Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Í einu erindanna á fagþinginu kom fram að alltof margir danskir bændur fá ekki hæsta mögulega afurðastöðvaverð fyrir mjólkina vegna einhverra mjólkurgæðamistaka.
Í einu erindanna á fagþinginu kom fram að alltof margir danskir bændur fá ekki hæsta mögulega afurðastöðvaverð fyrir mjólkina vegna einhverra mjólkurgæðamistaka.
Fréttir 17. apríl 2020

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2020 – Fyrsti hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson snorri.sigurdsson@outlook.com

Hið árlega og þekkta danska fagþing nautgriparæktarinnar „Kvægkongres“ var haldið á dögunum og venju samkvæmt voru þar flutt mörg áhugaverð og framsækin erindi og þó svo að mörg þeirra lúti sér í lagi að danskri nautgriparækt eru alltaf margir fyrirlestrar sem eiga ekki síður erindi við alla þá sem stunda nautgriparækt í Evrópu.

Að þessu sinni voru erindin alls 68 talsins í tíu ólíkum málstofum. Hér verður gerð grein fyrir nokkrum af þeim fróðlegu erindum sem flutt voru í málstofunum sem fjölluðu um bústjórn og mjaltir og mjólkurgæði.

1. Bústjórn

Í þessari málstofu voru haldin átta ólík erindi og meðal margra góðra flutti Vibeke Fladkjær Nielsen, en hún er ráðgjafi hjá SEGES í bústjórn, afbragðs erindi um það hvernig bændur geta bætt sig sem stjórnendur á búum og átti það fyrst og fremst við um bændur með starfsfólk í vinnu. Fram kom að margir bændur eiga oft erfitt með að skipta úr því að sinna flestum verkum sjálfir og yfir í það að fela öðrum verkin þrátt fyrir að hafa ráðið starfsmann eða starfsmenn að búum sínum. Oft kvarti starfsfólk undan því að því sé í raun ofstjórnað og kallar það á margs konar vandamál. Þá eigi sumir bændur erfitt með að hlusta á tillögur frá sínu starfsfólki varðandi atriði sem etv. mættu betur fara og þá er oft ansi djúpt á hrósi fyrir vel unnin störf.

Vibeke sagði að lausnin á því sem hér er kallað ofstjórnun fælist í því að þvinga sig til að horfa yfir búskapinn úr fjarlægð líkt og að horfa yfir hann úr þyrlu. Skoða þannig hvort markmiðin með búskapnum væru rétt, hvort uppbygging vinnuskipulagsins væri til þess fallið að ná því besta út úr mannskapnum og hvort samvinnan og samstarfið á búinu væri eins og best verði á kosið.

Mælanleg markmið

Þá gat hún þess að hvert bú ætti að setja sér skýr og mælanleg markmið svo allir, jafnt eigendur sem starfsmenn, geti fylgst með hvernig gangi og hvort búskapurinn sé á réttri leið. Þessi mælanlegu markmið geta verið af ýmsum toga og hér er ekki átt við hin algengu viðmið eins og meðalnyt, hlutfall af seldri mjólk í afurðastöð eða flokkun falla heldur mun ítarlegri markmið eins og t.d. fjölda lifandi fæddra kálfa, hlutfall júgurbólgu-tilfella, fjölda sæðinga á bak við hvert staðfest fang, fóðurgæði og fleira slíkt mætti tína til. Allt eru þetta mælanleg markmið sem hægt er að taka saman tölfræði um reglulega og amk. mánaðarlega.

Vinnuskipulag

Hún ræddi einnig vinnuskipulagið á búunum en bú með nautgripi henta afar vel til uppsetningar á föstu vinnuskipulagi enda lúta flest verk að reglubundnum þáttum. Með því að setja upp skýrt vinnuskipulag, sem er reyndar töluverð vinna í fyrstu, verða verkin bæði léttari og skilvirkari. Stærri búin geta svo skipt upp ákveðnum föstum verkþáttum eftir vikudögum eins og t.d. ef dýralæknir kemur í forvarnarvitjun reglulega, sem er algeng þjónusta í Danmörku eða t.d. ef fangskoðanir eru gerðar reglulega.

Skýrar reglur

Vibeke greindi einnig frá því að bú sem koma sér upp skýrum samskipta- og umgengnisreglum virðast ná betri árangri. Þetta á t.d. við um hvað má gera í vinnutímanum og má hér nefna sem dæmi um hvort fara megi á netið í vinnunni, hvort megi reykja á vinnustaðnum o.s.frv. en einnig varðandi það hvernig fólk talar hvað við annað. Þó það virki í fyrstu frekar þunglamalegt að búa til starfsreglur sem taka á alls konar smáatriðum þá sagði hún þetta auðvelda mörgum bændum að stjórna á búum sínum sem og starfsfólkinu að sinna vinnunni sinni.

Vinnuvernd

Annað afar gott erindi í þessari málstofu sneri að öryggi á búum en í Danmörku verða árlega mörg alvarleg og minna alvarleg slys. Þannig urðu t.d. 40 banaslys í danska landbúnaðinum á árabilinu 2012-2018 og 1.826 alvarleg vinnuslys, en skilgreining á alvarlegu vinnuslysi er að viðkomandi er þá frá vinnu í meira en þrjár vikur. Þetta erindi var flutt af Christina Edstrand, sem er vinnuverndarráðgjafi, og Kurt S. Mortensen, sem er tækni- og orkuráðunautur.

4% starfa í landbúnaði

Landbúnaður er stór atvinnugrein í Danmörku og kom fram í erindi Christinu að 4% starfsbærra landsmanna ynnu við landbúnað sem er um fjórðungur þess hlutfalls sem starfar í byggingariðnaði. Þrátt fyrir það mætti rekja þriðjung allra banaslysa til starfsemi í landbúnaði og er það langhæsta hlutfall allra atvinnugreina í Danmörku. Flest bana-slysin verða meðal eldra fólks og helmingur banaslysanna urðu meðal fólks sem var eldra en 60 ára sagði Christina.

Öryggisáætlun

Hún sagði að til að fyrirbyggja bæði banaslysin og hin alvarlegu slys þyrfti vitundarvakningu meðal eldra fólks á búum landsins og með því að gera öryggisáætlun fyrir búin mætti koma auga á og þar með í veg fyrir mörg slys með því að fara yfir helstu þætti sem vitað er að tengjast slysum í landbúnaði. Þetta væri í raun afar einfalt þrískipt ferli:

A. Fyrst þarf að spyrja sig að því
hvað væri það versta sem gæti
hugsanlega gerst

B. Næst þarf að fara yfir það hvað
þurfi til, svo hið mögulega slys verði ekki

C. Síðan setja upp verkferla og
vinnuskipulag sem tryggir að
hættan sé lágmörkuð

Allir sem starfa í landbúnaði þar sem hætta er á myndun hættulegra gastegunda ættu að vera með þar til gerða gasmæla.

Gasmælar

Notkun á mælum, sem vara við ef brennisteinsvetni sleppur út við hræringu á mykju eða við útmokstur á taði, var aðal umfjöllunarefni Kurt en frá árinu 2012-2017 létust 8 í Danmörku vegna slíkra slysa og fjölmargir til viðbótar höfðu lent í alvarlegum óhöppum vegna þessa hættulega gass. Hann sagði að bændur þurfi að horfa kerfislægt á þessa slysahættu og geti lært mikið af sjávarútveginum en þar hafa oft orðið sambærileg alvarleg slys á fólki vegna gasmengunar í tönkum. Eftir að vinnureglum var breytt og gerð var krafa um notkun á gasmælum hefur náðst umtalsverður árangur í baráttunni gegn þessum slysum í sjávarútvegi. Hann mælti því með því að allir bændur myndu fjárfesta í gasmælum og þá þyrfti að staðsetja á þeim stöðum þar sem meiri hætta er talin vera á því að gas gæti sloppið út. Þá ættu allir að vera með lausa gasmæla á sér þegar verið er að hræra, en slíkir mælar hafa margsannað notagildi sitt.

Bestu störf í heimi!

Bændur í Danmörku hafa lengi búið við það að eiga í erfiðleikum með að finna hæft starfsfólk og það þrátt fyrir að greiða fín laun. Þannig fær t.d. bústjóri á búi í dag um 700 þúsund íslenskar krónur í laun og starfsfólk sem vinnur við hefðbundin fjósastörf fimm daga vikunnar í 40 stunda vinnuviku fá um 500 þúsund íslenskar krónur í laun.

Þrátt fyrir að launin ættu að laða að ungt fólk til starfa í landbúnaði hefur það gengið brösuglega og því setti ráðgjafarfyrirtækið SEGES af stað sérstaka úttekt á því hvernig væri hægt að gera störf í landbúnaði meira aðlaðandi, sérstaklega fyrir ungt fólk.

Þær Kirstine Simoni Faurholt og Dorthe Poulsgård Frandsen, sem báðar starfa hjá SEGES, fóru sérstaklega yfir þetta afar áhugaverða verkefni en það byggði á viðtölum við 50 aðila og úrvinnslu svargagnanna. Þessir 50 aðilar komu úr nautgripa- og svínarækt auk garðyrkju og voru starfsmenn, eigendur og búfræðinemar í þessum hópi. Niður-stöðurnar voru einkar áhugaverðar en þær stöllur drógu niðurstöðurnar saman í 17 aðskilin atriði:

  • Of fá bú leggja áherslu á að byggja upp góða ímynd en það skiptir ungt fólk oft máli að hinn verðandi vinnustaður sé aðlaðandi.
  • Oft eru atvinnuauglýsingar einungis birtar í bændablöðum og miðlum sem sérhæfa sig í landbúnaði og ná þannig ekki til allra.
  • Atvinnuauglýsingarnar eru oft illa útbúnar og snúa oft að því til hvers er ætlast af viðkomandi starfsmanni en ekki hvað viðkomandi vinnustaður geti veitt hinum komandi starfsmanni.
  • Þegar fólk fer í viðtöl hjá bændunum er of oft frekar óskýrt til hvers er ætlast af hinum verðandi starfsmanni.
  • Of oft virðast bændur vilja ráða starfsfólk til að leysa ákveðinn vanda en eru ekki beint að horfa fram á veginn með ráðningu í huga sem hluta af framtíðarsýn.
  • Þegar nýtt fólk hefur störf er oft illa staðið að kennslu og verkþjálfun.
  • Margir höfðu orð á því að það vanti hjá mörgum bændum að hlúa að vellíðan nýrra starfsmanna og fylgjast með því að þeim líði vel í vinnunni.
  • Kynningu á búinu og starfsemi búsins, helstu kennitölum og væntingum eigenda er oft ábótavant.
  • Sumum finnst störfin ekki bjóða upp á að starfsmaðurinn þroskist í starfi og geti þannig orðið hæfari til verka í framtíðinni.
  • Of fá bú leggja áherslu á endurmenntun starfsmanna eða faglega kennslu.
  • Margir stjórnendur á búum láta starfsfólk fá ábyrgð en taka samt ábyrgðina sjálfir og framkvæma jafnvel verkið ef þeir telja það ekki nógu vel eða rétt gert. Þetta dragi hratt úr áhuga starfsfólksins og dregur niður starfsviljann.
  • 12. Svarendur bentu á að eitt af vandamálunum við landbúnaðinn eru hinir breytilegu vinnutímar og helgarvinnan sem fer oft ekki saman við hefðbundið fjölskyldulíf starfsf­ólks.
  • Fram kom í svörum einnig að stundum létu bændur ungt fólk fá of mikla ábyrgð miðað við getu.
  • Í Danmörku er nokkuð algengt að ungt fólk taki ekki ökupróf og fyrir vikið er vinna í landbúnaði síður áhugaverð vegna landlegu búanna. Þá upplifa erlendir starfsmenn oft félagslega einangrun.
  • Margt af hinu unga fólki sem vill vinna við landbúnað sér oft ekki framtíð í landbúnaði þar sem erfitt er að fjárfesta í búskap og verða eigin herra.
  • Þegar fólk hættir störfum á búum fer starfslokaviðtal sjaldan fram. Þar með missa bændurnir af mikilvægu tækifæri til að fá innsýn inn í búskapinn og verða mögulega af ábendingum um það sem betur má fara.
  • Bændur leggja of sjaldan áherslu á að kveðja almennilega starfsfólk sem er að hætta eins og annars er þekkt í flestum fyrirtækjarekstri.

2. Mjaltir og mjólkurgæði

Í þessari málstofu voru haldin fimm erindi og hér verður þó aðeins gripið niður í eitt þeirra. Það erindi flutti Helge Kromann, landsráðunautur hjá SEGES, en hann hafði tekið saman hve miklum verðmætum danskir kúabændur höfðu sóað á árinu 2019 vegna slakra mjólkurgæða sumra þeirra. Danskir kúabændur fá uppbót á afurðastöðvaverðið séu mjólkurgæðin góð og því verri sem þau eru, því lægra verður afurðastöðvaverðið. Þannig fá bændur hæst verð fyrir mjólk með lægri frumutölu en 200 þúsund, en sé frumutalan á bilinu 201-300 þúsund er dregið af verðinu allt að 2% eftir því hve léleg gæðin eru. Ef frumutalan er á bilinu 301-400 þúsund missa kúabúin 5% í viðbót af sínu afurðastöðvaverði og ef hún hoppar yfir 400 þúsund nemur frádrátturinn 10%. Sambærilegar reglur eru um líftölu en þeir sem eru með líftölu á bilinu 0-60 þúsund fá hæsta verðið og svo lækkar það koll af kolli eftir því sem mjólkurgæðin versna.

20.000 á árskúna!

Fram kom að alltof mörg kúabú landsins fara á mis við þessar gæðaálagsgreiðslur og eru tölurnar sláandi. Útreikningar SEGES sýna þannig að meðal þeirra búa sem eru með 50% bestu mjólkurgæðin megi þó að jafnaði bæta hag þeirra allra um 2.000 ÍKR á árskúna, með því einu að bæta mjólkurgæðin! Útreikningarnir sýndu einnig að það eru þó mörg bú sem geta bætt hag sinn mun betur og meðal þess hluta búa sem tapaði mestu vegna mjólkurgæða þá sýndu útreikningar að 25% búa landsins gætu bætt hag sinn um 6 þúsund ÍKR á árskúna ef mjólkurgæðin væru betri.

Síðasti fjórðungur kúabúanna er þó sá hópur sem tapar langmestu og sýna útreikningarnir að þessi bú gætu þó bætt sig um 20 þúsund á árskúna að meðaltali ef þau taka á mjólkurgæðamálunum! Fram kom að vegna þess hve mikil verðmæti fari í súginn hjá bændum vegna mjólkurgæða hefur SEGES nú ákveðið að koma á fót nýju ráðgjafartilboði sem snúi að því að bæta mjólkurgæðin enn frekar. Í þessu kerfi munu bændur geta farið í áskrift að ráðgjöf og með ábyrgð, þ.e. tryggingu fyrir því að ná árangri.

Í næsta Bændablaði verður haldið áfram umfjöllun um þetta áhuga­verða fagþing en þess má geta að hægt er að skoða og hlaða niður öllum erindum af fagþinginu með því að fara inn á upplýsingasíðu danska landbúnaðarins www.landbrugsinfo.dk. Þar þarf svo að velja „Kvæg“ (þ.e. nautgriparækt) og þar undir „Kvægkongressen“ og þá opnast heimasíða fagþingsins þar sem hægt er að skoða öll erindin með því að smella á „Præsentationer fra kongressen 2020.”

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...