Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Mestic tískusýning.
Mestic tískusýning.
Fréttir 27. júlí 2018

Í skyrtu úr skít

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Fólk sér ólík tækifæri í landbúnaði og landbúnaðarafurðum en hingað til hafa flestir sammælst um að mykjuna frá nautgripum sé best að nýta sem áburð á tún. Síðustu ár hafa svo fleiri og fleiri farið að nýta mykjuna öðruvísi svo sem til lífgasframleiðslu eða nýta úr henni trefjahlutann og nota sem undirburð eins og þegar er gert hér á landi.

Að nýta mykjuna sem hráefni til fataframleiðslu er líklega ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug að hægt sé að gera við kúadelluna, en það var einmitt það sem listamanninum og frumkvöðlinum Jalila Essaïdi datt í hug!

Hollenskur uppfinningamaður

Jalila þessi er frá Hollandi og í því litla landi eru gríðarlega margar kýr og samhliða miklum uppgangi hjá samvinnufélagi þarlendra kúabænda, Friesland Campina, hefur búskapur landsins vaxið en landið auðvitað ekki og hlutfall af mykju á hvern hektara því hækkað. Stjórnvöld bæði í Hollandi og Evrópusambandinu hafa í auknum mæli horft til mögulegrar útskolunar næringarefna frá ökrum aðildarlandanna og vegna aukins álags í Hollandi var sett þak á heimildir bænda til að setja fosfór á tún og akra. Flestir bændanna voru og eru ekki með nógu stór tún til að taka við allri mykjunni frá kúnum, eftir að takmörkun var sett á það magn sem mátti bera á túnin, og þurfa því að borga með hverjum rúmmetra sem er sendur frá búunum. Þetta losunargjald er í dag 18 evrur eða um 2.200 krónur á rúmmetrann af mykjunni.

Frumkvöðullinn Jalila Essaïdi efur tekist að búa nýta kúamykju sem hráefni í fataframleiðslu. Myndir / Ruud Balk

Það mál allt saman hefur verið mikið í fjölmiðlum og kallað „stóra skítamálið“ og vakið töluverða athygli langt út fyrir landbúnaðinn og það ýtti við Jalila og hún fór að kanna hvort hægt væri að nýta skítinn með öðrum hætti en hingað til.

Nýtir ómeltar trefjar

Mykjutrefjarnar, sem sumir kúabændur nýta sem lungnamjúkan undirburð undir kýrnar sínar, eru líkt og nafnið bendir til trefjaríki hluti mykjunnar og er sá hluti af gróffóðrinu sem nautgripirnir hafa ekki melt.

Það eru einmitt þessar trefjar sem vöktu áhuga Jalila en þær innihalda cellulósa sem hún hefur fundið leið til að nýta og umbreyta yfir í plastþræði sem svo er hægt að nota í föt! Með því að nýta umframmykjuna með þessum hætti er ekki einungis verið að leysa umhverfisvandamál mykjunnar en um leið komin leið til að draga úr notkun á öðrum náttúrulegum efnum svo sem trjám, bómull, líni og olíu við framleiðslu á náttúrulegum grunnefnum til fatagerðar.

Fengið mikla viðurkenningu

Jalila hefur nú unnið að þessu verkefni í nokkur ár og þegar hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til þróunar á landbúnaði og bættrar nýtingar og þó svo að þessi aðferð sé ekki almennt notuð nú til dags, má telja líklegt að svo verði í framtíðinni. Margir hafa miklar áhyggjur af því hvernig við göngum um jörðina og með því að nýta umframmykjuna svona, sem hingað til hefur líklega ekki verið vel nýtt í mörgum löndum, opnast nýjar leiðir til bættrar nýtingar.

Í samstarfi með bændum

Jalila stofnaði fyrirtæki í kringum þessa vinnsluaðferð og skýrði fyrirtækið sitt Mestic, sem hefur skemmtilega skírskotun til mykju enda er hollenska nafnið á mykju „Mest“. Mestic er starfrækt í suðurhluta Hollands og vinnur í samstarfi við hollensku samtökin ZLTO, sem eru samtök bænda í suðurhluta Hollands. Samtökin eru með í dag um 15 þúsund félagsmenn og hafa á stefnuskrá sinni að framleiða hollar landbúnaðarvörur með sjálfbærum hætti. Samtökin styðja við bakið á ótal verkefnum sem stuðla að aukinni sjálfbærni og því lá beint við að fara í samstarf með Mestic. Það er afar mikilvægt fyrir áframhaldandi þróun hollenskrar mjólkurframleiðslu að leysa vandamálið með mykjuna og standa vonir nú til þess að þessi lausn Mestic muni styrkja verulega þróunina í Hollandi.

100 þúsund tonn á ári

Nú er unnið að því að fullþróa vinnsluaðferðina og staðla gæðin á vinnsluefninu sem kemur út úr framleiðslunni og er unnið með 12 kúabúum í því ferli og mykjan unnin í fataþræði í tilraunastofu. Eins og allir kúabændur vita er mykja frá einu búi ekki eins og mykjan á næsta búi og fer það algjörlega eftir því hvaða gróffóður gripirnir fá, hvers konar undirburð bændurnir nota, vatnsmagn sem fer í mykjuna o.s.frv. Það er því ólíkt hráefnið sem er í boði og þarf að finna leiðir til að nýta sem best ólíka gæðaflokka mykjunnar. Þessi grunnvinnsla og þróunarvinna er vissulega kostnaðarsöm en nauðsynleg áður en lengra er haldið, en stefnt er að því að skala framleiðsluna upp í afkastagetu sem getur unnið úr 1.000 tonnum af mykju á ári. Það er þó einungis fyrsta skrefið hjá Mestic og ZLTO samtökunum þar sem þau stefna á verksmiðju sem getur unnið úr 100.000 tonnum á ári. Þó svo að það sé vissulega mikið magn þá er það í raun alls ekki mikið, miðað við það sem fellur til af mykju í Hollandi og hefur t.d. verið reiknað út að hægt væri að setja upp 10 verksmiðjur með 100.000 tonna framleiðslugetu í Noord-Brabant héraðinu sem er í syðsta hluti landsins.

Framtíðin?

Þó svo að framleiðslan á fötum úr mykjutrefjum sé afar takmörkuð sem stendur, þá er aðferðin og nýtingarhugmyndin afar áhugaverð og gæti vel verið sú leið sem fleiri geta hugsað sér að fara á komandi árum. Mikil og vaxandi eftirspurn eftir mjólkurvörum um allan heim kallar á aukna mjólkurframleiðslu og samhliða henni fellur mykjan til sem hluti framleiðslunnar. Að nýta hana sem best og án álags á náttúruna er auðvitað grundvallar skilyrði svo telja má líklegt að stjórnvöld, afurðastöðvar og bændur víða um heim horfi með eftirvæntingu á þetta frumkvöðlastarf í Hollandi.

- Byggt á: Made from manure: One entrepreneur‘s solution to dairy excrement. Progressive Dairyman (10) 2018.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...