Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Björgvin Þór Harðarson, svína- og kornbóndi, er formaður undirbúningsnefndar fyrir stofnun kornsamlags á Suðurlandi.
Björgvin Þór Harðarson, svína- og kornbóndi, er formaður undirbúningsnefndar fyrir stofnun kornsamlags á Suðurlandi.
Mynd / Aðsend
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og kaupenda korns.

Björgvin Þór Harðarson er svína- og kornbóndi í Laxárdal og formaður undirbúningsnefndar fyrir stofnun kornsamlags á Suðurlandi. Á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands (BSSL) var samþykkt tillaga með hvatningu um að stjórn félagsins styðji við endurvakningu kornræktarfélagsins og haldi utan um félagið.

Aðalfundurinn fór fram í Hótel Fljótshlíð, Smáratúni þriðjudaginn 5. mars síðastliðinn. Þar fór Björgvin yfir það helsta sem undirbúningshópur um stofnun kornsamlags á Suðurlandi hefur lagt til. Það er meðal annars að endurvekja Kornræktarfélag Suðurlands.

„Hugmyndin er að gera Kornræktarfélagið aðildarfélag að Búnaðarsambandi Suðurlands. Þau félagasamtök munu vera notuð til að tengja saman bændur, bæði þá sem rækta korn og kaupa korn,“ segir Björgvin, sem vonast til að félagið geti skapað tengingar og ramma utan um viðskipti með korn.

Nýta fyrri fjárfestingar

Fyrsta skrefið verður að halda fund í vor og endurvekja félagið undir hatti BSSL.

„Þá mun fólk geta skráð sig í félagið ef það er ekki þegar aðili að því. Búin verður til félagaskrá og stjórn kosin. Í framhaldi mun stjórnin setja saman verðskrá og gæðastaðla, sem tilgreina hvernig korn þarf að vera til að vera söluhæft. Þá verður mótuð verðskrá og svo hugsanlega gerðir samningar við þær þurrkstöðvar sem eru nú þegar starfandi á svæðinu og geta tekið á móti korni við næstu uppskeru.“

Þrjár kornþurrkstöðvar eru starfandi á starfssvæði BSSL; á Þorvaldseyri, í Gunnarsholti og í Birtingaholti. Björgvin segir þær geta annað um 2.000 tonnum af korni en auk þess séu til staðar fleiri tæki sem hægt væri að ræsa aftur án mikils tilkostnaðar ef vilji er til. „Menn geta þá nýtt þá fjárfestingu sem þegar er til ef menn vilja, til þess að byrja að þurrka og kenna bændum að selja og kaupa.“

Þegar fram líða stundir segir Björgvin að félagið geti mögulega gert samninga við fóðurfyrirtæki. „Bændur gætu þá lagt inn korn og haft fyrirsjáanleika um verð miðað við gæði.“ Þá séu einnig stærri hugmyndir um stofnun kornsamlags sem yrði í hlutafélagsformi.

Fjárfestingastyrkir forsenda

Kornræktarfélag Suðurlands var stofnað árið 2012 og eru Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, og Birkir Arnar Tómasson, bóndi á Móeiðarhvoli, skráðir eigendur þess. Það ár stóð félagið fyrir fundi um korn og repjurækt þar sem kynnt var hagkvæmnisathugun um að reisa þurrkstöð fyrir korn á Suðurlandi. „Engin stór skref voru tekin í þá átt en félagið snerist meira um að miðla þekkingu á kornrækt. Nú er stefnan að tengja bændur saman á forsendum viðskipta,“ segir Björgvin.

Hann hyggur að frá og með næstu kornuppskeru geti bændur gengið að samningum milli þurrkstöðva í gegnum Kornræktarfélag Suðurlands. „Fjárfestingastyrkir í kornrækt eru forsenda þess að hægt sé að ýta þessu af stað.“

Á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands kom fram að staða sambandsins og dótturfyrirtækja þess væri góð. Rekstrarafgangur félagsins væri í heild rúmar 24 milljónir króna sem skapast af góðum rekstri dótturfyrirtækja og sterkri eiginfjárstöðu að því er fram kemur í frétt BSSL.

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...