Nú er runninn upp tími sáningar og forræktunar sumarblóma innandyra, það er að segja allnokkurra tegunda en alls ekki allra. Þær tegundir sem fyrst þarf að sá, og ættu í rauninni að vera komnar í mold, eru einkum stjúpa, brúðarauga og ljónsmunnur. Ekki skiptir öllu máli hvort sá á fræjum af sumarblómum, krydd- og matjurtum eða fjölæringum, því aðferðin er í megindráttum sú sama.
Auðvelt er að sá fyrir eigin sumarblómum. Allt sem þarf er dálítil sáðmold, hreinir sáðbakkar og suðurgluggi/góð birta. Að jafnaði má reikna með sex til tíu vikna þroskunarferli sumarblóma uns þau eru tilbúin. Almennt séð er ágætt að sá frá miðjum mars fram í apríl og halda græðlingum í sem mestri birtu eftir að þeir gægjast upp úr moldinni. Hafa þarf í huga að þvo vel áður notaða bakka og potta sem ætlað er að sá í.
Sáðbakkar þurfa 6-8 cm lag af góðri sáðmold. Líka má nota sáðtöflur. Einnig er hægt að setja venjulega gróðurmold í ílátið og tommuþykkt lag af sáðmold ofan á hana. Fræin spíra í sáðmoldinni og rótin vex síðan niður í gróðurmoldina. Þannig má spara sér að dreifplanta plöntunum í stærri potta um tíma.
Byrja þarf á að vökva moldina fyrir sáningu. Fræjunum er sáldrað jafnt yfir moldina og þess gætt að þau liggi ekki of þétt. Minnstu fræin, þau sem eru eins og sykurkorn eða minni, þarf ekki að hylja með mold, nóg er að þjappa þeim laust niður, önnur fá þunnt lag yfir sig.
Plastlok, eða plastpoka sem opinn er í endann, er gott að hafa yfir bakkanum eftir sáningu, sumir þekja með dagblaði uns græðlingarnir birtast. Góður spírunarhiti er yfirleitt um 18-22 °C en gott að lækka hitann um nokkrar gráður eftir að plönturnar koma upp.
Gætið þess að ekki myndist mygla í moldinni. Gamalt húsráð er að sáldra fínu lagi af kanel yfir sáðmoldina, það getur varnað myglu.
Vökvið vel og sjaldan, moldin á alltaf að vera rök.
Í kjölfarið er fljótlega unnt að dreifplanta plöntunum í litla potta með góðri gróðurmold. Sé dreifplantað í bakka ættu að vera minnst 5 cm milli plantna. Áfram þarf að hafa plönturnar í góðri birtu.
Gott er að herða plönturnar áður en þær eru settar út. Það er gert með því að setja þær út á daginn þegar orðið er frostlaust og taka inn að kvöldi. Stjúpur, fagurfífill og fjólur þola vel kulda og hægt að setja í útireit með yfirbreiðslu í byrjun apríl. Útplöntun ræðst af tíðarfari en yfirleitt má setja harðgerðustu tegundirnar í beð í lok maí og þær allra viðkvæmustu kringum miðjan júní.
Ungplönturnar þola ekki frost og því getur reynst nauðsynlegt að skýla þeim þar til hætta á næturfrosti er liðin hjá.
Sáningartími nokkurra sumarblómategunda
Febrúar
Stjúpublóm Viola x wittrockiana Drottningarfífill Zinnia elegans Ljónsmunnur Antirrhinum majus Mánafífill Gazania x hybrida Stjörnuklukka Campanula poscharskyana