Innflutningur á úkraínsku kjúklingakjöti
Hátt í 80 tonn af frosnu kjúklingakjöti voru flutt hingað til lands frá Úkraínu á síðasta ári og finnast nú í verslunum, meðal annars pakkað í umbúðir frá íslenskri kjötvinnslu. Áhyggjur sem bændur viðruðu vegna fyrirvaralausrar einhliða tollaniðurfellingu á úkraínskum vörum virðast því ekki hafa verið úr lausu lofti gripnar.
Í júní sl. lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á tollalögum sem fólu í sér tímabundna einhliða niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu. Meginmarkmið frumvarpsins var að Ísland sýndi stuðning sinn við Úkraínu í verki með því að greiða fyrir viðskiptum til að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að lögin gætu leitt til þess að fluttar yrðu til Íslands landbúnaðarvörur frá Úkraínu í meira mæli, sem gæti haft neikvæð áhrif á verð og framboð íslenskra landbúnaðarvara. Segir enn fremur:
„Ekki er talið líklegt að flutt verði inn kjúklingakjöt eða egg þar sem flutningsvegalengd er mikil.“
Tollaniðurfelling án fyrirvara
Í umsögn um frumvarpið lýstu Bændasamtökin áhyggjum af því hvaða áhrif innflutningurinn kynni að hafa á bændur. Lögðu þau til að tollaniðurfelling næði eingöngu til þeirra landbúnaðarafurða sem að jafnaði hafa verið fluttar inn frá Úkraínu, að magn innfluttra landbúnaðarafurða yrði skilgreint þannig að umfang þess myndi liggja ljóst fyrir og að kröfum um heilbrigði matvæla yrði fylgt í hvívetna.
Lögin voru hins vegar samþykkt óbreytt og tóku þau gildi 15. júní sl.
Áður hafði Evrópusambandið (ESB) afnumið tolla á úkraínskar vörur. Útfærsla ESB inniheldur fyrirvara, m.a. tekur niðurfellingin ekki til allrar tollskrár ESB, Úkraínu eru sett ákveðin skilyrði s.s. að upprunareglur séu virtar. Þá er í henni varúðarregla sem felur m.a. í sér að ef innflutt tollfrjáls vara er til þess fallin að valda framleiðendum í ESB tjóni, þá er heimilt að afturkalla niðurfellingu hvenær sem er. Slíka fyrirvara er ekki að finna í íslensku lögunum.
Mikill verðmunur
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 77.128 kíló af frystu og úrbeinuðu kjúklingakjöti flutt hingað til lands frá Úkraínu í september, nóvember og desember árið 2022. Er þetta að öllum líkindum í fyrsta sinn sem kjúklingur er fluttur hingað til lands frá Úkraínu.
Meðalverð á kíló miðað við uppgefið verð var 543 krónur. Gera má ráð fyrir að vörurnar hafi farið tollfrjálsar inn á markað skv. fyrrnefndum lögum. Á meðan var meðalverð á vörum undir sama tollskrárnúmeri frá öðrum löndum 668 krónur, en ofan á þær vörur hefur lagst tollaálagning og meðalinnflutningsverð var því um 1.221 krónur á kíló. Innflutningur
frá öðrum löndum nam rúmum 1.500 tonnum árið 2022.
Rétt að geta upprunalands
Guðmundur Svavarsson, formaður deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum, segir innflutninginn frá Úkraínu vekja ugg.
„Við höfum áhyggjur af því að þetta kjöt komi frá vinnslum sem lúta ekki sömu heilbrigðiskröfum og þekkjast hér og í Evrópusambandinu. Við höfum áhyggjur af mikilli sýklalyfjanotkun og enn fremur hvernig staðið er að framleiðslunni með tilliti til dýravelferðar og sjúkdómsvaldandi örvera.“
Guðmundur segir að sér sé tjáð að bak við innflutninginn standi m.a. fyrirtæki í eigu stórrar afurðastöðvar sem er í eigu bænda. Þá segir hann afar umhugsunarvert að látið sé í það skína að kjúklingurinn sé íslenskur.
„Ekki er gerð krafa um upprunaland þegar búið er að þíða kjötið, sprauta það með pækli eða setja á það smá krydd og endurpakka. Það væri hins vegar virðing við neytendur ef innflytjendur og þeir sem markaðssetja kjötið myndu geta upprunalands á erlendum vörum.“
Hann segir furðu sæta að ekki hafi verið settir sömu fyrirvarar á lagabreytingunni hér á landi líkt og gert var í Evrópusambandinu.
„Öll viljum við styðja Úkraínumenn svo sem frekast er kostur, en við höfum áhyggjur af því hvaða áhrif þetta gæti haft á framtíð íslenskrar alifuglaræktar. Þetta snýst ekki bara um kjúklinginn. Það kæmi mér ekki á óvart ef nautakjöt og svínakjöt kæmu nú í kjölfarið í stórum stíl og mögulega blóm og grænmeti, svo hér er allur íslenskur landbúnaður undir.“