Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Gunnar Þór Þórisson og Guðrún Marinósdóttir, bændur á Búrfelli í Svarfaðardal, standa í ströngu við nýja fjósbyggingu en þau stefna að því að taka það í notkun í byrjun mars á næsta ári. Stefna þau að því að auka við bústofninn. Nú eru um 35 mjólkandi kýr
Gunnar Þór Þórisson og Guðrún Marinósdóttir, bændur á Búrfelli í Svarfaðardal, standa í ströngu við nýja fjósbyggingu en þau stefna að því að taka það í notkun í byrjun mars á næsta ári. Stefna þau að því að auka við bústofninn. Nú eru um 35 mjólkandi kýr
Fréttir 2. október 2017

Leituðu bestu og hagkvæmustu kostanna

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við höfum haft að leiðarljósi við allar framkvæmdir hér að leita bestu og hagkvæmustu kosta, en lögðum mikinn metnað í það að ná að semja við verktaka í okkar heimabyggð, Dalvíkurbyggð, og það tókst nánast að öllu leyti,“ segir Gunnar Þór Þórisson, bóndi á Búrfelli í Svarfaðardal.
 
Þar býr hann ásamt konu sinni, Guðrúnu Marinósdóttur. Þau hafa frá því um miðjan júní í sumar staðið í ströngu við nýja fjósbyggingu og stefna að því að taka nýtt og glæsilegt fjós í notkun í byrjun mars á næsta ári.
 
Guðrún er fædd og uppalin á Búrfelli í Svarfaðardal, hún tók við búinu af foreldrum sínum árið 1998, en Gunnar Þór, sem ólst upp í Auðbrekku í Hörgársveit, flutti að Búrfelli árið 2000. Þau reka þar blandað bú sem stendur, eru með um 115 kindur og um 35 kýr. 
 
Þessi loftmynd af Búrfelli sýnir vel afstöðu húsanna á bænum. 
 
Með bjartsýni í farteskinu
 
„Við höfum verið að byggja hér upp á okkar búskaparárum en þetta eru umfangsmestu framkvæmdir sem við höfum ráðist í. Líklega ræður bjartsýni á framtíð mjólkurframleiðslunnar í landinu einhverju þar um, en við tókum þá ákvörðun að ráðast í þessar byggingaframkvæmdir og búa í haginn til framtíðar,“ segir Gunnar.
 
Aldamótaárið, þegar Gunnar og Guðrún rugluðu saman reytum, hófust þau þegar handa við að stækka búið og tóku þá hlöðuna í gegn, komu haughúsi þar fyrir sem og lausagöngu fyrir geldneyti auk nokkurra bása. Þeim framkvæmdum lauk árið 2003 og var aðstaðan á þeim tíma eins og best verður á kosið. „Svo líður tíminn og alls kyns breytingar eru gerðar þannig að það var kominn tími til að bretta upp ermar á nýjan leik,“ segir Gunnar. 
 
Nokkrir starfsmenn frá pólska fyrirtækinu sem framleiðir fjósið koma að Búrfelli í október og verða um það bil þrjár vikur að reisa húsið, sem verður stálgrindarhús með yleiningum.
 
Stefnt á helmingsstækkun
 
Fjósið á Búrfelli er nokkuð gamalt, frá því í kringum 1980, það stóðst því ekki lengur reglugerð um aðbúnað dýra, m.a. voru básar of stuttir og ýmislegt annað sem gera þurfti bragarbót á. 
 
„Fjósið var komið til ára sinna og þörf orðin á endurnýjun, sjálft húsið stendur fyrir sínu, en við tókum þá ákvörðun að moka hreinlega öllu út úr gamla fjósinu, þannig að eftir stendur aðeins byggingin sjálf. Þar munum við innrétta upp á nýtt, koma fyrir legubásum fyrir geldkýr, burðarstíum og ýmsu því sem kveðið er á um í  nýju reglugerðinni að fyrir hendi þurfi að vera, auk þess að gera þar pláss fyrir nautaeldi sem ætti að geta alið um 20 naut til slátrunar á ári. 
 
Við erum svo að reisa hér glænýtt fjós, 688 fermetra að stærð, og þar er pláss fyrir „64 kýr auk smákálfa að 6 mánaða aldri. Stefnan er að stækka bústofninn um helming með tilkomu nýja fjóssins og vera hér með um 55 til 60 mjólkandi kýr í nánustu framtíð.“
 
Frumraun á Íslandi
 
Nýja fjósið að Búrfelli er flutt inn frá Póllandi, það er Byko sem flytur inn og er Búrfellsfjósið hið fyrsta sinnar tegundar sem reist er hér á landi. 
 
Gunnar segir að hann kannist við starfsmenn í verslun Byko á Akureyri og þeir hafi sett sig í samband og kynnt þessa nýjung fyrir þeim Guðrúnu þegar fregnir bárust af því að þau hyggðu á fjósbyggingu. 
„Við vorum að skoða ýmsa kosti, fara yfir allt sem í boði var ef svo má segja. Eftir mikla yfirlegu og útreikninga reyndist þetta hagstæðasti kosturinn og við erum bara spennt að sjá hver útkoman verður,“ segir hann. Til stendur að reisa húsið sjálft í næsta mánuði og um það sjá heimamenn frá hinu pólska fyrirtæki sem framleiðir það. Þeir koma í október og verða um það bil þrjár vikur að störfum á Búrfelli, að sögn Gunnars. Þetta er frumraun hjá Byko, fyrsta fjósið af þessu tagi sem rís hér á landi og hlakka menn mikið til að sjá hver útkoman verður.
 
Halda kostnaði í lágmarki 
 
„Þetta var langhagstæðasta tilboðið, við höfum reynt að fara þá leið að halda kostnaði eins lágum og mögulegt er og það hefur tekist bærilega,“ segir Gunnar. 
 
Pólska húsið er stálgrindarhús með yleiningum. Loftræstikerfi verður í nýja fjósinu sem er viftukerfi, ábúendur á Búrfelli tóku slíkt kerfi fram yfir þakglugga sem gjarnan eru hafðir á nýjum fjósum nú til dags, einkum vegna þess að á stundum og í ákveðnum áttum gerir hávaðarok um dalinn auk þess að vera mun ódýrari kostur en þakgluggar. 
 
„Við höfðum það í huga þegar við völdum kerfið,“ segir hann. 
Tækjabúnaður, m.a. öll mjaltatækni og lýsing, kemur frá Lely en val á mjaltaþjóni segir Gunnar að mestu byggjast á sérvisku, verð hafi þar líka sitt að segja en ekki síst sú þjónusta sem í boði er og kostnaður við hana.
 
Gjafakerfið er af gerðinni Cow-Pow sem er með þeim hætti að kýrnar ýta af eigin þunga eins og sauðféð hefur dundað við í mörg ár. Gunnar segir mjög góða reynslu af þessu hér á landi og að kerfið standist fyllilega samanburð við önnur, en hefur það helst umfram þau að vera mun ódýrari og miklu einfaldari í uppsetningu og notkun.
 
Tekið í notkun í mars á næsta ári
 
Fjósið verður sem fyrr segir reist í október, þegar steypuvinnu lýkur. Þá tekur við vinna við að setja upp innréttingar og koma tækjabúnaði fyrir. „Við stefnum ótrauð að því að taka nýja húsið í notkun í byrjun mars á næsta ári.
 
Fram til þessa hefur allt gengið eftir áætlun og við erum mjög ánægð með framvinduna. Við hlökkum mikið til að takast á við þau verkefni sem framundan eru, við munum stækka búið um allt að helming frá því sem nú er, erum þegar byrjuð á því verkefni, keyptum 14 kvígur úr Bárðardal á liðnu vori,“ segir Gunnar. 

Skylt efni: fjósbygging | Fjós

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...