Humarleiðangur Hafró
Hafrannsóknastofnun hélt í rannsóknarleiðangur dagana 6. til 15. júní síðastliðinn.
Þar var stofnstærð humars metin út frá humarholufjölda með hjálp neðansjávarmyndavéla.
Myndað var á 89 stöðum, allt vestan frá Jökuldýpi á Faxaflóa austur til Lóndýpis. Niðurstöður leiðangursins verða kynntar í haust þegar búið er að fara yfir allt myndefnið, en fyrsta yfirferð bendir til aukningar frá síðasta mati. Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.
Togað var á 17 stöðum til að safna upplýsingum um stærðarsamsetningu og kynþroska. Á flestum stöðum veiddist lítið af humri og voru þeir almennt stórir. Þekkt er þegar veiði er dræm að einkum veiðist stór dýr. Enn fremur voru tekin háfsýni á 26 stöðum til að fá upplýsingar um magn humarlirfa og samsetningu dýrasvifs á svæðinu. Leiðangurinn fór fram um borð í Bjarna Sæmundssyni HF 30, rannsóknarskipi Hafrannsóknastofnunar.