Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötuns Véla ehf., við nýja Massey Ferguson dráttarvél en það merki hefur verið á toppnum í dráttarvélasölunni á Íslandi í fjölda ára.
Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötuns Véla ehf., við nýja Massey Ferguson dráttarvél en það merki hefur verið á toppnum í dráttarvélasölunni á Íslandi í fjölda ára.
Mynd / HKr.
Fréttir 24. apríl 2019

Ef okkur tekst öllum að stefna í sömu átt, þá er mjög bjart fram undan í íslenskum landbúnaði

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Jötunn Vélar ehf. á Selfossi á 15 ára afmæli þann 20. apríl næstkomandi og þótti því við hæfi að taka hús á framkvæmdastjóranum, Finnboga Magnússyni, sem einnig er stærsti hluthafinn í fyrirtækinu. 
 
„Grunnurinn að stofnun Jötuns Véla var lagður 1. mars 1999 þegar fyrirtækið Búvélar var keypt. Áður höfðum við verið byrjaðir að vinna aðeins að innflutningi véla hjá fyrirtækinu Bílfoss en Bílfoss varð einn að eigendum Búvéla,“ segirFinnbogi.
 
„Að því kom líka Vélsmiðja KR sem var í þessu sama húsi við Austurveg 69 á Selfossi. Síðar þetta sama ár keypti Kaupfélag Árnesinga fyrirtækið Bújöfur af Þorgeiri og kemur með þá hugmynd að sameina þetta allt saman. Varð þá til fyrirtækið Bújöfur Búvélar. Þannig var það til ársins 2004 þegar Kaupfélagið lendir í töluvert miklum fjárhagsvanda og fer í nauðungarsamninga. Á þeim tímapunkti stofnum við Jötunn Vélar og kaupum Bújöfur Búvélar út úr þessum pakka. Inn í þetta rann líka hluti véladeildar IH sem okkur var þá boðinn til kaups. Var Jötunn Vélar stofnað 20. apríl 2004.“
 
Undir hatti eignarhaldsfélagsins Skógár
 
Á bak við starfsemi Jötuns og tveggja systurfélaga í dag er eignarhaldsfélag sem heitir Skógá þar sem hluthafar eru 23 talsins. Stærstu hluthafarnir með samtals um 70% eignarhluti eru Finnbogi Magnússon, Vélaverkstæði Þóris og Sel ehf. í Hofstaðaseli í Skagafirði. Tengdir aðilar og aðrir starfsmenn eiga síðan samtals um 30% í fyrirtækinu.
 
Nú er fyrirtækið með starfsemi á þrem stöðum á landinu, á Selfossi, þar sem höfuðstöðvarnar eru, við Sólvang 5 á Egilsstöðum og á Lóns­bakka á Akureyri. Auk þess er starfsemi systur­fyrirtækisins Vinnu­véla á Esju­melum norðan við Mosfellsbæ.  
 
Mjög lítil starfsmannavelta
 
„Starfsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt, en mjög lítið hefur verið um að fólk hafi hætt hér störfum ef menn hafa á annað borð fundið taktinn með okkur. Það eru því margir úr starfsmannahópnum búnir að vinna hér þessi fimmtán ár og unnu áður hjá Bújöfri Búvélum áður en Jötunn varð til. Starfsmannaveltan er því mjög lítil og má segja að í því liggi ein af okkar mestu verðmætum. Stöðugleiki í mannskap skiptir gríðarlega miklu máli því að í svona fyrirtæki býr mikil sérþekking á mörgum sviðum.“
 
Um 1.600 milljóna velta féll  niður í 700 milljónir í hruninu
 
Finnbogi segir að fyrirtækið hafi vaxið ört og á árunum fyrir efnahagshrunið 2008 hafi veltan verið komin upp í 1.600 milljónir króna. Í þeim skell sem hrunið olli með nær algerri stöðnun í sölu á nýjum tækjum féll veltan niður í 700 milljónir króna. 
 
Neituðu að gefast upp þótt við nær ókleifan múr væri að eiga
 
„Má segja að á einni nóttu hafi fótunum verið kippt undan okkur. Vorum við þá í raun hvattir til þess að láta fyrirtækið bara fara sína leið í þrot, enda virkuðu skuldir þess þá sem ókleifur múr að eiga við enda voru um 90% skuldanna í erlendri mynt. Það sem verra var að tekjur dugðu engan veginn til að halda starfseminni gangandi.  
 
Við ætluðum ekki að gefast upp og samstaðan í hópnum var mikil. Gíruðum við fyrirtækið niður og endurskoðuðum alla okkar uppbyggingu um leið og við leituðum nýrra leiða til af afla tekna.“ 
– Hvað með tækjabúnað sem þið áttuð þá á lager, tókst ykkur að afsetja hann? 
 
„Við afsettum hann bara smám saman, en þurftum samt ekki að senda nein ný tæki úr landi. Hins vegar fórum við í að selja úr landi gamla Benz vörubíla, dráttarvélar og önnur tæki og hjálpuðum þar af leiðandi okkar viðskiptavinum við að búa til pening og losa um eignir. Í þessu voru alls konar gömul tæki sem menn höfðu aflagt og ekki var mikil eftirsjá í og hefðu ekki getað selst hér innanlands.
 
Í hruninu settum við undir okkur hausinn og ákváðum að taka bara einn dag í einu og leita allra leiða til að halda starfseminni gangandi. Við skárum niður allan kostnað eins og við gátum og áttum í mjög góðu samstarfi við okkar lánardrottna á þessum tíma. Þeir treystu okkur og gáfu okkur slaka og þannig tókst okkur að vinna okkur í gegnum þessar verstu brekkur. Þess má geta að allir okkar keppinautar, nema Þór hf., skiptu um kennitölur í hruninu sem og stór hluti annarra innflutningsfyrirtækja í landinu. Vissulega hefði lífið verið einfaldara hefðum við valið þá leið að láta fyrirtækið rúlla yfir, en við tókum þá ákvörðun að berjast áfram og sjáum ekkert eftir því. Við erum enn að eiga við hluta þessara skulda og eigum kannski tvö til þrjú ár eftir til að klára það sem eftir er.“ 
 
Hafa aukið veltuna úr 700 milljónum 2008–2009 í 3.000 milljónir
 
„Frá hruni höfum við náð að auka veltuna úr 700 milljónum og er hún nú komin upp í rúma þrjá milljarða króna. Við erum því tvöfalt stærri en við vorum fyrir hrun og fjórfalt stærri en fyrstu tvö árin eftir hrun. Þá erum við með um 45% markaðshlutdeild í sölu dráttarvéla og vélbúnaðar til bænda. 
 
Starfsemin byggist á því að við lítum á okkur sem alhliða þjónustufyrirtæki við bændur og er okkur í raun  ekkert óviðkomandi varðandi það sem bændur eru að fikta við. Við höfum reynt að vera leiðandi á mörgum sviðum og vorum það t.d. í heilfóðurkerfunum þar sem við vorum brautryðjendur. Við höfum líka verið leiðandi varðandi nýjar lausnir í jarðvinnslu og ýmislegt fleira. 
 
Við höfum reynt að hjálpa mönnum inn á nýjar brautir og þegar slíkt hefur tekist hefur það um leið opnað ný viðskiptatækifæri. Við höfum líka prófað ýmislegt sem ekki hefur gengið upp. 
 
Við höfum litið svolítið á það sem okkar hlutverk sem leiðandi fyrirtækis að vera fyrstir á markaðinn með nýjungar. Þá að gera prufur með ýmsa hluti á okkar kostnað sem hugsanlega gætu nýst okkar viðskiptavinum. Stundum eru það hugmyndir frá okkur sjálfum og stundum frá okkar viðskipatvinum sem okkur líst vel á og reynum þá að taka þátt í að framkvæma.“
 
Byggðu um 20 hús fyrir hrun í  gegnum Steel Building Ísland
 
– Þið hafi líka fengist við að útvega efni og reisa fjós og aðrar byggingar, hvað liggur þar að baki?
„Við byggðum um 20 hús á árunum fyrir hrun. Það var í gegnum systurfélag okkar sem hét Steel Building Ísland. Við afhentum í kringum 20 stálgrindahús af ýmsu tagi, fjós, fjárhús og reiðhallir. Vorum við þar í samvinnu við félag í Ameríku sem hét Steel Building og þaðan var nafnið komið. Þegar hrunið kom þurrkaðist þessi markaður upp og settum við þá starfsemi á „hold“. 
 
Steel Building Ísland heitir nú Jötunn byggingar
 
„Fyrir tveimur árum byrjuðum við að fikta við þetta aftur og þá á gömlu kennitölu Steel Building Ísland sem nú heitir Jötunn byggingar og er í 100% eigu Skógár. Þar störfum við nú með evrópskum framleiðendum þar sem verðið á húsum þaðan er hagkvæmara í dag en frá N-Ameríku. 
 
Á síðasta ári byggðum við fjós á Hraunkoti við Klaustur. Við byggðum einnig varphænuhúsin á Hranastöðum í Eyjafirði og nautafjósið hjá Bessa Frey Vésteinssyni og Sólu [Sólrúnu Ingvadóttur] í Hofsstaðaseli í Skagafirði er frá okkur. Nú erum við að vinna að undirbúningi á nýjum verkefnum sem sum eru frágengin og önnur í lokaferli.“
 
Bjóða smáhýsi og einbýlishús úr forsmíðuðum einingum
 
„Annar angi í þessari bygginga­starfsemi eru smáhýsi sem við höfum verið að bjóða til sölu. Þetta eru 20–80 fermetra hús og allt upp í heil íbúðarhús sem byggja öll á forsmíðuðum einingum úr timbri sem smíðaðar eru í Litháen. Smáhýsin koma fullbúin með húsgögnum og öllum búnaði.“
 
Finnbogi segir að þessi einingahús séu að öllu leyti smíðuð samkvæmt íslenskum kröfum og íslenskum stöðlum, hvað varðar einangrun og aðra þætti. Þá sé timbrið gæðavottað og aðeins með 12% rakainnihald þegar húsin eru smíðuð. Í þessum húsum er efnið því oft vandaðra en menn geta keypt hérlendis við húsasmíði. Í húsunum er vínylparket á gólfunum sem er með dýrari gólfefnum sem völ er á. 
 
„Þarna erum við mikið að horfa til þarfa ferðaþjónustunnar og hefðbundinna sumarhúsa. Þessar einingar eru ódýrar í samanburði við að byggja hús frá grunni á staðnum. Þarna erum við líka að bjóða upp á lítil hús sem eru stækkanleg upp í kannski 80 fermetra. Þau geta einnig  hentað vel þar sem kynslóðaskipti eru að fara fram í búskap. Þá geta menn sett niður svona hús á lausar undirstöður og þegar ekki er lengur þörf fyrir húsið er hægt að selja það og flytja í burtu.“ 
 
Segir Finnbogi að smá bakslag í þjóðfélaginu um þessar mundir hafi eflaust tímabundin áhrif á sölu smáhýsa, en framtíðarhorfurnar séu góðar og mikið af fyrirspurnum fyrir sumarið. 
 
Vildu taka þátt í að leysa húsnæðisvanda í Reykjavík
 
Finnbogi segir að Jötunn byggingar hafi ætlað að taka þátt í útboði í Reykjavík þar sem hugmyndin var að leysa húsnæðisvanda þeirra sem minna máttu sín á ódýran hátt. Þar var horft til byggingar á 25 fermetra smáhýsum.  Umhverfis- og skipu­lags­svið Reykjavíkurborgar óskaði eftir tilboðum á síðastliðnu hausti í slík hús fyrir velferðarsvið borgarinnar og voru útboðsgögn birt á vefnum 31. október 2018. Skila átti tilboðum 3. desember. Jötunn byggingar sendu inn tilboð ásamt 8 öðrum fyrirtækjum. Bauð Jötunn þar upp á fullbúin hús samkvæmt íslenskum stöðlum og með öllum búnaði á verði í kringum 7–8 milljónir króna með virðisaukaskatti. Lítið hefur síðan heyrst af málinu, en Finnbogi segir að borgin hafi dregið útboðið til baka með þeirri skýringu að borgin hygðist koma með eigin teikningar að slíkum húsum og efna til nýs útboðs. 
 
Byggja 5 íbúða raðhús á Hellu
 
 „Í dag erum við að byggja fyrir eigin reikning fimm íbúða raðhús á Hellu úr forsmíðuðum einingum. Þetta er tilraunaverkefni hjá okkur og munum við síðan selja þessi hús á almennum markaði. Ef þetta gengur vel, þá munum við skoða að byggja vönduð hús víðar á svæðum sem kalla á hagkvæmar lausnir við byggingu íbúðarhúsnæðis. Þarna er allur kostnaður þekktur svo framúrkeyrsla á ekki að eiga sér stað. 
Fólk getur líka komið með teikningar til okkar af einbýlishúsi, raðhúsi eða hverju sem er og við gerum þá tilboð í það,“ segir Finnbogi.
 
Fyrirtækið Vinnuvélar þjónustar sveitarfélög, golfvelli og verktaka
   
„Þriðja fyrirtækið í Jötuns-samsteypunni  heitir Vinnuvélar og er staðsett á Esjumelum við Vesturlandsveg. Þar erum við að þjónusta sveitarfélög, golfvelli og vinnuvélaverktaka. Helstu vinnuvélaumboð þess fyrirtækis eru Bobcat og Doosan. Þetta fyrirtæki er sjálfstæð eining í eigu sömu aðila og Jötunn. Öll þessi félög deila samt bókhaldi og fyrir þau er einungis ein sameiginleg skrifstofa. Í því felst töluverð hagkvæmni. Allur innflutningur, bókhald, fjármálastjórn og annað fer fram í gegnum okkar skrifstofu hér á Selfossi.“
 
Með á sjötta tug starfsmanna á annatímum
 
Hjá Jötni Vélum starfa um 35 til 40 manns, misjafnt eftir árstíðum. Í Jötunn byggingum eru starfsmennirnir frá tveimur upp í  kannski tíu eða tólf, allt eftir verkefnum. Hjá Vinnuvélum á Esjumelum starfa svo  fimm manns. Heildar starfsmannafjöldinn undir hatti Jötunsfyrirtækja getur því verið vel á sjötta tuginn þegar mest er um að vera. 
 
Bjartsýni að aukist á ný eftir óvissu undanfarinna mánaða
 
Finnbogi segir að fyrirtækið gangi vel í dag, þrátt fyrir að hafa þurft að glíma við skuldabagga hrunáranna, og hagnaður hafi verið af rekstri öll árin frá stofnun nema 2008 og 2009. Hann segir óvissuna undanfarna mánuði auðvitað hafa verið óþægilega og fólk hafi greinilega verið að bíða með ákvarðanir varðandi stærri fjárfestingar þangað til óvissu um kjarasamninga og WOW væri eytt. Nú séu komnar skýrar línur í þessi mál og ljóst sé að niðurstaða kjarasamninga sé mun hagfelldari fyrir þjóðfélagið en margir óttuðust og höggið af falli WOW væri líka mun minna en fólk hefði óttast. Eftir kvíða undanfarinna mánaða megi strax greina aukna bjartsýni í þjóðfélaginu.
 
„Þó hægt sé að finna ýmsar ógnanir fyrir þjóðina, þá er ansi margt sem vinnu með okkur. Við erum að sjá að þetta er ekki að fara eins illa og sumir óttuðust og við erum að fá öryggistilfinninguna aftur og frumkvöðlakraftinn sem er það sem gerir Íslendinga einstaka og hefur gert okkur kleift að vinna okkur hratt út úr stöðum sem stundum líta hálf vonlausar út, samanber tímabilið fyrst eftir hrun.“ 
 
Gríðarlegir möguleikar í landbúnaði
 
„Það eru gríðarlegir möguleikar í landbúnaði. Það góða við þessa erfiðu umræðu um hráakjötsmálið er að við erum að þétta raðirnar í landbúnaðinum og förum kannski að gera hlutina enn betur. Nú erum við meðal annars að fara að skerpa á merkingum matvæla og gerum meiri kröfur um að allt sé þar uppi á borðinu. Menn geri þar hreint fyrir sínum dyrum og dragi jafnvel úr innflutningi á kjöti til að markaðssetja betur og með skýrari hætti okkar eigin framleiðslu. Því íslenskir neytendur vilja almennt íslensk matvæli. 
Hráakjötsmálið er því að skila okkur meiri meðvitund um hvar við þurfum að bæta úr. 
 
Þarna sannast enn og aftur að það eru tækifæri í flestum aðstæðum sama hversu illa hlutirnir líta út. Jafnvel þó oft geti verið erfitt að finna þau tækifæri og breyta þeim í nýjan og spennandi veruleika.“
Ef okkur tekst öllum að stefna í sömu átt, þá held ég að það sé mjög bjart fram undan í íslenskum landbúnaði,“ segir Finnbogi Magnússon. 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...