Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði blása til málþings á degi landbúnaðarins föstudaginn 11. október.
„Í ár munum við beina sjónum okkar að vaxandi regluverki í kringum landbúnaðinn sem og fjárhagslegum áskorunum sem greinin hefur verið að glíma við. Það styttist í gerð nýrra búvörusamninga og því mikilvægt að varpa ljósi á og taka samtalið um framtíðarregluverk greinarinnar,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Málþingið fer fram á Hótel Selfossi frá kl. 9–12.
Dagur landbúnaðarins er nú haldinn í þriðja sinn en Margrét Ágústa segir viðburðinn vettvang þar sem fulltrúar landbúnaðarins, stjórnvalda og annarra hagaðila koma saman og ræða málin.
„Fjöldi fólks víða úr samfélaginu mun taka þátt í málþinginu, hvort sem er með erindi eða í panelumræðum. Þessi viðburður hefur heppnast einkar vel undanfarin ár og við hlökkum til að taka á móti sem flestum og eiga góðar samræður nú sem áður.“
Dagskrá málþingsins verður auglýst nánar síðar en í tengslum við viðburðinn munu nokkrir bændur á Suðurlandi opna bú sín laugardaginn 12. október. Þann sama dag verður dagur sauðkindarinnar haldinn hátíðlegur í Rangárhöllinni hjá Hellu og skógarbændur halda málþing á Laugum í Sælingsdal.