Meðalfallþungi sláturlamba í haust sá mesti í sögunni
Samkvæmt tölum frá Matvælastofnun yfir sauðfjárslátrun í haust, þá hefur sláturlömbum (dilkum) fækkað um 20.377 frá sláturtíðinni 2020. Eins hefur innvegin vigt lækkað á milli ára um 106,9 tonn, en meðalvigt sláturlamba hefur hins vegar aukist úr 16,9 kg í 17,4 sem er mesti meðalfallþungi sem sést hefur.
Hækkandi meðalvigt sláturlamba er vart skýrð með öðru en góðum árangri í ræktunarstarfi bænda. Þó hefur gott tíðarfar í sumar eflaust hjálpað til við að hífa meðalfallþungann upp um hálft kíló á milli ára.
Breyting á meðalvigt vegur þungt
Ef lömbum til slátrunar hefði ekki fækkað um 20.377 á milli ára hefði heildarvigtin orðið nærri 355 tonnum meiri en raunin varð. Að sama skapi má snúa dæminu við. Ef meðalfallþunginn í ár hefði verið sá sami og haustið 2020, þá væri innvigtun dilka nú rúmum 237 tonnum minni en raunin er. Þannig er góður ræktunarárangur og tíðarfar að vega upp drjúgan hluta fækkunar sláturdilka milli ára.
Aukinn fallþungi hjá öllum sláturhúsum landsins
Fallþungi hefur aukist á milli ára hjá öllum níu sláturhúsum landsins, sem eru einu færri en í fyrra þar sem Sláturfélagið Búi svf. á Hornafirði er ekki lengur starfandi. Mest meðalþyngd dilka mældist hjá sláturhúsinu Seglbúðum, eða 18,49 kg. Hann var 18,35 kg haustið 2020 þegar þetta hús var líka með mestan fallþunga í landinu, en þetta er jafnframt minnsta sláturhúsið með 703 dilka. Næstmesti fallþunginn á þessu hausti mældist hjá Sláturhúsi Vesturlands, eða 18,19 kg.
Minnsta meðalvigtin var hjá Sláturfélagi Vopnfirðinga, eða 16,81 kg, sem var 470 grömmum lægri meðalvigt en hjá Sláturfélagi Suðurlands sem var með næst lægstu meðalvigt á þessu hausti.
Greinilegt er að fækkun sauðfjár á undanförnum árum er nú að koma fram í umtalsverðri fækkun dilka sem komu til slátrunar í haust. Þannig kom 485.701 dilkur til slátrunar haustið 2020 en 465.324 nú, sem er eins og fyrr segir fækkun um 20.377 dilka.
Fullorðið sláturfé nánast jafnmargt og 2020
Samkvæmt upplýsingum frá MAST er enn verið að slátra fullorðnu fé en útlit er fyrir að fjöldi fullorðins fjár sem kemur til slátrunar í haust verði nánast sá sami og í fyrra, eða um 51.000. Í byrjun 46. viku var fjöldinn kominn í um 50.600. Það eru þá tölur með þeim skrokkum sem eru óhæfir til vinnslu og fara í úrkast og teljast ekki með í vigtun. Nettótalan af fullorðnu fé sem kom til slátrunar og vinnslu haustið 2020 var 49.237.
Ef gengið er út frá að fallþungi fullorðins fjár sé óbreyttur á milli ára, þá verður heildarþungi innveginna skrokka í ár um 9.358 tonn á móti 9.465 tonnum á síðasta ári.