Hver er framtíð landbúnaðar á Íslandi?
Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga í samstarfi við KPMG heldur vinnufundi á næstu vikum vegna sviðsmyndavinnu um framtíð landbúnaðar á Íslandi. Markmið fundanna er að laða fram skoðanir frá aðilum um land allt á þeim þáttum sem munu skipta landbúnaðinn mestu máli á komandi árum. Þar er horft til þátta eins og byggðaþróunar, sjálfbærni og tengsla bænda og neytenda. Fyrsti fundurinn verður haldinn á Hvanneyri þriðjudaginn 29. maí og er öllum opinn.
Sviðsmyndagreining er notuð sem tæki í stefnumótun en með henni er markmiðið að horfa fram á veginn og reyna að sjá fyrir þróun mála og aðvífandi breytingar.
Á fundunum munu gestir fá tækifæri til að velta upp mikilvægustu áhrifaþáttum sem geta haft áhrif á framtíð íslensks landbúnaðar.
Sviðsmyndavinna breikkar umræðuna
Haraldur Benediktsson, alþingismaður og annar tveggja formanna samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga, segir að hugmyndin um sviðsmyndagreiningu fyrir landbúnaðinn sé ekki ný af nálinni. Árið 2005 hafi Landbúnaðaráðuneytið unnið áþekkt verk í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila.
„Við afgreiðslu Alþingis á búvörusamningum 2016 vantaði verulega meiri umræðu um landbúnaðinn á meðal þeirra sem hann stunda - eða hafa á honum skoðun. Sviðsmyndavinnan er til að breikka umræðuna og hleypa sem flestum að og láta sig varða hvernig hann getur þróast. Þannig getur fólk haft áhrif á ákvarðanir sem teknar eru um landbúnaðinn,“ segir Haraldur sem vonast eftir góðri þátttöku.
Myndum breiðan stuðning við starf bænda
„Fundirnir eru öllum opnir, allir mega og geta tekið þátt. Við þurfum sem flestar skoðanir og sjónarhorn því aðeins þannig verður hægt að mynda breiðan stuðning við mikilvægt starf bændanna.“ Haraldur segir að framtíð landbúnaðarins eigi að ráðast í samtali á milli bænda og almennings. „Áhersla okkar í samráðhópunum er að opna umræðuna um landbúnað og taka úr þröngum sérhagsmunahópum sem búið að var koma þessu ferli í um tíma,“ segir Haraldur Benediktsson.
Fundirnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:
Hvanneyri, Ársalir
3. hæð í Ásgarði
Þriðjudaginn 29. maí kl. 13-15
Egilsstaðir, Icelandair Hótel Hérað
Miðvikudaginn 30. maí kl. 13-15
Laugarbakki
Hótel Laugarbakki
Mánudaginn 4. júní kl. 13-15
Akureyri, Hótel KEA
Þriðjudaginn 5. júní kl. 13-15
Reykjavík, Hótel Saga, 2. hæð
Miðvikudaginn 6. júní kl. 13-15
Hella, Árhús
Fimmtudaginn 7. júní kl. 13-15