Fimm tegundir hafa snúið aftur
Dýr sem talin hafa verið útdauð finnast öðru hverju. Sum dýranna hafa verið talin útdauð í milljónir ára. Meðal þessara dýra eru hyrndur froskur og tegund villihunda.
Fyrr í þessum mánuði fann líffræðingur sem var að störfum í regnskógi í Suður-Ameríku sérkennilegan hyrndan frosk sem kominn var á skrá yfir útdauð dýr vegna skógareyðingar.
Á síðasta ári römbuðu menn á skjaldbökutegund sem ekki hefur sést í rúma öld. Um var að ræða eitt kvendýr sem flutt hefur verið á afdrep fyrir skjaldbökur í von um að það finnist fyrir hana maki.
Árið 1938 veiddist fiskur út af strönd Suður-Afríku sem talið var að hefði dáið fyrir 65 milljónum ára. Við nánari leit fundust fleiri slíkir fiskar, sem ná allt að tveggja metra lengd, á svipuðum slóðum.
Náttúruverndarsinnar óttast að tegundinni sé veruleg hætta búin vegna væntanlegrar olíuleitar út af ströndum S-Afríku.
Fyrir tveimur árum fannst hópur af villtum hundum í Indónesíu en tegundin hefur verið talin útdauð í meira en hálfa öld. Talið er að hundarnir séu síðust leifa af frumstæðustu tegund hunda sem til er í heiminum.
Skömmu eftir síðustu aldamót fannst eðlutegund, eða skinka, sem lengi hafði verið talin útdauð. Skinkan fannst ekki á Selfossi eins og margir gætu haldið heldur í Nýju Kaledóníu. Talsvert hefur fundist af einstaklingum af tegundinni síðan þá