Hinrik á Grillinu fékk silfur á Norðurlandamótinu Nordic Chef Junior
Matreiðslumaðurinn Hinrik Örn Lárusson, sem starfar á Grillinu á Hótel Sögu, vann silfurverðlaun í Norðurlandamótinu Nordic Junior Chefs sem fór fram í Herning í Danmörku síðastliðinn þriðjudag.
Samhliða þeirri keppni var keppnin Nordic Chef Of The Year og framreiðslukeppnin Nordic Waiter Of The Year. Hafstein Ólafsson frá Sumac Grill + Drinks, sem bar sigur úr býtum í keppninni Kokkur ársins 2017, keppti í matreiðslukeppninni og í framreiðslunni keppti Lúðvík Kristinsson frá Grillinu. Þeir komust ekki á verðlaunapall.
Mótshald samhliða Foodexpo
Sænski keppandinn bar sigur úr býtum í Nordic Chef Junior og sá finnsku varð í þriðja sæti.
Klúbbur matreiðslumeistara sendi þessa þrjá keppendur til leiks og rekur klúbburinn afreksstarf í matreiðslu og keppnisstarf ungra matreiðslumanna í Kokkalandsliðinu og keppnina Kokkur ársins ásamt þátttöku í alþjólegum keppnum eins og hér um ræðir. Skipulag keppninnar er í höndum Norðurlandasamtaka matreiðslumeistara og fer keppnin fram í Herning samhliða matvælasýningunni Foodexpo.
Hinrik Örn Lárusson á Grillinu, silfurverðlaunahafi í Nordic Junior Chefs.
„Mystery basket“-fyrirkomulag
Í tilkynningu frá Klúbbi matreiðslumeistara kemur fram að fyrirkomulag matreiðslukeppninnar hafi verið svokallað „„mystery basket“-snið þar sem keppendur fá að sjá skylduhráefnin degi fyrir keppni og skila síðan af sér þriggja rétta matseðli fyrir 12 gesti á keppnisdegi.
Framreiðslumaðurinn vinnur með matreiðslumönnum við þjónustu á keppnismatnum og þarf einnig í keppninni að sýna fagleg vinnubrögð í sínum aðgerðum við pörun á vínum við réttina og að útbúa kokteila.
Þjálfari Hafsteins og dómari í matreiðsluhluta keppninnar var Þráinn Freyr Vigfússon frá Sumac Grill + Drinks. Þjálfari Hinriks var Sigurður Laufdal yfirmatreiðslumaður á Grillinu.
Thelma Björk Hlynsdóttir, frá Grillinu, þjálfaði Lúðvík og dæmd jafnframt í framreiðslukeppninni.