Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 9. júní 2020
Hugmyndin að gera ESB fremst í heimi í sjálfbærum landbúnaði
Höfundur: ehg-landbruk.noMeld
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram tillögur að nýrri stefnu, European Green Deal, um hollari og sjálfbærari matvæli innan sambandsins og stefna með því að landbúnaðarbyltingu. Hér eru lagðar línur með að sambandið leggi sitt af mörkum til að uppfylla Parísar-samninginn um loftslagsmál, sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og alþjóðleg markmið um líffræðilega fjölbreytni.
Hin nýja stefna sambandsins og liður innan hennar, sem kallast Farm to Fork, er mikilvæg til að ná þessum markmiðum. Stefnan felur í sér allt matvælakerfið frá jörðu til hafs og á matarborðið á evrópskum heimilum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill að matvælaframleiðsla í sambandinu setji staðla fyrir alþjóðleg sjálfbær matvæli. Drifkraftar þeirra markmiða sem eru leiðarstef í stefnunni eru án efa frekari auðlegð og störf. Framkvæmdastjórnin telur uppbyggingu á hagkerfinu eftir heimsfaraldurinn liggja í grænni endurskipulagningu og að styrkja eigi matvælaiðnaðinn með því að verða best í heiminum í sjálfbærni.
Betrumbættur landbúnaður
Íslenskur landbúnaður er sterkur á mörgum sviðum þegar kemur að sjálfbærni, eins og gott dýraheilbrigði og góð dýravelferð, lítil notkun á sýklalyfjum og skordýraeitri og lágt kolefnisfótspor. Þessa þætti á að leggja enn frekari áherslu á í Farm to Fork-lið stefnunnar.
Um 40% af fjárhagsáætlun landbúnaðar verður eyrnamerkt loftslagsmálefnum í stefnunni. Einnig verður stefnt að því að minnka notkun á kemískum varnarefnum um 50% og kemískum áburði um 20% innan ársins 2030. Notkun á sýklalyfjum í húsdýraframleiðslu á að minnka um 50% og yfirvöld vilja endurskoða regluverk um dýravelferð. Framkvæmdastjórnin mælir með að húsdýrahald innan sambandsins verði kynnt sem sjálfbærast og loftslagsvænast. Árlega notar Evrópusambandið um þrjátíu milljarða króna íslenskar til að auglýsa og auka sölu á eigin landbúnaðarvörum.
Ný áætlun varðandi merkingar á matvælum getur orðið snúin fyrir kjötframleiðendur en stefnan inniheldur ráðstafanir sem eiga að leggja það af mörkum að neytendur velji holl matvæli sem framleidd eru á sjálfbæran hátt. Framkvæmdastjórnin mun koma með uppástungu að lögboðinni næringarmerkingu ásamt því að fá inn möguleika á sjálfbærnimerkingum sem innihalda meðal annars kolefnisfótspor. Í stefnunni eru gjöld einnig nefnd sem mikilvægar aðgerðir til að örva sjálfbæra framleiðslu og hollt mataræði fólks.
Líffræðileg fjölbreytni og lögvernduð svæði
Á sama tíma og liðurinn From Farm to Fork var kynntur birti framkvæmdastjórnin einnig stefnu sína í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. Þar kemur fram að heildarstærð lands þar sem lífræn ræktun er stunduð eigi að auka um 25% fram til ársins 2030. Stungið er upp á gríðarlega mikilli plöntun trjáa, eða þriggja milljarða nýrra trjáa, um leið og styrkja á verndun náttúrusvæða. Stefnt er á að 30% af öllum náttúrusvæðum verði lögvernduð og að 10% muni njóta strangrar lögverndunar gegn inngripi mannfólks.
Mörg samtök bænda og smáframleiðenda eru gagnrýnin á stefnuna
Mörg bændasamtök og félög smáframleiðenda innan sambandsins eru gagnrýnin á þætti í stefnunni og óttast að metnaður hennar og strangar reglur muni auka kostnað verulega sem muni hafa samkeppnisókosti við erlend matvæli í för með sér. Í Farm to Fork er sérstaklega nefnt að matvæli sem koma inn í sambandið erlendis frá verði að uppfylla skilyrði og reglur Evrópusambandsins. Sérstakar tillögur og ráðstafanir í matvælastefnunni og stefnunni um líffræðilegan fjölbreytileika verða meðhöndlaðar af meðlimalöndum Evrópusambandsins og Evrópuþinginu, svo það er alls óljóst enn hvort Framkvæmdastjórnin nái öllum sínum markmiðum í gegn.