Málþing um framtíð landbúnaðar
Tekið verður á mörgum hagsmunamálum landbúnaðarins á víðum grunni á opnum fundi sem nokkur samtök tengt landbúnaði standa fyrir í næstu viku.
Bændasamtök Íslands, Samtök fyrirtækja í landbúnaði, Samtök ungra bænda, Samtök smáframleiðenda matvæla og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði boða til fundar um framtíð íslensks landbúnaðar þann 26. febrúar á Hótel Nordica.
Ræða á um landbúnað í samhengi við almannahagsmuni, til að mynda í tengslum við fæðu- og þjóðaröryggi, hvernig Íslendingar geti orðið meira sjálfbærir í þeim efnum. Þá verður fjallað um mörg þau málefni sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélagsumræðunni í dag, eins og tollamál, raforkumál og garðyrkjubændur, byggðamál, nýsköpun, smáframleiðendur, nýliðun og unga bændur.
Á meðal fyrirlesara verða Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla, Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, Steinþór Logi Arnarsson, formaður Sambands ungra bænda og Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands.
Fundarstjóri verður Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.