manna innlendra sem erlendra er eðlileg. En ríkið verður að svara því hvernig það ætlar að rétta sveitirnar og landsbyggðina af og gera lífið þar öflugt, heillandi og öruggt.“ Vel mælt, en þarna liggur hundurinn grafinn.
Róbert og Þórólfur eru „hornstaurar“
Við sjáum árangur í byggðamálum sem segir okkur að þetta er hægt. Róbert Guðfinnsson kom með sitt gull heim á Siglufjörð en dauðinn hékk yfir þessu gamla útgerðarþorpi, þrátt fyrir Héðinsfjarðargöng sem ríkið byggði án annarra fyrirheita. Skagfirðingarnir eiga kaupfélagið og Þórólf Gíslason, allt blómstrar á hinu skagfirska efnahagssvæði til sjávar og sveita.
Í fyrsta sinn í sögunni eru Íslendingar að erfa mikla peninga og eignir. Þetta fólk vill margt fjárfesta í jörð og verja lífi sínu í sveit, rækta hross, eða skóg eða vera bara búsett í sveitinni, og vinna þaðan. Að eignast jörð er draumur margra og þessi draumur er að gerast. Kúabúin sem nú eru milli fimm og sex hundruð, þeim fækkar, jafnvel um helming næstu tíu árin. Sauðfjárbúum fækkar. Hæfilegt verkefni fjölskyldu eru 60 kýr með róbót sé búið með eingöngu nautgripi.
Sauðfjárbú er ágætt á góðri jörð, fimm eða sex hundruð ær og einhver fleiri verkefni stunduð á bænum. Því verða sveitirnar að taka vel á móti fólki sem vill koma og stunda annað en hefðbundinn búskap. Stjórnvöld landsins verða að opna leiðir til að auðvelda þessa þróun. Ef stjórnvöld ekki gera það springur landið í andlitið á okkur og ríkir Íslendingar og erlendir menn gleypa sveitirnar. Ratcliffe er alls ekki galinn, Jón ríki er það ekki heldur en þeir eins og allir hinir verða að vinna eftir lögum og stefnufestu ríkisvalds og sveitarfélaga, þar dugar ekkert já já og nei nei.
Brettum nú upp ermarnar „Byggjum Ísland“
Verðandi þingmenn, hvernig ætlið þið að svara kalli byggðanna? Ætlið þið að hafa ríkisvaldið áfram í sparifötum í Reykjavík? Ætlið þið að víkka blóðæðar fjármagns-ins eins og ljósleiðarann sem þingmennirnir hafa keyrt áfram og er afrek?
Er ekki ráð að fá norska sérfræðinga upp til Íslands að segja sína sögu af byggðamálum Norður-Noregs?
Ráðstefnan gæti farið fram á Siglufirði þar sem logar ljós í hverjum glugga af því að Siglfirðingar fundu leiðir og Róbert kom að utan með hugsjónir og kraft. Siglfirðingar fundu sína fjöl, vita nú hvert þeir ætla að fara. Kaupfélag Skagfirðinga hefur í verki staðið við bakið á sínum bændum sem hafa reist landbúnaðinn til sóknar. Þetta er Byggðaverkefnið stóra sem ber að hamra í stein. Höldum ráðstefnu um endurreisn sveitanna og landsbyggðarinnar.
Guðni Ágústsson