Ístex annar ekki eftirspurn í Léttlopa og Álafosslopa
Þrátt fyrir COVID-19 hefur sjaldan verið jafnmikið að gera hjá Ístex eins og nú og segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Sigurður Sævar Gunnarsson, að líkja megi ástandinu við tímabilið eftir efnahagshrun. Sala á íslenskum lopa til Finnlands eykst ár frá ári á meðan Bretlandsmarkaður er nánast stopp í augnablikinu.
„Okkar staða er mjög sérstök eins og í útflutningsullinni. Á Bretlandsmarkaði, sem hefur jafnan verið okkar stærsti utanlandsmarkaður, er markaðurinn erfiður og verðið er lágt. Það er reyndar aðeins að skána varðandi sölu en verðið hefur staðið í stað. Við höfum aðallega verið að selja í gólfteppaband til Bretlands en sá markaður er stopp eins og staðan er núna út af COVID-19 því ullin okkar hefur þá mest verið að nýtast í gólfteppi í skemmtiferðaskip, hótel og skóla sem dæmi,“ útskýrir Sigurður.
Finnlandsmarkaður ört stækkandi
Innanlandsmarkaður hefur verið líflegur undanfarið ár og eins sala á íslenskum lopa til Finnlands og Skandinavíu, svo borið hefur við að ákveðnir litir hafa verið uppseldir um nokkurt skeið, sérstaklega í Léttlopa og Álafosslopa.
„Ístex hefur fimm tekjulindir og núna er það lopinn sem heldur öllu uppi því mikið er að gera í sölu á honum. Það er að stórum hluta drifið af Finnlandi og Skandinavíu. Það er eitthvað skrýtið að gerast í Finnlandi en frá árinu 2017 hefur sala tvöfaldast á hverju ári þangað,“ segir Sigurður og bætir við:
„Við erum með ákveðið magn á innanlandsmarkaði og það hefur breyst mikið undanfarið, eða frá fyrirtækjum til einstaklinga. Áður fór töluvert mikið í ferðamannaiðnaðinn sem hægði verulega á þegar kórónukrísan skall á en þó eru staðir niðri í miðbæ veit ég sem eru mikið í netsölu á lopa erlendis. Við erum með rúmlega fjögurra mánaða sölupantanir á Léttlopa og Álafosslopa og við náum ekki að anna eftirspurn en það tekur okkur upp í mánuð að framleiða lit í þessum vöruflokkum. Því höfum við sett á kvöldvaktir og erum að leita allra leiða til að anna eftirspurninni og erum með í skoðun að kaupa auka dokkuvél til að auka afköstin. Við héldum að þetta myndi róast núna eftir jólin en það hefur frekar aukist í og það er prjónafólkið hér heima sem ýtir þessu öllu áfram, þetta er svipuð þróun og við sáum eftir efnahagshrunið.“
Sigurður Sævar Gunnarsson.