Krókódílar í stað fangavarða
Yfirmaður fíkniefnalögreglunnar í Indónesíu hefur sett fram hugmynd um að láta krókódíla í stað fangavarða vakta fangelsi sem hýsir dauðadæmda fanga í landinu.
Rökin fyrir þessu eru að í mörgum tilfellum eru krókódílar betri fangaverðir en menn þar sem ekki er hægt að múta þeim. Ströngustu fíkniefnalög í heimi eru í gildi í Indónesíu og stór hluti fanga, sem dæmdir eru til dauða í landinu, er sakfelldur fyrir glæpi sem tengjast fíkniefnum.
Að sögn yfirmanns fíkniefnalögreglunnar stendur yfir leit að heppilegum stað til að setja upp fangelsi þar sem hægt er að loka það af með síki umhverfis sem fyllt verður með krókódílum sem koma í veg fyrir að fangar geti strokið eða keypt sér leið úr fangelsi.