Lakasta uppskera í áratug og fæðuskortur í landinu
Uppskera í Norður-Kóreu hefur verið lítil undanfarinn tíu ár en var með allra minnsta móti á síðasta ári. Talið er að hátt í tíu milljón manns í landinu sem lifi við skort þurfi enn að herða sultarólina.
Samkvæmt nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna segir að viðvarandi matvælaskortur í Norður-Kóreu sé kominn á hættulegt stig og að útlit sé fyrir að íbúar landsins þurfi enn að draga úr neyslu. Talin er hætta á að birgðir í landinu dugi ekki til að framfleyta þjóðinni fram yfir næsta uppskerutíma.
Hitar og þurrkar
Uppskera undanfarin tíu ár hefur verið með lakasta móti og var með afbrigðum léleg á síðasta ári vegna hita og þurrka í landinu. Í skýrslunni segir að skortur á eldsneyti, áburði og varahlutum í landbúnaðartæki hafi einnig letjandi áhrif á möguleika íbúa landsins til að auka uppskeruna. Auk þess sem slæmar aðstæður til geymslu á uppskerunni valdi því að mikið af henni skemmist.
Lágmarksskammtur af hrísgrjónum
Ástandið er talið verst þegar kemur að kornabörnum og ófrískum konum, sem í mörgum tilfellum þjást þegar af næringarskorti og sagt er að stór hluti þjóðarinnar dragi fram lífið á lágmarksskammt af hrísgrjónum frá degi til dags.
Í skýrslunni er mælt með að íbúum Norður-Kóreu verði veitt matvælaaðstoð sem fyrst og að átak verði gert í að vélvæða landbúnað í landinu til að ýta undir aukna matvælaframleiðslu.